Svipað og fyrir réttum 50 árum.

BJARGRÁÐIN:

Ég spurði Haarde hvað hann héldi verða best /

til hjálpar þjóðarskútunni, sem áföllum nú verst. /

Ráð undir rifi hverju kappinn hafa lést, /

hann sagði: Ú-í, ú-aa, ting, tang, volla-volla bing bang..."

Ofangreint gæti hafa orðið til í dag, 4. desember, en varð reyndar til fyrir réttum 50 árum, 4. desember 1958, þegar þegar vinstri stjórn, sem setið hafði í tvö og hálft ár, sprakk. Eini munurinn á textanum nú og þá er sá að þá söng ég: "Ég spurði Hermann,..", ekki "Haarde." Bæði þessi nöfn byrja á stafnum H, þjóðarskútan verst áföllum og báðir segjast hafa hina fullkomnu lausn. Makalaus tilviljun.

Níu mánuðum eftir að þetta var sungið opinberlega utan í fyrsta sinn utan Menntaskólans, á gamlárskvöld 1958, hafði ég sungið það á skemmtunum í nánast öllum bæjum og þorpum landsins auk félagsheimila í sveitum.

Styrmir Gunnarsson skynjar nauðsyn þess að kosið verði fyrr en ella vegna gerbreyttra aðstæðna og forsendna. En í ljósi þess hve lengi gekk að finna botn í Baugsmálin svonefndu getur orðið erfitt að bíða þangað til öll kurl eru örugglega komin til grafar.

Finna verður þann milliveg að nógu mikið sé komið fram til að einhver heildarlína sé byrjuð að sjást en drátturinn á kosningum má ekki verða of langur.

Það myndi aðeins minnka á spennunni nú ef stjórnvöld streittust ekki svona óskaplega mikið við það að koma í nákvæmlega engu til móts við kröfur um kosningar og að þeir axli ábyrgð sem hana bera. Útlátaminnst yrði viðurkenning beggja ríkisstjórnarflokkanna á því að kosið verði fyrr en árið 2011, helst eigi síðar en haustið 2009.

1958 var kosningum, sem áttu að verða 1960, flýtt um eitt ár og það ár, 1959, varð einhver mesta breyting sem orðið hefur í stjórnmálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Skaðlegu haftakerfi var vikið til hliðar. Þá var talið eðlilegt að kjósa hálfu ári eftir strand þjóðarskútunnar, þótt ekki lægi fyrir hverjar breytingar fylgdu í kjölfarið.

Þá eins og nú var mikill vandi á höndum. Þá, eins og nú, er óhjákvæmilegt að flýta kosningum.


mbl.is Getur ekki vikist undan kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hermann Jónasson fór í ræðustól á þingi ASÍ í KR-heimilinu og boðaði þau úrræði að kauphækkun, sem væri yfirvofandi, yrði frestað. Öðruvísi yrði ekki hægt að koma böndum á verðbólguna.

Þessu var hafnað, meðal annars af forseta ASÍ, Hannibal Valdimarssyni, sem var sat fyrir Alþýðubandalagið í ríkisstjórn Hermanns.

Við stjórnarslit lýst Hermann því yfir að verðbólgualda væri skollin á og ekki væri samstaða í ríkisstjórninni um úrræði.

Eftir sem áður héld talsmenn allra flokka því fram að flokkur þeirra hvers um sig réði yfir úrræðum sem dygðu, líka Hermann.

Og með það veganesti héldu þeir út í kosningabaráttuna vorið eftir.

Ómar Ragnarsson, 4.12.2008 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband