Af hverju fékk Össur ekkert að vita?

Af hverju fékk Össur Skarphéðinsson ekkert að vita um bréf Davíðs? Eða öllu heldur, af hverju var það ekki rætt í ríkisstjórninni úr því að það var svona mikilvægt? Voru ríkisstjórnarfundirnir bara hugguleg teboð? Ég fæ ekki betur séð en ummæli Össurar feli í sér ádeilu hans á Geir H. Haarde og þá sem vissu um efni bréfsins.

Í flótta sínum undan ábyrgð á fjármálahruninu virðist hver beina spjótum sínum að öðrum, jafnt samherjum sem andstæðingum. Það ríkir vargöld í stjórnmálunum núna.


mbl.is Davíð á ábyrgð forystu ríkisstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðið um Sjálfstæðisflokkinn hafið.

Davíð Oddsson sprengdi fyrstu stóru sprengjurnar í komandi stríði um Sjálfstæðisflokkinn í morgun og nú skilur maður, af hverju Geir H. Haarde hefur ekki þorað að blaka við honum. Geir vissi um leynivopnin gegn honum sem Davíð hafði uppi í erminni og einnig um símtölin, sem hann sagði í morgun að hann hefði áfram uppi í erminni.

Ekki þarf að vera víst að Davíð hafi þessi símtöl handbær en honum er trúandi til að hóta þeim, vegna þess að hann telur að Geir viti upp á sig skömmina.  

Dropinn sem vafalaust hefur fyllt mælinn í huga Davíðs er líklega flýting landsfundar og skipan ESB-nefndarinnar sem túlkuð er sem undanfari stefnubreytingar flokksins í Evrópumálum.

Davíð hefur þetta stríð vegna þess að hann er kominn út í horn og hefur allt að vinna og engu að tapa. Hótanir hans um að koma aftur í pólitík, sem orðrómur hefur verið um í allt haust, og ætlað var að beygja Geir, hafa greinilega ekki dugað og þar með er Davíð kominn út á vígvöllinn rétt eins og 1991.

Styrmir Gunnarsson og margir fleiri í Sjálfstæðisflokknum lögðust gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn skæri Samfylkinguna niður úr snöru fylgistaps í kosningunum með því að leiða hana til ríkisstjórnar.

Að margra dómi stóð Davíð Oddsson á bak við þetta og vildi frekar stjórn með VG undir merkjum þess að standa utan ESB. Örvæntingartilboð Steingríms J. miðvikudaginn eftir kosningar að kokgleypa álverin sýndi merki um að þeim megin var líka hljómgrunnur fyrir því að komast út úr eyðimerkurgöngunni utan stjórnar þótt það kostaði eftirgjöf í umhverfismálum.

Sagt er að Davíð hafi verið í stanslausu sambandi við Steingrím J. síðan og athyglisvert að fylgjast með því hvernig Steingrímur hefur forðast að nefna nafn Davíðs í ádeilu sinni á stjórnvöld og stofnanir.

Vegna fjárskorts og kreppu minnka líkur á miklum stóriðjuframkvæmdum næstu tvö ár og það auðveldar VG að stökkva upp í sængina hjá Sjálfstæðisflokknum og taka slaginn gegn ESB-aðild.

"Ekki benda á mig" sagði varðstjórinn. Það er það sem Davíð er að gera nú og hefur til dæmis það á Geir að áður en Kastljósviðtalið fræga var tekið álpaði Geir hinu sama út úr sér á blaðamannafundi svo að Bretar voru fljótir að fatta það að ætlun Íslendinga yrði að mismuna innistæðueigendum í Icesafe eftir þjóðernum.

Ofan á allt fær Davíð Geir til að verja óbeint það athæfi Seðlabankans þremur mánuðum eftir bréfið fræga á lokaða fundinum í febrúar þegar bankinn gaf fjármálastofnunum gæðavottorð um góða lausafjárstöðu og burði til að standast álag.

Geir sagði nefnilega í hádegisviðtali í dag að þótt alvarlegar aðvaranir hefðu verið til umræðu á lokuðum fundum hefði ekki verið hægt að láta þær uppi á opinberum vettvangi vegna hættunnar á að það ylli álitshnekki og skaða sem vonast hefði verið til að komast hjá.

Þar með veitir hann Davíð syndakvittun fyrir hinu opinbera maí-áliti Seðlabankans. Geir virðist ekki gera sér grein fyrir slóttugheitum Davíðs og aðferðum, sem byggjast á þeirri greiningu hans á stjórnmálum að þau hlíti sömu lögmálum og réðu því í Íslendingasögunum þegar menn vógu hver annan.

Davíð segir erlenda eftirlitsaðila hafa kvittað upp á hina skaðlegu stýrivaxtastefnu Seðlabankans og með smjörklípum leynilegra símtala og leynilegra bréfa ræður hann umræðunni og ferðinni. Já, Davíð Oddsson, "att his brilliant best" eða "worst" eins og þeir myndu orða það í útlandinu.  


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öllum er andskotans sama.

Á hinum frábæra fundi í kvöld lagði ég spurningu fyrir fulltrúa fjölmiðlanna. Þannig vildi til að í dag fékk ég upphringingu frá Braga Árnasyni, sem hefur fengið hingað fleiri fulltrúa erlendra fjölmiðla til viðtals við sig en nokkur annar Íslendingur vegna þess að hann er "faðir vetnisvæðingarinnar".

Bragi benti mér á tvö vísindarit eftir sig sem vörðuðu nýtingu jarðhitans á Íslandi. Í þeim ritum er að finna frekari staðfestingu á því sem ég hef reynt ítrekað með öllum ráðum að koma á framfæri síðustu ár að með því að pumpa upp 800 megavöttum af jarðvarmaorku á Reykjanesskaga er gengið svo hratt á heita vatnið að jarðhitasvæðin verða orðin köld og ónýt eftir nokkrar áratugi.

Bragi giskar á að heil öld muni líða eftir það að meðaltali þar til svæðin hafi jafnað sig. Fjórar kynslóðir verða rændar.  

Fyrir nokkrum árum skrifaði Jóhannes Zoega fyrrum hitaveitustjóri blaðagrein og varaði við þessu.

Sveinbjörn Björnsson staðfesti þetta við mig í meginatriðum.

Stefán Arnórsson staðfesti það í fyrirlestri á aðalfundi Landverndar.

Í frægum Kastljósþætti um Kröflumálið lá fyrir staðfesting Guðmundar Pálmasonar í þessa átt, en varúðarreglur við jarðhitanýtingu, sem upphaflega voru mótaðar af honum, voru þverbrotnar við Kröflu og eru nú þverbrotnar stanslaust í skefjalausri græðgi og orkufíkn okkar kynslóðar.

Hvað þýðir þetta á mannamáli?

1. Barnabörn okkar mun standa frammi fyrir því að finna 800 megavött í stað þeirra sem við rændum af þeim.

2. Forseti landsins, ráðherrar og landsmenn halda áfram að ljúga því að erlendum þjóðhöfðingjum og útlendingum að orkan sé endurnýjanleg og hrein. Fjölmiðlar eru meðvirkir í lyginni með því að fjalla ekki um málið.

Ég lagði eftirfarandi spurningu fyrir fulltrúa fjölmiðlanna á fundinum í kvöld:

 

Á ferðinni er framtíðardrama,

sem fólkinu verður til ama:

Hreinræktað rán

og hörmuleg smán.

Er öllum andskotans sama?

 

Fulltrúar fjölmiðlanna tóku frekar þann kost að svara öðrum spurningum þrátt fyrir að ég fengi fundarstjóra til að minna á spurningu mína.

Ekkert svar, enginn áhugi.

Niðurstaða: Fjölmiðlarnir munu halda áfram að þegja um þetta og ráðamenn þjóðarinnar og þjóðin öll getur haldið áfram óáreitt að ljúga að sjálfri sér og umheiminum að á Reykjanesskaga sé nýtt endurnýjanleg og hrein orka.

Yfirgnæfandi meirihluti sem þetta mál varðar er ýmist börn eða ófæddur. Það verður ekki skemmtilegt fyrir þau að horfast í augu við það hve öllum var andskotans sama árið 2008.

En okkur er auðvitað andskotans sama um það.


mbl.is Troðfullt á fundi á Nasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband