Betra að kalla kreppuna "dýfu".

Mér skilst að í kínverska orðinu yfir kreppu felist bæði hreyfingin niður og upp. Kreppa er afar neikvætt orð því að hún felur aðeins í sér að allt sé á niðurleið.

En það er til ágætt íslenskt orð yfir kreppu, og það er orðið "dýfa". Skip í ólgusjó tekur dýfur og fer niður í öldudal en kemur síðan upp aftur. Þannig hefur það verið um nær allar efnahagskreppur síðustu alda og í orðinu "dýfa" felst bæði "hrunið" en einnig þeir nýju möguleikar sem skapast vegna endurmats og endurreisnar til að komast upp úr öldudalnum.

Ég er að hugsa um að prófa að gera þá tilraun að tala um dýfu þegar rætt er um kreppu og sjá hvernig til tekst.


mbl.is Hallinn yfir 150 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðleikarnir efla nauðsynlegt endurmat.

Margir kannast við það að alvarleg veikindi hafi fengið þá til að endurmeta lífsgildin. Án kreppunnar miklu hefði meistaraverk Steinbecks, "Þrúgur reiðinnar" líkast til aldrei orðið til. Heldur ekki snilldarsmábíllinn Fiat Topolino eða ljóminn af forsetatíð Franklins D. Roosevelts.

Fyrr í haust var í athugun að gefa út diskinn "Birta-styðjum hvert annað" til styrktar Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, ekki aðeins á tonlist.is heldur líka til sölu í verslunum. 

Í fyrstu virtist allt mæla á móti þessu, því að til þess að ágóði yrði þyrfti að selja ca 1500 plötur. Tækist það ekki yrði þetta tóm leiðindi og einnig yrði ágóðinn, sem rynni til fátækra, alltof lítill, jafnvel þótt 1500 platna markinu yrði náð.

Sem sagt: Fyrir nokkrum mánuðum hefði það verið óhugsandi sem nú hefur gerst: Tuttugu tónlistarmenn, 11 söngvarar, 9 hljóðfæraleikarar og einn laga- og textahöfundur gefa alla vinnu sína og flutning á níu nýjum lögum á diskinum "Birta - styðjum hvert annað," upptökustúdíóin sömuleiðis svo og Bergvík, sem framleiðir diskana, Samskipti sem sér um prentun og dreifingaraðilarnir 3d tonlist.is hjá Senu, verslanir Skífunnar og Smekkleysu og verslanir Olís.

Það þýðir einfaldlega að ALLT söluandvirðið rennur frá fyrsta diski til mæðrastyrksnefndar. Þetta er vottur um aukna samkennd í þjóðfélaginu á erfiðum tímum.  

 

 


mbl.is Svört spá um efnahagslífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunandi viðbrögð.

Viðbrögðin eru misjöfn hjá þeim sem ábyrgð bera í þjóðfélaginu. Kreppuástand setur hluti í nýtt ljós. Þegar maður með milljón á mánuði lækkar laun sín um 150 þúsund og kemst samt auðvitað ágætlega af eftir sem áður, sýnir það muninn á kjörum hans og þess sem hefur aðeins 150 þúsund á mánuði.

Sláandi munur er á milli landa. Í Grikklandi gerðu tveir lögregluþjónar mistök og fyrstu viðbrögð dómsmálaráðherrans voru þau að bjóðast til að segja af sér. Sjáið þið fyrir ykkur svona viðbrögð Björns Bjarnasonar við svipaðar aðstæður?

Nú logar allt í óeirðum í Grikklandi og allsherjarverkfall er á döfinni til að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar. Ekki er þó að sjá að í því landi hafi orðið viðlíka hrun og hér á landi. Raunar höfðu Íslendingar úr hærri söðli að detta eftir einstætt "góðæri" sem byggðist á því að lifa langt um efni fram á margfölduðum lánum, sem slógu heimsmet.

Langlundargeð og æðruleysi Íslendinga er mikið en þeir sem ábyrgð bera ættu ekki að misnota það eins og þeir virðast hafa einsett sér að gera með því að enginn axli ábyrgð sína.


mbl.is Laun stjórnenda helstu lífeyrissjóða munu lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband