Verksmiðja sem framleiðir dagskrá.

Mér fannst Hrafn Gunnlaugsson hitta naglann á höfuðið þegar hann sagði á sínum tíma að ríkisútvarpið væri verksmiðja sem framleiddi dagskrá. Þegar ég var á Canaveralhöfða í Florida þar sem átti að skjóta geimferju á loft líktust bækistöðvar sjónvarsstöðanna þar mest vinnubúðum og byggingum við virkjanaframkvæmdir á Íslandi.

Útvarpshúsið er táknrænt fyrir þá minnisvarðagerð sem ríkt hefur í byggingum á Íslandi. Húsið er miklu stærra en þörf er fyrir og ótrúlega stór hluti þess fer í ganga og rými sem ýmist nýtist ekki eða nýtist illa.

Það kostar mikla peninga að hita svona stórt hús upp og halda því við. Sumt vantar eins og stúdíó þar sem sendar eru út fréttir og breskur kunnáttumaður sem kom frá BBC til að kynna sér reksturinn undraðist slæma nýtingu á einum dýrasta parti hússins sem er stóra sjónvarpsupptökustúdíó.

Að sjá utan frá er eins og þriðju hæðina vanti á húsið. Þegar ég spurði arkitektana hverju þetta sætti og af hverju þeir hefðu ekki haft húsið einni hæð lægra svöruðu þeir því til að það væri svo leiðinlegt að hafa fólk á þriðju hæðinni sem þyrfti að horfa út á flatt þakið! Samt fannst þeim í lagi að tugir starfmanna sem sæu ekkert út, störfuðu í kjallaranum!

Ný tækni gefur færi á hagræðingu. Sameining fréttastofanna var löngu tímabær. En það er afar varasamt að draga allan mátt úr RUV á sama tíma sem enginn veit hve samdrátturinn verður mikill í einkageiranum og hvernig eignarhald þróast þar.

RUV á að vera kjölfesta og akkeri íslenskra ljósvakamiðla. Vonandi verður sparað á réttum stöðum. Sú táknræna aðgerð að leggja fyrst niður einhvern ódýrasta liðinn, morgunleikfiimina, minnir á það þegar sparnaður í fyrirtækjum birtist í því að þvottakonum er sagt fyrst upp af öllum.


mbl.is Boðað til starfsmannafundar hjá RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Skynsamlega mælt!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.11.2008 kl. 14:59

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar Ríkisútvarpið var gert að ohf. voru laun útvarpsstjórans hækkuð í eina og hálfa milljón króna á mánuði en þá voru laun ríkisforstjóra um 800 þúsund krónur á mánuði.

Skýringin á launahækkun útvarpsstjórans var sú að hann ynni einnig sem sjónvarpsþula á kveldin. Nú er hins vegar lag fyrir útvarpsstjórann í öllu atvinnuleysinu að ráða þulu í staðinn fyrir sjálfan sig fyrir 700 þúsund krónur á mánuði.

Þorsteinn Briem, 28.11.2008 kl. 15:06

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er rétt að RÚV er verksmiðja sem framleiðir dagskrá. Hefði verið betra ef framleiðslan hefði verið dagskrárliðir, en það hefur aldrei verið áhersla RÚV að sýna íslenskt efni af neinu ráði. Reyndar er innanhúss framleiðslan ekki svo mikilvæg. Nóg er til að sjálfstæðu efni á Íslandi. Hvað eru framleiddar margar boðlegar stuttmyndir á íslandi ár hvert og hversu margar eru sýndar á RÚV?

Hafa allar betri sjálfstæðar heimildamyndir verið sýndar á RÚV? Væri gaman að heyra hvað Hjálmtýr segði um það.

Á Íslandi er starfandi kvikmyndaskóli. Það þarf enginn að segja mér að útskrifaðir nemendur séu allir starfandi hjá stærri fyrirtækjum. Þeir eru að framleiða eigið efni sem aldrei er sýnt, nema kannski á örfáum kvikmyndahátíðum erlendis.

Ég hef nokkrum sinnum skrifað um sjö milljón króna hugmynd mína. Ég taldi mig geta framleitt kvikmynd í fullri lengd fyrir þann pening og færði rök fyrir því. Málið er að efni þarf ekki að vera dýrt í framleiðslu. Það er voðalega gott og gaman að hafa ljósabíl sem lýsir upp risastóru leikmyndina svo að 35mm filmurnar fái nóg ljós, en það er hægt að gera hlutina öðruvísi. Ef David Lynch getur tekið upp kvikmyndina Inland Empire á Sony PD-150 (3CCD miniDV vél), og Danny Boyle 28 Days Later á Canon XL-1s (líka 3CCD miniDV), þurfum við ekki að vera að flottræflast með allt það dýrasta og fínasta.

Tæknin sem notuð er við tökur skiptir minnstu máli. Það er sagan og leikurinn sem skilur á milli góðra og lélegra mynda.

RÚV á að vera sjónvarp (og útvarp) allra landsmanna og leggja áherslu á íslenskt efni, enda er það nær okkur, sennilega ódýrara og fjárfesting í menningu og framtíð þjóðarinnari.

Villi Asgeirsson, 29.11.2008 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband