VANMETIN BÍLATEGUND.

Mazda hefur í áraraðir verið eitthver vanmetnasta bílategund á Íslandi ef marka má það hve miklu minna hefur verið selt af þessum bílum hér en í flestum nágrannalöndunum og ef tekið tillit til þess hve verksmiðjurnar eru stórar og öflugar. Aðrir mun minni framleiðendur hafa selt miklu meira af bilum hér. Viðurkenningarnar sem Mazda 2 fær nú víða um lönd eru ekki út í loftið og bíllinn hefur sérstöðu hvað það snertir að hann er 100 kílóum léttari en fyrirrennarinn en samt rúmbetri.

Léttingin skilar sér í meiri sparneytni og snerpu. Þetta er hárrétt þróun hjá Mazda í upphafi eldsneytisskorts á sama tíma sem aðrir bílar þyngjast sífellt og stækka. Sem dæmi má nefna að Volkswagen Golf er nú tæpu hálfu tonni þyngri og hálfum metra lengri en þegar hann kom fyrst fram 1973.

Mazda RX 8 var fyrir nokkrum árum dæmi um framúrstefnulega hugsun þar sem bíll, sem sýndist vera lágur sportbíll rúmaði í raun fjóra fullvaxna menn í fullum þægindum. Galdurinn fólst í því að hafa fjórar hurðir á bílnum og láta afturhurðirnar opnast í "öfuga" átt.

Um árabil hefur Mazda skilað sér erlendis við topp allra lista um bilanaminnstu bílanna. Í kringum 1980 var blómaskeið Mazda á Íslandi en það kom í bakið á þessari tegund hér á landi hvað mikið seldist af henni á skömmum tíma, því að afleiðingin varð offramboð af notuðum Mözdum nokkrum árum síðar sem verðfelldi merkið.

Umboðið færðist á sínum tíma of mikið í fang á tímum samdráttar og eins lengsta skeiðs lítillar bílasölu sem um getur hér á landi. Mazda hefur goldið fyrir þetta síðan en í réttum höndum ætti merkið að geta rétt úr kútnum.

Það er vel hægt. Gott dæmi um það er Skoda, sem í stórri og berorðri fræðibók um bíla er afgreiddur þannig að á árunum 1965-1990 hafi Skoda verið "international joke," þ. e. alþjóðlegur brandari, svo mjög hafði gæðunum hrakað og merkið sett niður frá að vera viðurkennt fyrir vandaða bíla um miðja öldina. (Einnig vandaða skriðdreka sem komu í góðar þarfir fyrir Hitler í innrásinni í Frakkand 1940)

Nú er Skódinn í sumum könnunum kominn upp fyrir móðurmerkið, Volkswagen, í gæðum, og farinn að njóta gæðanna á íslenska bílamarkaðnum.

Þjónusta umboðsmanna vegur þungt í afskekktu og litlu landi eins og Íslandi og reynslan sýnir að jöfn og góð sala er farsælli en miklir toppar. Þannig er það vafalaust stór þáttur í velgengni Toyota á Íslandi að þetta merki selst jafnan langmest allra ár eftir ár. Það skapar stöðuleika fyrir merkið á markaði notaðrar bíla.

Rétt er að geta þess í lokin að titillinn "bíll ársins" þýðir ekki að viðkomandi bíll þyki bestur allrar bíla, heldur er við valið hverju sinni einungis miðað við nýjar bílgerðir sem byrjað var að selja á viðkomandi ári.


mbl.is Mazda 2 kjörinn bíll ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Sammála Ómari með að Mazda er svolítið vanmetinn á Íslandi. Þetta eru bílar sem eru ekkert síðri hvað gæði og áreiðanleika varðar heldur en t.d. Toyota.

Það sem er mér finnst hins vegar merkilegast hvað varðar bíla í dag er hvað lítið er orðið að marka hvað þeir heita. T.d. er fyrrnefndur "Mazda 2" nánast sami bíll og "Ford Fiesta" og sumar útgáfur þeirra nota t.d. vélar frá Peugeot/Citroen.

Annað er framleiðsluland, umboðin eru ekkert mikið að vekja athygli á því hvar bílarnir eru framleiddir. T.d. er stór hluti af vinsælustu bílunum frá Toyota og Nissan framleiddir annaðhvort í Bretlandi eða Spáni, fólk semsagt kaupir sinn "japanska gæðabíl" eins og Toyota Avensis án þess að vita að hann hefur aldrei til Japans komið heldur er framleiddur í Derby á Englandi.

Einar Steinsson, 21.3.2008 kl. 12:31

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ford Ka Nýji bíllinn dóttur minnar er framleiddur í Þýskalandi. Hefði ekki þótt verra einhverntíma, en skiptir þetta orðið nokkru máli hvar hlutir eru framleiddir?

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.3.2008 kl. 16:43

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég veit nákvæmlega ekkert um Mazda-umboðið á Íslandi né um nokkurn sem vinnur þar eða á því hlut. Ég var að skrifa um framleiðsluvöru Mazda-verksmiðjanna og lítillega um Skóda og Volkswagen.

Ómar Ragnarsson, 21.3.2008 kl. 18:33

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég veit nákvæmlega ekkert um Mazda-umboðið á Íslandi né um nokkurn sem vinnur þar eða á hlut í því. Ég var að skrifa um framleiðsluvöru Mazda-verksmiðjanna og lítillega um Skóda og Volkswagen.

Ómar Ragnarsson, 21.3.2008 kl. 18:36

5 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Ford hefur verið með framleiðslu í Þýskalandi um þónokkurt skeið.

Allavegana átti ég Ford Escort sem var framleiddur í borginni Ghia árið 1983 að mig minnir þ.e. ártalið.

Man ekki einusinni hvort nafn borgarinnar er rétt safsett, framleiðsluár bílsins var 1982-1983. Pabbi átti svo Escort þýskframleiddan um 1995 eða þar um bil.

En til að minnast aðeins á aðalatriði Ómars en það mun víst vera Masdan.

Litli bróðir á eina Mösdu og er þetta þrusuvagn og svo er hún Mágkona mín Elstabróðurs hún er búin að eiga nokkrar Mösdurnar og kaupir held ég barasta enga aðra bílategund.

Það hlýtur að segja eitthvað um ágæti Mösdunnar ef eigendur halda áfram að kaupa sömu tegund.

Páskakveðjur frá Kalda

Ólafur Björn Ólafsson, 21.3.2008 kl. 22:24

6 identicon

Eins og bróðir minn (Óli Kaldi) sagði hér að ofan þá á ég í dag Mazda 6 bifreið og líkar hún ágætlega.

Reyndar var Mazda ekki fyrsti kostur þegar ég ákvað að endurnýja og fá mér nýrri bíl, en mágkona okkar (Kalda) var reyndar búinn að bjóða mér áður bílinn sinn.

Ég fór og skoðaði og reynsluók mörgum bílum en var aldrei alveg ánægður og datt svo allt í einu í hug að tala við mágkonu mína (Mözdu frúnna), og varð úr að ég keypti bílinn af henni.

Mazda 6 kom mér reyndar töluvert á óvart hvað varðar skemmtilega vél og staðalbúnað og get ég mjög vel hugsað mér að fá mér nýrri Mazda 6 bíl í framtíðinni.

Ef ég man svo rétt að þá hafa Elsti bróðirminn og mágkona mín (Mözdu frúinn) átt a.m.k. 5 Mözdur og eiga núna Mazda 6 MPS, 260hö 4x4 sem er líklega mjög góður frúarbíll. 

Lognið Stormsson (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 20:41

7 identicon

Gleðilega páska, ég hef átt Mözdu í nokkur  ár og nota hana í vinnu (múrverk) og hefur hún reynst mér mjög vel, soddan trassi er ég nú að ekki hef ég opnað húddið í 2 ár og samt gengur hún alltaf og marga múrpokana hefur hún borið með reisn og ekki kvartað yfir því með bilunum, ég mæli hiklaust með þessari bílategund.

Ævar Oddur Ævarsson (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband