Munnar manna eða dýra?

Í ágætri frétt hjá RUV í kvöld var mikið rætt um munna, sem kæmu við sögu í smalamennsku. Aldrei var þó upplýst hvort þetta væri munnar manna, hesta, kinda eða hunda. Ég heyrði ekki upphaf fréttarinnar en fljótlega kom í ljós að rætt var um framkvæmdir á Vestfjörðum, nánar tiltekið jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Varla verða þessi göng þó notuð til að reka fé í gegnum þau heldur virðist sá misskilningur á ferð að munna á jarðgöngum eigi að kallað gagnamunna. Þegar þetta er endurtekið sjö til átta sinnum í sömu fréttinni gefur það þessari málleysu aukinn trúverðugleika.

Hið rétta orð er "gangamunnar", ekki "gangnamunnar". Smalamenn eru gangnamenn en bormenn í jarðgöngum gangamenn eða gangagerðarmenn.

Orðið göng beygist svona: Göng um göng frá göngum til ganga.

Orðið göngur beygist svona: Göngur um göngur frá göngum til gangna. Punktur.


Aftur fyrir 1980.

Samdráttur hjá RUV eru slæmar fréttir fyrir landsbyggðina. Ég minnist þess hvað útsendingar hjá RUVAK þóttu mikið framfaraspor og sjálfur orðaði ég það árið 1985 við þáverandi útvarpsstjóra að ef þurfa þætti gæti ég hugsað mér að ég til þess að flytja norður og taka til hendi á Akureyri. Af því varð ekki og kannski sem betur fer.

Á árunum fyrir 1980 og fyrstu árum mínum á Stöð tvö kom það í minn hlut að sinna þörfum landsbyggðarinnar frá Reykjavík og endasendast um landið. Það var mjög gefandi starf þótt það væri oft erfitt.

Laun hjá flestum starfsmönnum RUV hafa verið lág alla tíð og ekki batnar það með því að lækka þau á sama tíma og verðbólga rýkur upp. Einn af starfsmönnum RUV hér fyrr á tíð lýsti kjörum almennra starfsmanna þannig: "Það þarf sterkefnaða menn til að vinna hérna."

En RUV hefur löngum verið gagnrýnt fyrir að fara fram úr í rekstrinum og staðan því vafalaust þröng. Bara að það sé nú sparað á réttum stöðum.


mbl.is 700 milljóna sparnaður hjá RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verksmiðja sem framleiðir dagskrá.

Mér fannst Hrafn Gunnlaugsson hitta naglann á höfuðið þegar hann sagði á sínum tíma að ríkisútvarpið væri verksmiðja sem framleiddi dagskrá. Þegar ég var á Canaveralhöfða í Florida þar sem átti að skjóta geimferju á loft líktust bækistöðvar sjónvarsstöðanna þar mest vinnubúðum og byggingum við virkjanaframkvæmdir á Íslandi.

Útvarpshúsið er táknrænt fyrir þá minnisvarðagerð sem ríkt hefur í byggingum á Íslandi. Húsið er miklu stærra en þörf er fyrir og ótrúlega stór hluti þess fer í ganga og rými sem ýmist nýtist ekki eða nýtist illa.

Það kostar mikla peninga að hita svona stórt hús upp og halda því við. Sumt vantar eins og stúdíó þar sem sendar eru út fréttir og breskur kunnáttumaður sem kom frá BBC til að kynna sér reksturinn undraðist slæma nýtingu á einum dýrasta parti hússins sem er stóra sjónvarpsupptökustúdíó.

Að sjá utan frá er eins og þriðju hæðina vanti á húsið. Þegar ég spurði arkitektana hverju þetta sætti og af hverju þeir hefðu ekki haft húsið einni hæð lægra svöruðu þeir því til að það væri svo leiðinlegt að hafa fólk á þriðju hæðinni sem þyrfti að horfa út á flatt þakið! Samt fannst þeim í lagi að tugir starfmanna sem sæu ekkert út, störfuðu í kjallaranum!

Ný tækni gefur færi á hagræðingu. Sameining fréttastofanna var löngu tímabær. En það er afar varasamt að draga allan mátt úr RUV á sama tíma sem enginn veit hve samdrátturinn verður mikill í einkageiranum og hvernig eignarhald þróast þar.

RUV á að vera kjölfesta og akkeri íslenskra ljósvakamiðla. Vonandi verður sparað á réttum stöðum. Sú táknræna aðgerð að leggja fyrst niður einhvern ódýrasta liðinn, morgunleikfiimina, minnir á það þegar sparnaður í fyrirtækjum birtist í því að þvottakonum er sagt fyrst upp af öllum.


mbl.is Boðað til starfsmannafundar hjá RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svefnleysi og tapaðar orrustur.

Bergsteinn Sigurðsson skrifar stórskemmtilegan pistil í Fréttablaðið í dag um svefn og gildi hans. Tekur nokkur dæmi um afdrifaríkar afleiðingar svefnleysis og það tilsvar viðskiptaráðherra að hann hafi aðeins sofið 40% af þeim tíma sem hann þurfti meðan íslenskst fjármálalíf fór í hundana. Hafði reyndar sofið á verðinum fyrr í ráðherratíð sinni.

Ég get bætt við svakalegasta dæmi sem ég þekki um þetta. Þegar Þjóðverjar nálguðust París 1914 og virtust vera að sigra í heimsstyrjöldinni fyrri fór Moltke, yfirhershöfðingi Þjóðverja í baklás og panik vegna svefnleysis og gerði hver mistökin á fætur öðrum. Á sama tíma hafði Joffre, hershöfðingi Frakka, skipulagt þannig vinnu sína, að hann svaf fullan átta tíma svefn á hverri nóttu og allt sem hann gerði gekk upp.

Þegar hann svaf sáu aðrir um að taka nauðsynlegar ákvarðanir og höfðu til þess fullt umboð, enda miðaðist vinnan á vökutíma Joffres við þetta fyrirkomulag. Moltke hélt hins vegar að hann væri ómissandi og klúðraði þýsku sókninni með mistökum svefndrukkins manns.

Hitler hélt að hann væri ómissandi og var orðinn langt leiddur lyfjasjúklingur í lokin. Þegar bandamenn réðust inn í Normandí svaf Hitler aldrei þessu vant og vegna þess hve hann var háður þessum stutta svefni sínum, var bannað að vekja hann innrásarmorguninn. Það hefði svo sem verið í lagi fyrir hann að sofa ef hann hefði haft fyrirkomulag Joffres og veitt undirmönnum sínum heimild til að taka nauðsynlegar ákvarðanir þegar hann svaf. En það gerði hann ekki.

Afleiðingin var ringuleið meðal Þjóðverja og þeir misstu af tækifærinu til að reka bandamenn í sjóinn á þann hátt sem Rommel hafði viljað að gert yrði með því að hafa skriðdrekasveitir nær ströndinni og komast sem skjótast að innrásarmönnum.

Eftir ofsakláðaveikindi vegna gulu af völdum lifrarbrests fyrr á árinu veit ég um gildi svefnsins. Ég og um það bil tíu aðrir Íslendingar sem hafa orðið fyrir þessu af völdum sterkrar sýklalyfjagjafar vorum rænd svefni í 2-4 mánuði. Sum okkar áttu aðeins fáa daga í það að vera flutt á Klepp. Ég fékk þriggja mánaða "fangelsismeðferð.

Þetta er nefnilega viðurkennd besta pyntingaraðferð í fangelsum, meðal annars í Guantanamo. Í mínu tilfelli misstust 16 kíló og 40% af blóðinu. Allir vita hvað verður um rafhlöðuknúin tæki þar sem gengið er á rafhlöðurnar. Sama gildir um svefninn.


Bloggfærslur 28. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband