Mikið þanþol.

Síðustu tíu árin hefur verið litið á það eins og nokkurs konar náttúrulögmál að bílasala þyrfti að vera jöfn og góð til þess að bílaflotinn endurnýjaðist á sem bestan hátt og í notkun væru teknir betri, sparneytnari, mengunarminni og öruggari bílar.

Þetta er að sönnu rétt hvað það snertir að það er ekki hagkvæmt þjóðhagslega að vera með of gamlan bílaflota, sem bilar meira en nýir bílar og eyða meira eldsneyti.

En það er með bílana eins og annað óhóf sem helltist yfir okkur í hinu svonefnda góðæri. Í stað þess að kaupa sparneytnari og mengunarminni bíla var hér kapphlaup um sem stærsta, eyðslufrekasta og dýrari bíla í rekstri.

Ef meira hóf hefði verið í þessu væri bakslagið ekki eins erfitt og það er. Fólk situr uppi með of stóra, dýra og óseljanlega bíla í þúsunda tali. Og það sem verra er, vegna ofmettaðs markaðar er engin þörf fyrir nýja bíla.

Bandaríkjamenn komust af með að framleiða enga bíla frá byrjun febrúar 1942 til haustsins 1945 eða í þrjú og hálft ár og tókst að nýta þann bílaflota sem fyrir var.

Íslendingar fluttu örfáa bíla inn á árunum 1948 til 1954 eða í sjö ár og létu þá gömlu duga. Lítið var flutt inn af bílum á árunum 1956 til 1960.

Bílar geta enst enn betur nú á tímum. Það er tæknilega mögulegt að enginn nýr bíll sé fluttur inn til landsins í áratug.

Á Kúbu er stór hluti bílaflotans amerískir kaggar frá því fyrir byltingu 1959.

Þanþol bílaflotans getur verið mikið og þetta eru vondar fréttir fyrir þann mikla fjölda fólks, sem hefur haft atvinnu í tengslum við bílana.

Hins vegar kunna þetta að vera góðar fréttir fyrir bifvélavirkja því eftir því sem bílarnir eldast þurfa þeir meira viðhald.


mbl.is Einn fólksbíll seldist í síðustu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftir ekkert of langann tíma vonandi verður það jafn gamaldags að gangandi fólk þurfi að anda að sér útblæstri bíla á t.d. Laugarveginum. Svipað fornt og þegar gangandi vegfarendur deildu veginum með skólpi bæjarins.

Tóti (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 02:43

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Já, mér varð helst hugsað til Kúbu þegar ég byrjaði að lesa greinina þína. Ég var þar staddur fyrir fáeinum árum og þótti bílaflotinn bara ansi flottur. Menn passa nokkuð vel upp á gömlu bílana þar. Og svo er líka klassískt að fara um í hestvagni um Havana. 

Spurning um að fá sér hest og losna við bílinn. Gæti ekki orðið stemmning fyrir því?

Takk fyrir viðburðaríkt ár Ómar, þú hefur staðið þig eins og hetja í bloggi, stjórnmálum, náttúruvernd og skemmtunum.

Hrannar Baldursson, 31.12.2008 kl. 03:10

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sem mikill áhugamaður um unga og gamla bíla svo lengi sem ég man eftir mér er það einn af draumunum að fara til Kúbu bara til að sjá og upplifa gömlu bílana.

En auðvitað eru þeir gersamlega vonlausir í þeim löndum þar sem gerðar eru kröfur til útblásturs. Ég á mér því þann draum að einhvers konar sátt náist milli Kúbu og Bandaríkjanna sem geri það mögulegt að hægt verði að varðveita svona bíla með því að endurbæta vélbúnað þeirra og gera jafn mengunarlítinn og í nýjum bílum.

Ómar Ragnarsson, 31.12.2008 kl. 07:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband