Gætum vel að.

Lýðræði er gallagripur en ekkert skárra hefur fundist til að skipa málum þjóða. Fjölmiðlar eru líka gallagripir eins og öll mannanna verk . Samt er það svo að eins ótrufluð, bein og réttlát fjölmiðlun og unnt er að framkvæma er alger forsenda lýðræðisins.

Án nauðsynlegra skoðanaskipta og upplýsinagjafar fjölmiðla er borin von að kostir lýðræðis njóti sín.

Austurvöllur hefur verið vettvangur réttlátrar óánægju þeirra sem mótmæla ófremdarástandinu í þjóðfélaginu. Ég hef verið á þessum fundum og tekið þátt í öðrum mótmælaaðgerðum ásamt öðrum úr flokki okkar, Íslandshreyfingunni.

Við höfum verið meðal annars verið óánægð með ósanngjörn kosningalög, sem hafa meinað okkur að fá fulltrúa á löggjafarþingið í samræmi við fylgi okkar og þar með meinað okkur að taka þátt í umræðuþáttum eins og Kryddsíldinni.

Við höfum komið þessum skoðunum okkar á framfæri í fjölmiðlum eftir því sem það hefur verið unnt.

Af Austurvelli og öðrum staðum utanhúss og af fjölmennum borgarafundum innanhúss um þjóðfélagsástandið hafa blöð og fjölmiðlar flutt frásagnir og myndir og útvarpað hefur verið og sjónvarpað frá heilum fundum.

Í blöðum voru birtar í heilu lagi ræður af fundunum. Þetta var nauðsynleg og ótrufluð fjölmiðlun.

Það mátt kannski búast við því að heyrast myndi í mótmælendum fyrir utan neðstu hæðina á Hótel Borg rétt eins og á öðrum fundum þeirra á hinum hefðbundna mótmælastað, Austurvelli, og hefði kannski átt að flytja Kryddsíldina á annan stað.

Hvað um það, bein fjölmiðlun frá Hótel Borg þar sem heyrðist í mótmælendum fyrir utan hefði komið fullkomlega þeim skilaboðum yfir að hér á landi ríkir ófremdarástand sem blaðamaðurinn Karl Blöndal lýsir mjög vel í grein í Morgunblaðinu í dag. Það er gjá milli ráðamanna og fólksins og brúun þessarar gjár ekki í sjónmáli.

En gætum nú vel að því sem gerðist í viðbót við þetta, sem að framan er lýst.

Ég minnist þess ekki að mótmælafrömuðir á borð við Martein Lúter King hafi reynt að láta hendur skipta við tæknifólk fjölmiðla og stöðvað starfsemi þeirra þótt þeir sem kæmu fram í þessum fjölmiðlum í það og það skiptið væru ekki í náðinni hjá mótmælendum.

Á sínum tíma kom hingað til lands Walter Chroncite, hinn heimsfrægi sjónvarpsfréttamaður, sem hlaut mesta frægð fyrir það að hafa í raun verið einn sterkasti liðsmaður þess almenningsálits í Bandaríkjunum sem snerist gegn stríðinu í Vietnam. Hlutur Chroncites var þó aðeins að vera óhræddur við að miðla þeim upplýsingum og skoðunum sem nauðsynlegt var að miðla.

Ég spurði hann: "Eru fjölmiðlar heimsins orðnir of öflugir og valdamiklir?"

Hann svaraði: "Nei", svaraði hann. "Fjölmiðlar verða aldrei of öflugir og valdamiklir. Afl og vald fjölmiðla til að miðla skoðunum og upplýsingum í lýðræðisþjóðfélagi er nauðsynlegt til þess að FÓLKIÐ GETI NOTAÐ AFL SITT OG VALD."

Rétt er að geta þess að á ensku notaði Chroncite aðeins eitt orð "power" í svari sínu, en það þýðir bæði afl og vald
á íslensku og því nota ég bæði orðin í þýðingunni.

Niðurstaða: Hömlur á fjölmiðla til þess að miðla skoðunum og upplýsingum á sem sanngjarnastan hátt leiða til ófarnaðar og kippir grundvellinum undan raunverulegu og öflugu lýðræði, því hinu sama og mótmælendur hafa verið að berjast fyrir að undanförnu.

Að svo mæltu óska ég öllum landsmönnum árs og friðar.


mbl.is Fólk slasað eftir mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri á sveif með Íslandshreyfingunni.

Stjórn Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands setti fram þá hugmynd í haust að höggvið yrði á þann hnút og rofin sú sjálfhelda, pattstaða og truflun, sem ríkt hefur í ESB-málum hér á landi með því að taka það mál út úr flokkafarvegi og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um það sérstaklega hvort ganga eigi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

VG ljáði þessari hugmynd máls nýlega og nú telur forsætisráðherra þetta koma til greina.

Þetta mál er það stórt að jafnvel það eitt hvort láta eigi reyna á aðildarviðræður er bært sem þjóðaratkvæðismál. Þar að auki hefur sundrung nær allra flokka vegna málsins gert þeim erfiðara að vera vettvangur fyrir stjórn landsins með tilliti til mismunandi áherslna til hægri eða vinstri.

ESB-málið er að mörgu leyti líkt sjálfstæðismálinu fram til 1916-18. Eðlileg flokkamyndun fram til þess tíma, grundvölluð á mismunandi sýn á þjóðfélagsskipan, var ekki möguleg vegna þess að sjálfstæðismálið klauf allar eðlilegar fylkingingar um önnur mál í herðar niður.

Stofnun Framsóknarflokks og Alþýðuflokks var viðleitni til að færa flokkapólitíkina frá sjálfstæðismálinu, en það var ekki fyrr en með sambandslögunum 1918 að grundvöllur myndaðist að þeirri skiptingu þjóðarinnar í flokka til hægri og vinstri sem varð að mestu fullmótuð á þriðja áratug síðustu aldar.

Rétt eins og sambandslögin tóku sjálfstæðismálið að mestu út úr flokkafarvegi og gerði flokkum kleift að staðsetja sig með tilliti til mismunandi áherslna á gildi markaðshyggju og félagshyggju getur færsla ESB-málsins yfir á vettvang þjóðaratkvæðagreiðslna haft svipuð áhrif, níutíu árum síðar.


mbl.is Umsókn í þjóðaratkvæði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið þanþol.

Síðustu tíu árin hefur verið litið á það eins og nokkurs konar náttúrulögmál að bílasala þyrfti að vera jöfn og góð til þess að bílaflotinn endurnýjaðist á sem bestan hátt og í notkun væru teknir betri, sparneytnari, mengunarminni og öruggari bílar.

Þetta er að sönnu rétt hvað það snertir að það er ekki hagkvæmt þjóðhagslega að vera með of gamlan bílaflota, sem bilar meira en nýir bílar og eyða meira eldsneyti.

En það er með bílana eins og annað óhóf sem helltist yfir okkur í hinu svonefnda góðæri. Í stað þess að kaupa sparneytnari og mengunarminni bíla var hér kapphlaup um sem stærsta, eyðslufrekasta og dýrari bíla í rekstri.

Ef meira hóf hefði verið í þessu væri bakslagið ekki eins erfitt og það er. Fólk situr uppi með of stóra, dýra og óseljanlega bíla í þúsunda tali. Og það sem verra er, vegna ofmettaðs markaðar er engin þörf fyrir nýja bíla.

Bandaríkjamenn komust af með að framleiða enga bíla frá byrjun febrúar 1942 til haustsins 1945 eða í þrjú og hálft ár og tókst að nýta þann bílaflota sem fyrir var.

Íslendingar fluttu örfáa bíla inn á árunum 1948 til 1954 eða í sjö ár og létu þá gömlu duga. Lítið var flutt inn af bílum á árunum 1956 til 1960.

Bílar geta enst enn betur nú á tímum. Það er tæknilega mögulegt að enginn nýr bíll sé fluttur inn til landsins í áratug.

Á Kúbu er stór hluti bílaflotans amerískir kaggar frá því fyrir byltingu 1959.

Þanþol bílaflotans getur verið mikið og þetta eru vondar fréttir fyrir þann mikla fjölda fólks, sem hefur haft atvinnu í tengslum við bílana.

Hins vegar kunna þetta að vera góðar fréttir fyrir bifvélavirkja því eftir því sem bílarnir eldast þurfa þeir meira viðhald.


mbl.is Einn fólksbíll seldist í síðustu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband