Myndin skýrist.

Upplýsingar Geirs H. Haarde um það hann hefði viljað stuðla að sameiningu Glitnis og Landsbanka í ágúst en forráðamenn bankanna talið það ástæðulaust sýnir hve andvaralausir bankamennirnir voru á þeim tíma og fullir afneitunar.

Þegar Geir hinsvegar segir að tilboðið fræga á ögurstundinni um svipað efni hefði verið ómögulegt er á hitt að líta að svo virðist sem ekkert hafi verið gert af hálfu ríkisins til að koma með breytingartillögur við tillögurnar. Kannski fannst þeim í of mörg horn að líta, - kannski var tímahrakið of mikið.

Ef það er rétt hjá Björgólfi sem ekki hefur verið mótmælt, að forstöðumaður sjálfs Fjármálaeftirlits Bretlands hafi verið í útkalli hinn örlagaríka sunnudag til að koma Icesafe undir breska lögsögu á fimm dögum er ljóst að það var mikið ólán að hér heima virtist ekkert aðhafst í því máli.

Við sjáum hér atburðarás sem sýnir að á flestum stigum málsins voru einhverjir aðilar þess og stundum allir alls ekki með á nótunum og klúðruðu hugsanlega tækifærum sem hefðu gert lendinguna eitthvað mildari. Það munar um innistæðurnar á Icesafe, sem nú eru eins og sker, sem nágrannaþjóðirnar Bretland og Ísland hafa nú strandað á.


Gott að eiga góða að.

Bandarísku olíufyrirtækin hafa átt hauk í horni þar sem George W. Bush er. Fróðlegt hefur verið að sjá í heimildarþáttum og annars staðar hvernig menn fyrirtækisins hafa verið innstu koppar í búri forsetans, og til dæmis strikað óþægilegar setningar út úr skýrslum færustu vísindamanna um hlýnun jarðar og fengið eins öflugan stuðning við sig og forsetanaum var framast unnt.

Jarðefnaeldsneytið er enn langverðmætasta og jafnframt langvandmeðfarnasta orkulind jarðar. Bæði er auðlindin takmörkuð og veldur gríðarlegum áhrifum á lífsskilyrði jarðarbúa.

Það mun síðar skráð á spjöld sögunnar hvernig kynslóðir olíualdar (samanber steinöld, bronsöld) drýgðu þann glæp gagnvart afkomendum sínum að bruðla með þennan auð í takmarkalítilli eigingirni á kostnað komandi kynslóða. Við Íslendingar höfum verið hvað fremstir bruðlaranna hvað snertir bíla- og skipaflotann.  

Á spjöldum sögunnar um bruðl olíualdarinnar munu nöfn Exxon og Bush verða ofarlega á lista.


mbl.is Mesti hagnaður sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1937 og 67 upp á nýtt?

Fyrri hluta árs 1967 var kreppa í aðsigi á Íslandi. Norðmenn og Íslendinga höfðu ofveitt síldina, sem hafði verið gjöful árin á undan og gíðarlegt verðfall varð á fiskafurðum erlendis. Krónan var allt of hátt skráð.

Landsmenn höguðu sér svipað og hermenn í stríðinu sem átti að senda í lífshættulega leiðangra og djömmuðu áður en áfallið dyndi yfir. Farnar voru skemmtiferðir á þremur skemmtiferðaskipum, bílum mokað inn í landið og stofnsett sjónvarpsstöð. Þá, eins og nú, hrópuðu ráðamenn: "Sjáið þið ekki veisluna?"

Þegar Bretar felldu gengi pundsins felldu Íslendingar gengi krónunnar tvívegis og ég söng: "Fella gengið hrika-ganta-gríðar-yndislega!" Atvinnuleysi hélt innreið sína og fjöldi Íslendinga flutti til Svíþjóðar og Ástralíu. Hljómar kunnuglega? Já, en sveiflan upp og niður er miklu meiri núna.

1937 lokaðist saltfiskmarkaður á Spáni og heimskreppan var í gangi. Krónan var allt of hátt skráð. Innflutningshöft komu að vísu í veg fyrir svipaða ofneyslu og var undanfari kreppunnar núna en 1939 var landið á barmi gjaldþrots og stærsta útgerðarveldi landsins, Kveldúlfur, varð gjaldþrota. Mynduð var þjóðstjórn 1939 og öll sund virtust lokuð þegar stríðið og Bretinn og kaninn komu og björguðu málum.

Slíkt mun varla gerast nú. Við horfumst sennilega í augu við gjaldþrot stefnunnar "þetta reddast einhvern veginn."


mbl.is Sölutregða á þorski og ýsu ytra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband