Fyrirsjáanlegt.

Rétt eins og íslenska fjármálakreppan var fyrirsjáanleg hefur hrun byggingariðnaðar og verslunar verið enn fyrirsjáanlegra. Eitt af einkennum hinnar fáránlegu þenslu voru húsbyggingar langt umfram þarfir þjóðarinnar, útþensla sem gat ekki endað nema á einn veg.

Íslendingar sem voru erlendis í nokkur ár upp úr aldamótunum og komu heim í fyrra ráku upp stór augu við að sjá allar stóru byggingarvöruhallirnar, sem hafa þotið upp á örskömmum tíma og byggðust á samskonar þenslu og hús, sem byggð eru á sandi.

Jafnvel þótt bankarnir hefðu ekki hrunið var fyrirséð að þessi allt of hátt spennti bogi myndi bresta. Búið var að reisa hús sem myndu ekki verða fullnýtt fyrr en eftir áratug eða meira.

Framundan eru allmörg ár með auðum byggingum og jafnvel hálfkláruðum vegna þess að tjaldað var til einnar nætur og ekkert skeytt um máltækið "what goes up must come down."


mbl.is Staðnaður byggingariðnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrír þingmenn rumska.

Ástandinu á Alþingi í haust hefur verið lýst þannig að þar hafi setið aðgerðarlítill þingheimur að fjalla um ótal smærri mál en verið fjarri þeim málum sem mestu máli skipta. Þingheimur hafi jafnan beðið eftir því að fá frumvörpin sent úr ráðuneytunum og þau hafa síðan "runnið hratt í gegn í góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna" eins og það var orðað í sjónvarpi í kvöld.

Nú hefur kviknað lífsmark með þremur af fjórum þingmönnum Frjálslynda flokksins sem hafa lagt fram frumvarp um það að krónan verði tengd við norsku krónuna.

Skömmu eftir bankahrunið var forsætisráðherra Noregs spurður um þetta í kjölfar umleitunar Steingríms J. Sigfússonar og svaraði ráðherrann því til að það kæmi ekki til greina.

Ég hef ekki spurt þingmenn Fjálslynda flokksins að því af hverju þeir haldi að svarið verði á aðra lund nú. Kannski halda þeir að Norðmenn muni frekar taka formlegri beiðni á jákvæðari hátt en spurningunni fyrr í haust.

Þeir virðast hafa gert ráð fyrir þeim möguleika að svar Norðmanna yrði aftur neikvætt og að þá kæmi til greina að taka upp evru með eða án samvinnu við ESB. Svörin um það efni voru neikvæð hjá ESB-fólki fyrr í haust og ef ég man rétt var eitt svarið á þá lund að slíkt yrði tekið mjög óstinnt upp þar á bæ.

Nú er vitað að nokkur lönd, svo sem Svartfjallaland, hafa gert þetta og að þetta er tæknilega mögulegt. Hins vegar vaknar spurningin um það hvort afstaða ESB verði nokkuð öðruvísi ef við förum út í svona nú og hvort svona beinar umleitanir muni jafnvel valda óróa í samskiptum okkar við þjóðirnar sem hafa tengst svo náið þeim aðgerðum sem þegar hafa verið ákveðna.

Ég á því varla von á því að stjórnarmeirihlutinn muni taka vel í þessar hugmyndir þingmannanna þriggja sem hafa nú rumskað eftir langa fjarveru frá mótun mála.

Það vekur athygli að Kristinn H. Gunnarsson er ekki samferða flokksfélögum sínum. Hann virðist vera að nálgast þann hring á ferli sínum að fara úr stjórnarandstöðu í átt til stjórnarliðsins líkt og forðum þegar hann fór úr Alþýðubandalginu í stjórnarandstöðu yfir til Framsóknar sem var þá í stjórn.


mbl.is Vilja tengja íslensku krónuna við þá norsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjargi sér hver sem bjargað getur.

Gamalt máltæki segir: "Bjargi sér hver sem bjargað getur." Það kemur upp í hugann þegar litið er til þess sem gerðist í aðdraganda bankahrunsins, því sjálfu og allar götur siðan. Stundum á þetta við sem skásta úrræðið á sameiginlegum flótta en í nútíma þjóðfélagi oft alls ekki.

Þennan hugsunarhátt má oft sjá ráða ríkjum í íslenskri umferð til mikils baga en sem betur fer er það á undanhaldi.

Í bankarhuninu, aðdraganda þess og eftirmálum er að koma í ljós hvernig sumir höfðu betri möguleika til að sleppa vel á flóttanum en aðrir.

Rétt eins og sett voru neyðarlög á sínum tíma vegna fordæmalausra aðstæðna verður að upphefja bankaleynd á skýrt afmarkaðan og markvissan hátt þegar ósköp þessara síðustu missera verða gerð upp. Í hádegisfréttum útvarpsins færði Eiríkur Tómasson góð rök að þessu. Kann að vera að allt hafi verið og sé löglegt, en margt hefur vafalaust verið siðlaust.

Það verður aldrei hægt að læra neitt ef menn hafa ekki réttan grundvöll fyrir lærdómnum. Þegar ráðamenn segja að það eigi að velta við hverjum steini þá verða athafnir að fylgja orðum.


mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt sinnið sem skinnið.

Sagan af ótúlegri reynslu Jóns Auðunar Bogasonar af ótugtarlegum Dönum minnir á orðtakið að "svo er margt sinnið sem skinnið." Sem betur fer held ég að þetta sé undantekning og get nefnt dæmi um hið gagnstæða.

Sonur minn fór til náms við háskólann í Horsens og komst þá að því að vegna þess að foreldrar hans höfðu í frumbernsku verið þegnar Danakonungs fyrir sextíu árum fengi hann talsverð fríðindi vegna skólavistarinnar.

Þetta voru og eru leifar af þeim tíma þegar íslensk yfirstétt sem réði öllu því á Íslandi sem máli skipti og naut sömu forréttinda fyrir syni sína við danska háskóla og danski aðallinn. Eini munurinn var sá að dönsku aðalsmennirnir voru skyldir að senda syni sína í herþjónustu og stríð ef þess þurfti með en íslenska yfirstéttin var undanþegin slíku.


mbl.is Neitað um viðskipti í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er pólitík?

Spilling og sérhagsmunagæsla hafa komið vondu orði á pólitík og orðið til þess að fæla fólk frá þátttöku í henni. Ekkert er hættulegra lýðræðinu og þess vegna er stóraukinn pólitískur áhugi þessar vikurnar af hinu góða.

En vegna þess hve orðið hefur fengið neikvæða merkingu hyllast margir til að segjast ekki vera pólitískir þótt þeiri séu í raun þrælpólitískir. Fundirnir á Austurvelli eru pólitískir eins og ályktanir og ræður á þeim bera glöggt vitni um.

Það er ekki hægt að stunda knattspyrnu án þess að spyrna boltanum og leika honum inn í mark andstæðinganna eftir ákveðnum reglum. Ákveðinn fjöldi leikmanna má vera inni á vellinum og einn þeirra er markmaður. Það er hins vegar hægt að stunda íþróttir á ódrengilegan hátt, beita bolabrögðum og koma óorði á þær.

Stjórnmál snúast um að skipa málum þjóðfélagsins á sem bestan hátt. Menn skipa sér í hópa, félög, flokka og fylkingar í samræmi við meginskoðanir þótt þær kunni að vera skiptar um áherslur og einstök málefni. Það er ekki bæði hægt að halda og sleppa eins og marga dreymir um, annað hvort eru menn í pólitík eða ekki, eru inni á knattspyrnuvellinum að spila eða ekki.

Ævinlega verða menn þó að fara eftir sannfæringu sinni og leitast við að vera heiðarlegir og hreinskiptnir. Þingmenn vinna eið að þessu og þannig hefur Kristinn H. Gunnarsson líklega metið afstöðu sína, þótt aðrir séu honum ósammála.

Gallinn við ástandið núna er að auðheyrt er að fólk hefur vantrú á þingflokkunum, jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn er í sárum og klofinn um ESB og Samfylkingin klofin og talar bæði eins og hún sé í stjórn og stjórnarandstöðu. Í stjórnarandstöðunni eru loga smærri flokkarnir Framsókn og Frjálslyndir í illdeilum og VG er úti á vinstri kantinum á sama tíma sem 80% kjósenda er í raun nálægt miðjunni.

Líklega myndi þjóðstjórn litlu breyta nema innan hennar yrðu í bland við stjórnmálamennina fagfólk utan flokka, sem hefur haft rétt fyrir sér allan tímann og hefur burði til að taka þátt í endurreisninni.

Þegar knattspyrnulið tapar illa æ ofan í æ og missir alla tiltrú er skipt um fyrirliða og þjálfara og gerðar breytingar á liðinu. Með því er ekki sagt að menn hafi gerst brotlegir við lög, einungis að menn sem kunna betri leikaðferð eru teknir inn á. Ég á erfitt með að sjá hvernig menn ætla sér að komast hjá þessu á tímum þar sem hver einasti kjósandi er minntur daglega á þessi mál þegar hann tekur upp veski sitt.

Bandaríkjamenn áttu ekki í vandræðum með að vera í hörku kosningabaráttu á sama tíma og setja þurfti neyðarlög. Frambjóðendurnir lögðu þar hönd á plóg og sýndu pólitískan þroska sem oft virðist skorta hér á landi.


mbl.is Afstaða Kristins tekin fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband