Ljós í myrkrinu.

Stofnun Auðlindar og ekki síður nöfn fólksins, sem standa að henni, er mér gleðiefni. Þetta er ljós í því myrkri sem íslenskur þjóð gengur nú í gegnum og stofnar dýrmætustu auðlindum landsins í meiri hættu en nokkru sinni fyrr vegna þeirrar skammsýni og örvæntingarfullrar ásóknar í verðmæti, sem taka á frá afkomendum okkar.

Auðlindin mesta er einstæð náttúra landsins, eitt af helstu undrum veraldar, sem okkur ber að varðveita fyrir mannkyn allt.

1. desember 1918 var þjóðin í öldudal síðustu stóru drepsóttarinnar, hafíss og kreppu, sem fór dýpra árið áður en nokkur önnur á 20. öldinni. Þá var fullveldið ljós í myrkrinu og í hönd fór áratugur batnandi hags og framfara.

Það fer vel á því að á 90 ára afmæli fullveldisins kvikni enn ein samtökin sem nú spretta upp í grósku áhugasamtaka á rústum hins gamla Íslands spillingar og græðgi sem víkur vonandi fyrir nýju Íslandi, þar sem vikið verður burtu því tillitsleysi gegn komandi kynslóðum sem viðgengist hefur.


mbl.is Ný samtök um náttúruvernd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggja mörkin?

Þegar ég var dagskrárritari Sjónvarpsins var fluttur þar frægur þáttur með Halldóri Laxness, Jónasi Árnasyni, Matthíasi Johannessen og Gunnari Gunnarssyni. Eftir upptöku hans var þess krafist að þátturinn yrði tekinn upp aftur en Rúnar Gunnarsson, upptökustjóri og Laxness sjálfur lögðust gegn því. Þátturinn var því sýndur.

Vegna starfa míns komst ég síðar að því að þátturinn hafði verið þurrkaður út en vissi að hljóðupptaka hans yrði geymd í heldur lengri tíma. Sú spurning kom upp í huga mér að "hirða" hljóðupptökuna þegar ætti að farga henni, þ. e. að gerast "litli sjónvarpsmaðurinn". Af því varð ekki og ég harma það alla tíð.

Í staðinn lagði ég fræga ræðu Laxness á minnið og get enn flutt hana utanbókar. Hef gert það í Kastljósi en þar vantar samt eina setningu. En eitt varð mér ljóst: Að samvisku minnar vegna mætti það aldrei gerast aftur að ómetanleg verðmæti færu forgörðum á þennan hátt. Þetta var í eina skipti á ferli manns aldarinnar sem hann tók á honum stóra sínum á eftirminnilegan hátt. Í mínum huga hafði "litli sjónvarpsmaðurinn" brugðist.

1999 var hafin mikil herferð fyrir því að ég yrði rekinn, en rannsókn á vegum útvarpsráðs hreinsaði mig af þessum áburði. Áfram héldu samt árásir í blöðum og á fundum útvarpsráðs og Halldór Ásgrímsson tók mig á beinið. Að lokum gat ég ekki haldið áfram þeirri sjálfsritskoðun sem af þessu leiddi og hætti.

Svona sjálfsritskoðun beinist ekki aðeins að manni sjálfum heldur líka að heiðri vinnustaðarins og starfsfélaga sem maður vill ekki koma í bobba.

20. desember 2001 tók ég viðtal við Siv Friðleifsdóttur þar sem kom í ljós að hún skildi ekki helsta lögmálið sem þessi úrskurður hlaut að byggjast á. Vegna takmarkaðs tíma sem ég hafði komst þessi hluti viðtalsins ekki að og ég lagði ekki í að berjast fyrir birtingu hans síðar því að þá hefði ég gert allt vitlaust og verið sakaður um ofsóknir á hendur Framsóknarflokknum og hugsanlega öll fréttastofan.

Minnugur atviksins frá 1970 ákvað ég samt að greina frá þessum kafla viðtalsins í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti", sem kom út 2004.

Ofangreint vil ég upplýsa til að útskýra stöðu G. Péturs Matthíassonar í því máli sem er komið upp varðandi upptöku af viðtali við Geir H. Haarde, búti sem aldrei var birt.

Ég sé á blogginu að menn hafa horn í síðu G. Péturs fyrir að birta ekki viðtalið strax en ef einhver ætti að skilja aðstöðu hans þá er það ég.

Þegar viðtölin við Geir og Siv voru tekin voru þau bæði þess meðvitandi að sjónvarpsupptökuvél var í gangi. G. Pétur hefði þess vegna getað endað viðtalið þar sem það var komið og birt það eins og það stóð þá. En hann kaus að halda friðinn og taka öðruvísi viðtal.

Siv bað mig um að hætta þegar ég spurði hana grundvallarspurningar og hún skynjaði hvaða steypa svar hennar var. Hún fór fram á að ég gæfi henni umhugsunartíma og tæki spurninguna og svarið aftur.

Ég gerði það að sjálfsögðu og kvaðst gefa henni allan þann tima sem hún teldi sig þurfa. En þegar við byrjuðum aftur kom sama steypan á ný því að hún vissi ekki betur. Í framtíðinni munu menn staðnæmast við þetta og undrast á hvaða forsendum Kárahnjúkavirkjun var metin af sjálfum umhverfisráðherra Íslands. En þá verðum við öll sjálfsagt dauð.


mbl.is Krafa um að viðtali við Geir verði skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurvald "fjárfesta".

Fjárfestar svonefndir kollsteyptu þjóðarbúinu í haust. Þessi öfl hafa verið iðin við kolann allt frá því að íslensk stjórnvöld auglýstu orku landsins til útsölu á alþjóðlegum markaði árið 1995.

"Fjárfestar" ákváðu að í stað hóflega stórs 120 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði skyldi reist 346 þúsund tonna álver með margfalt meiri umhverfisspjöllum. Þjóðinni var þar með boðið í veislu. "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?" urðu fleyg orð fjármálaráðherrans.

Þrætt var fyrir þau endanlegu áform að reisa 360 og 340 þúsund tonna álver í Helguvík og á Bakka og sagt að 240-250 þúsund tonna álver myndu nægja.

Það var gert til að koma íslenskum stjórnvöldum á spenann og teygja þau svo langt að ekki yrði aftur snúið.

Nú koma fjárfestarnir og segja að ekkert geti orðið úr álverunum nema þau verði stækkuð. Samtals er viðbótin um 200 þúsund tonn af áli á ári sem krefjast munu allt að 350 megavatta orku til viðbótar við þau rúmlega 400 megavött sem upphaflega var sagt að myndu nægja.

Íslenskum stjórnvöldum, (sem Þórunn Sveinbjarnardóttir lýsti svo vel á borgararfundinum í Háskólabíói í gær með því að segja að Íslendingar hefðu reynst fullfærir um það sjálfir að rústa náttúru landsins,) er stillt upp við vegg sem þau hafa reist sjálf með skefjalausri þjónkun sinni við útlend stóriðjufyrirtæki og innlenda verktaka.

Álfurstarnir krefjast þess að miklu skárri orkunotendum, netþjónabúunum, verði rutt í burtu.

Stjórnvöld eru viljalaus verkfæri erlendra gróðaafla sem markvisst vinna að því að ná öllum orkuauðlindum Íslands undir sig og gefa skít í það þótt Íslendingar fórni mestu auðæfum landsins sem felast í einstæðri náttúru.

Hrun fjármálakerfisins í haust var bara forsmekkurinn af því sem stefnt er að, að Íslendingar verði leiksoppar ofureflis erlendra og innlendra fjárgróðamanna sem er nokk sama um það þótt Íslendingum sé steypt í smán og niðurlægingu.

Þeim er skítsama um þótt þessar 300 þúsund hræður verði ofurseld erlendu valdi um aldur og ævi.


mbl.is Orkuöflun í mikilli óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

70% þjóðarinnar eru ekki þjóðin!

1500 manns sem komu á stærsta innanhúss mótmælafund sem ég man eftir eru ekki þjóðin að mati oddvita ríkisstjórnarinnar. Þó voru þessir 1500 manns áreiðanlega fulltrúar þeirra 70% þjóðarinnar sem samkvæmt skoðanakönnun treysta ekki ríkisstjórninni.

Oddvitar ríkisstjórnarinnar virðast álíta að þau 30% þjóðarinnar, sem styðja ríkisstjórnina, séu frekar þjóðin en hin 70% sem ekki styðja hana. Nema að þjóðin sé ekki til í þeirra huga heldur misnotað hugtak frá dögum Þjóðviljans sáluga.

Fyrir utan vantraustið sem fundurinn túlkaði voru það komandi gjaldþrot heimila sem var meginstef þessa fundar. Ljóst er að "umfangsmiklar aðgerðir" sem ríkisstjórnin kallar svo er aðeins lenging á hengingarólinni og geri stjórnvöld ekki meira, hvernig svo sem þeim framlögum úr ríkissjóði verður háttað, er ekki von á góðu.

Fjármálaráðherrann sagði að ef taka ætti peninga úr ríkissjóði til að lina vandræði heimilanna yrði að minnka opinber framlög til annars í staðinn. Einn fundarmanna nefndi í því sambandi að varla ættu þær fjárhæðir að vefjast fyrir mönnum sem nýlega hefðu eytt margfalt stærri upphæðum í bjarganir fyrir fjármálamennina.

Þetta sama viðfangsefni var eitt meginatriðið í málflutningi forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum í haust. Þeir sögðu að það yrði að bjarga Wall Street til að hægt yrði að bjarga "Main street" þ. e. lánamöguleikum litlu fyrirtækjanna, sem skapa 90% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjamanna.

John McCain sagði að vísu að hin tröllauknu ríkisframlög til auðjöfranna í Wall Street ættu ekki að fara í að halda uppi áframhaldandi bruðli og lúxusi þeirra, - að kennarar og iðnaðarmenn ættu ekki að borga fyrir þá lúxusþoturnar og þyrlurnar.

En líklega verður þetta svipað í báðum löndunum að þeir sem betur mega sín hafi betri möguleika til að sleppa en hinn venjulegi borgari.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband