Stríðið um Sjálfstæðisflokkinn hafið.

Davíð Oddsson sprengdi fyrstu stóru sprengjurnar í komandi stríði um Sjálfstæðisflokkinn í morgun og nú skilur maður, af hverju Geir H. Haarde hefur ekki þorað að blaka við honum. Geir vissi um leynivopnin gegn honum sem Davíð hafði uppi í erminni og einnig um símtölin, sem hann sagði í morgun að hann hefði áfram uppi í erminni.

Ekki þarf að vera víst að Davíð hafi þessi símtöl handbær en honum er trúandi til að hóta þeim, vegna þess að hann telur að Geir viti upp á sig skömmina.  

Dropinn sem vafalaust hefur fyllt mælinn í huga Davíðs er líklega flýting landsfundar og skipan ESB-nefndarinnar sem túlkuð er sem undanfari stefnubreytingar flokksins í Evrópumálum.

Davíð hefur þetta stríð vegna þess að hann er kominn út í horn og hefur allt að vinna og engu að tapa. Hótanir hans um að koma aftur í pólitík, sem orðrómur hefur verið um í allt haust, og ætlað var að beygja Geir, hafa greinilega ekki dugað og þar með er Davíð kominn út á vígvöllinn rétt eins og 1991.

Styrmir Gunnarsson og margir fleiri í Sjálfstæðisflokknum lögðust gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn skæri Samfylkinguna niður úr snöru fylgistaps í kosningunum með því að leiða hana til ríkisstjórnar.

Að margra dómi stóð Davíð Oddsson á bak við þetta og vildi frekar stjórn með VG undir merkjum þess að standa utan ESB. Örvæntingartilboð Steingríms J. miðvikudaginn eftir kosningar að kokgleypa álverin sýndi merki um að þeim megin var líka hljómgrunnur fyrir því að komast út úr eyðimerkurgöngunni utan stjórnar þótt það kostaði eftirgjöf í umhverfismálum.

Sagt er að Davíð hafi verið í stanslausu sambandi við Steingrím J. síðan og athyglisvert að fylgjast með því hvernig Steingrímur hefur forðast að nefna nafn Davíðs í ádeilu sinni á stjórnvöld og stofnanir.

Vegna fjárskorts og kreppu minnka líkur á miklum stóriðjuframkvæmdum næstu tvö ár og það auðveldar VG að stökkva upp í sængina hjá Sjálfstæðisflokknum og taka slaginn gegn ESB-aðild.

"Ekki benda á mig" sagði varðstjórinn. Það er það sem Davíð er að gera nú og hefur til dæmis það á Geir að áður en Kastljósviðtalið fræga var tekið álpaði Geir hinu sama út úr sér á blaðamannafundi svo að Bretar voru fljótir að fatta það að ætlun Íslendinga yrði að mismuna innistæðueigendum í Icesafe eftir þjóðernum.

Ofan á allt fær Davíð Geir til að verja óbeint það athæfi Seðlabankans þremur mánuðum eftir bréfið fræga á lokaða fundinum í febrúar þegar bankinn gaf fjármálastofnunum gæðavottorð um góða lausafjárstöðu og burði til að standast álag.

Geir sagði nefnilega í hádegisviðtali í dag að þótt alvarlegar aðvaranir hefðu verið til umræðu á lokuðum fundum hefði ekki verið hægt að láta þær uppi á opinberum vettvangi vegna hættunnar á að það ylli álitshnekki og skaða sem vonast hefði verið til að komast hjá.

Þar með veitir hann Davíð syndakvittun fyrir hinu opinbera maí-áliti Seðlabankans. Geir virðist ekki gera sér grein fyrir slóttugheitum Davíðs og aðferðum, sem byggjast á þeirri greiningu hans á stjórnmálum að þau hlíti sömu lögmálum og réðu því í Íslendingasögunum þegar menn vógu hver annan.

Davíð segir erlenda eftirlitsaðila hafa kvittað upp á hina skaðlegu stýrivaxtastefnu Seðlabankans og með smjörklípum leynilegra símtala og leynilegra bréfa ræður hann umræðunni og ferðinni. Já, Davíð Oddsson, "att his brilliant best" eða "worst" eins og þeir myndu orða það í útlandinu.  


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Hjartanlega sammála þér Ómar.

hilmar jónsson, 18.11.2008 kl. 13:44

2 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Þetta er nú ljóta bullið í þér Ómar Ragnarsson.

Þorkell Sigurjónsson, 18.11.2008 kl. 13:56

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér fyndist mjög gott og hollt fyrir mig að fá nánari útlistun og rökfærslu fyrir því af hverju þetta er allt saman bull frá mér.

Tek síðan undir það sem Sveinn Ingi Lýðsson skrifar á bloggi sínu og minnir á það verkfæri sem Seðlabankinn hafði í hendi lögum samkvæmt sem var bindiskyldan.

Því beitt hann aldrei og það voru mikil mistök. Ekki getur Davíð smjörklipið sig frá því.

Ómar Ragnarsson, 18.11.2008 kl. 15:02

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sá sem ætlar sér að taka þátt í stjórnmálum á ekki að nota kjaftasögur sér til framdráttar. Þú er greinilega kominn á þá skoðun að það geti verið þér til framdráttar í stjórnmálum að hamast gegn Davíð í stað þess að gagnrýna það sem hann segir með málefnalegum hætti. Hvergi í þessari umfjöllun þinni ertu málefnlegur.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.11.2008 kl. 16:00

5 Smámynd: GeirR

Það er sorglegt að horfa á viðbrögðin við því sem Ómar skrifar.

Þið sem eruð að verja Davíð eruð algjörlega á villugötum.

Málið snýst ekki um Davíð heldur framtíð þjóðarinnar.

Seðlabankinn er algjörlega rúinn trausti á alþjóðavísu. Ef koma á krónunni aftur á flot þarf Seðlabankinn að njóta alþjóðlegst trausts. Ef seðlabankinn undir núverandi stjórn ætlar að reyna að koma krónunni á flot með aðstoð láns upp á 500 milljarða dollara þá er alveg eins gott að brenna þá peninga í Sorpu

Það þarf að skipta út stjórn seðlabankans til þess að það takist að bjarga efnahag Íslands og skiptir það engu máli hvort að bankastjórinn heiti Davíð eða eitthvað annað.  Því er umræða um persónu Davíðs fullkominn tímasóun. Það sem þarf að ræða hvaða hagspekinga við þurfum að fá inn í seðlabankann til að móta nýja íslenska peningamálsatefnu til framtíðar.

GeirR, 18.11.2008 kl. 20:45

6 Smámynd: GeirR

Þetta átti að vera 500 milljarðar kr ekki dollara

GeirR, 18.11.2008 kl. 20:56

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svo ég bæti svolitlu við þá er ég ekki einn um að hafa svona sýn á það sem er að gerast ef marka má blogg Egils Helgasonar.

Ómar Ragnarsson, 19.11.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband