Hvað var sagt? Spilin á borðið!

Spurningarnar hrannast upp varðandi helstu bomburnar sem Davíð Oddsson sprengir þessa dagana. Í stað þess að mál skýrðust eitthvað í dag hafa þau þvert á móti vakið nýjar spurningar og óróa.

Nú liggur fyrir eftir fund viðskiptanefndar Alþingis að mjög mikilvægum purningum, sem varða bæði Íslendinga, Breta og aðrar þjóðir, verði ekki svarað vegna bankaleyndar.

Í ófanálag bætist við grundvallar ósamræmi í frásögnum Davíðs og Ingibjargar Sólrúnar af fundi Davíðs með formönnum stjórnarflokkanna, og geta þau ekki einu sinni komið sér saman um í hvaða mánuði fundurinn var haldinn. Ingibjörg nefnir þó dagsetninguna 7. júlí en Davíð aðeins júnímánuð.

Davíð er víst góður bridge-spilari og gefur í skyn að hann hafi alger tromp á hendi, en heldur spilunum fast að sér.
Geir Haarde var á þessum þriggja manna fundi. Hvað segir hann? Hvort þeirra segir rétt frá, Davíð eða Ingibjörg?
Eða megum við eiga von á þriðja framburðinum af því sem sagt var á þessum fundi.

Ekki var langt liðið frá þessum fundi þegar Geir tók undir það sem sagt var að aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar hefði borið árangur! Ekki bendir það til þess að Davíð hafi sagt á fundinum að bankarnir ættu 0%, sem á mannamáli útleggst enga möguleika til að lifa af.

Enn sem komið er heldur Geir sínum spilum að sér og ekkert heyrist frá honum um þetta.

Í þessum tveimur málum er ekki hægt að sætta sig við svona laumuspil. Hver sagði hvað og hvað gerði hver?
Hvað sagði Davíð á fundinum? Hvað var sagt í samtölunum sem bankaleyndin hvílir yfir? Það verður að leggja spilin á borðið.


mbl.is Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og fyrir réttum 50 árum.

BJARGRÁÐIN:

Ég spurði Haarde hvað hann héldi verða best /

til hjálpar þjóðarskútunni, sem áföllum nú verst. /

Ráð undir rifi hverju kappinn hafa lést, /

hann sagði: Ú-í, ú-aa, ting, tang, volla-volla bing bang..."

Ofangreint gæti hafa orðið til í dag, 4. desember, en varð reyndar til fyrir réttum 50 árum, 4. desember 1958, þegar þegar vinstri stjórn, sem setið hafði í tvö og hálft ár, sprakk. Eini munurinn á textanum nú og þá er sá að þá söng ég: "Ég spurði Hermann,..", ekki "Haarde." Bæði þessi nöfn byrja á stafnum H, þjóðarskútan verst áföllum og báðir segjast hafa hina fullkomnu lausn. Makalaus tilviljun.

Níu mánuðum eftir að þetta var sungið opinberlega utan í fyrsta sinn utan Menntaskólans, á gamlárskvöld 1958, hafði ég sungið það á skemmtunum í nánast öllum bæjum og þorpum landsins auk félagsheimila í sveitum.

Styrmir Gunnarsson skynjar nauðsyn þess að kosið verði fyrr en ella vegna gerbreyttra aðstæðna og forsendna. En í ljósi þess hve lengi gekk að finna botn í Baugsmálin svonefndu getur orðið erfitt að bíða þangað til öll kurl eru örugglega komin til grafar.

Finna verður þann milliveg að nógu mikið sé komið fram til að einhver heildarlína sé byrjuð að sjást en drátturinn á kosningum má ekki verða of langur.

Það myndi aðeins minnka á spennunni nú ef stjórnvöld streittust ekki svona óskaplega mikið við það að koma í nákvæmlega engu til móts við kröfur um kosningar og að þeir axli ábyrgð sem hana bera. Útlátaminnst yrði viðurkenning beggja ríkisstjórnarflokkanna á því að kosið verði fyrr en árið 2011, helst eigi síðar en haustið 2009.

1958 var kosningum, sem áttu að verða 1960, flýtt um eitt ár og það ár, 1959, varð einhver mesta breyting sem orðið hefur í stjórnmálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Skaðlegu haftakerfi var vikið til hliðar. Þá var talið eðlilegt að kjósa hálfu ári eftir strand þjóðarskútunnar, þótt ekki lægi fyrir hverjar breytingar fylgdu í kjölfarið.

Þá eins og nú var mikill vandi á höndum. Þá, eins og nú, er óhjákvæmilegt að flýta kosningum.


mbl.is Getur ekki vikist undan kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tákngervingur sjálftökustjórnmálanna.

Sá orðrómur hefur verið á kreiki í allt haust að Davíð Oddsson hafi hótað því að koma aftur inn í stjórnmálin verði hann látinn hætta í Seðlabankanum. Um þetta bloggaði ég á dögunum og einnig það að þetta hafi verið ástæðan fyrir því hvernig Geir hefur bakkað hann upp allan tímann og ekki þorað að blaka við honum.

Þetta staðfestir Davíð nú og eins og oft áður síðustu mánuðina berast fréttirnar af erlendum fjömiðlavettvangi.

Davíð segir að ástæða þess að hann verði fyrir aðkasti nú sé sú að sem Seðlabankastjóri sé hann tákngervingur þess sem hefur verið að gerast. Þetta er aðeins hálfur sannleikur.

Davíð hefur ekki aðeins verið tákngervingur að þessu leyti og í ofanálag fylgt fram kolrangri stefnu og gert hvert axarskaftið á fætur öðru, heldur er enginn maður eins mikill tákngervingur þess kerfis sem hrundi og Davíð.

Þetta kerfi byggði hann markvisst upp í helmingaskiptafélagi við Halldór Ásgrímsson. Saman reistu þeir langstærstu spilaborg sem íslensk sjálftökustjórnmál hafa reist og hefur þó oft verið gengið langt í þeim efnum.


mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband