SKYNSEMI HVÍLDARDAGSINS.

"Hvíldardagurinn er til vegna mannsins en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins." Enginn orðaði betur en Kristur nauðsyn þess að gera hlé á brauðstiti og streitu og stunda uppbyggjandi íhugun. Vantrúaðir eða þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni ættu ekki að láta öfund yfir því að hér á landi skuli kerfi hvíldardaga vera til komnir séu vegna kristninna verða til þess að fara stofna til leiðinda.

Borðorðið um að halda hvíldardaginn heilagan er miklu skynsamlegra en svo að það eigi að stofna til togstreitu um þetta. Aldrei hafa hvíldardagar verið mikilvægari en nú, í taumlausu neyslukapphlaupi og streitu okkar tíma.

Ég er í fríkirkjusöfnuði en uni þjóðkirkjunni þess vel að vera í krafti yfirburða stærðar sinnar leiðandi í því hvaða dagar eru mestu hvíldardagarnir. Það er best fyrir alla, því að hvíldardagar ná ekki tilgangi sínum nema sem flestir haldi þá í einu.

Emílíana Torrini var eitt sinn spurð um í útvarpsviðtali það hvað henni fyndist best við jólin og hún svaraði: Það besta við jólin er það að þau eru nokkurn veginn eina helgin á árinu sem maður hefur frí frá "skyldudjamminu." Með "skyldudjamminu" átti hún við þá kvöð sem það er orðið fyrir stóran hlutan þjóðarinnar að fara út "að skemmta sér" með tilheyrandi drykkju um hverja helgi.

Séra Gunnar Björnsson var eitt sinn spurður hvað honum fyndist skemmtilegast að gera og hvað leiðinlegast. Hann svaraði í hálfkæringi sem þó vakti mann til umhugsunar: "Mér finnst skemmtilegast að eiga góða stund heima í faðmi fjölskyldunnar og lesa góða bók og hlusta á góða tónlist." "En hvað finnst þér leiðinlegast?" var spurt. Séra Gunnar svaraði: "Mér finnst leiðinlegast að fara út og "skemmta mér."

Þessa dagana er ég á spítala og sviptur frelsinu að því leyti. En eins og fleiri hafa upplifað fær slík vist mann til að íhuga upp á nýtt hvað það er sem hefur mest gildi í lífinu. Það er heilsan, hinir nánustu og það að kunna að forgangsraða því sem maður vill gera. Stundum þarf spítalavist, veikindi eða bara góða hvíldardaga til þess að átta sig betur á því.

Að gera sér dagamun er eitt hið mikilvægasta í tilveru mannsins. En þá þarf dagamunurinn að standa undir nafni.
Síðan má ævinlega ræða um það hvort færa megi hvíldardaga til, fækka þeim eða fjölga. En rólegustu dagarnir á árinu eru aðeins þrír, jóladagur, páskadagur og föstudagurinn langi.

Miðað við allt lífsgæðastressið held ég að þrír slíkir dagar af 365 séu ekki of mikið. Eða hefur allur hagvöxturinn og kaupmáttaraukningin orðið til þess að við höfum síður efni á þessu en áður? Það held ég varla.

Gleðilega páska!


mbl.is Vantrúaðir spila bingó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SVONA ER LÍFIÐ.

Svona er lífið, - gengur upp og niður segja Svíar oft og það má segja um leik Barcelona í dag. Raunalegt var að heyra lestur Kristins R. Ólafssonar í Madrid úr umsögnum fjölmiðla um leik Barcelona, einkum umsagnirnar um Eið Smára. Kristinn endaði pistil sinn á því að segja að sumir fjölmiðlarnir hefðu ekki einu sinni haft fyrir því að minnast á Eið, "og kannski eins gott", bætti Kristinn við.

En Eiður hefur sýnt það áður að hann brotnar ekki við mótlæti, það eru ekki alltaf jólin og kemur dagur eftir þennan dag.


mbl.is Valencia í bikarúrslitin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VANMETIN BÍLATEGUND.

Mazda hefur í áraraðir verið eitthver vanmetnasta bílategund á Íslandi ef marka má það hve miklu minna hefur verið selt af þessum bílum hér en í flestum nágrannalöndunum og ef tekið tillit til þess hve verksmiðjurnar eru stórar og öflugar. Aðrir mun minni framleiðendur hafa selt miklu meira af bilum hér. Viðurkenningarnar sem Mazda 2 fær nú víða um lönd eru ekki út í loftið og bíllinn hefur sérstöðu hvað það snertir að hann er 100 kílóum léttari en fyrirrennarinn en samt rúmbetri.

Léttingin skilar sér í meiri sparneytni og snerpu. Þetta er hárrétt þróun hjá Mazda í upphafi eldsneytisskorts á sama tíma sem aðrir bílar þyngjast sífellt og stækka. Sem dæmi má nefna að Volkswagen Golf er nú tæpu hálfu tonni þyngri og hálfum metra lengri en þegar hann kom fyrst fram 1973.

Mazda RX 8 var fyrir nokkrum árum dæmi um framúrstefnulega hugsun þar sem bíll, sem sýndist vera lágur sportbíll rúmaði í raun fjóra fullvaxna menn í fullum þægindum. Galdurinn fólst í því að hafa fjórar hurðir á bílnum og láta afturhurðirnar opnast í "öfuga" átt.

Um árabil hefur Mazda skilað sér erlendis við topp allra lista um bilanaminnstu bílanna. Í kringum 1980 var blómaskeið Mazda á Íslandi en það kom í bakið á þessari tegund hér á landi hvað mikið seldist af henni á skömmum tíma, því að afleiðingin varð offramboð af notuðum Mözdum nokkrum árum síðar sem verðfelldi merkið.

Umboðið færðist á sínum tíma of mikið í fang á tímum samdráttar og eins lengsta skeiðs lítillar bílasölu sem um getur hér á landi. Mazda hefur goldið fyrir þetta síðan en í réttum höndum ætti merkið að geta rétt úr kútnum.

Það er vel hægt. Gott dæmi um það er Skoda, sem í stórri og berorðri fræðibók um bíla er afgreiddur þannig að á árunum 1965-1990 hafi Skoda verið "international joke," þ. e. alþjóðlegur brandari, svo mjög hafði gæðunum hrakað og merkið sett niður frá að vera viðurkennt fyrir vandaða bíla um miðja öldina. (Einnig vandaða skriðdreka sem komu í góðar þarfir fyrir Hitler í innrásinni í Frakkand 1940)

Nú er Skódinn í sumum könnunum kominn upp fyrir móðurmerkið, Volkswagen, í gæðum, og farinn að njóta gæðanna á íslenska bílamarkaðnum.

Þjónusta umboðsmanna vegur þungt í afskekktu og litlu landi eins og Íslandi og reynslan sýnir að jöfn og góð sala er farsælli en miklir toppar. Þannig er það vafalaust stór þáttur í velgengni Toyota á Íslandi að þetta merki selst jafnan langmest allra ár eftir ár. Það skapar stöðuleika fyrir merkið á markaði notaðrar bíla.

Rétt er að geta þess í lokin að titillinn "bíll ársins" þýðir ekki að viðkomandi bíll þyki bestur allrar bíla, heldur er við valið hverju sinni einungis miðað við nýjar bílgerðir sem byrjað var að selja á viðkomandi ári.


mbl.is Mazda 2 kjörinn bíll ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband