23.3.2008 | 09:58
ÁLFTADALSDYNGJA, - EKKI UPPTYPPINGAR.
Ef eldgos verður á þeim stað þar sem skolfið hefur síðustu mánuði fyrir norðan Vatnajökul, spá jarðfræðingar því að verði dyngjugos, hið fyrsta hér á landi á sögulegum tíma. Gosið yrði þá í gamalli dyngju sem er átta kílómetra fyrir norðaustan Upptyppinga og heitir Álftadalsdyngja og nafn staðarins því vel við hæfi. Gos á þessum stað má ómögulega kenna við Upptyppinga. Eða myndi gos í Stóra-Kóngsfelli í Bláfjöllum verða kynnt sem gos í Vífilsfelli? Eða gos í Mosfelli í Mosfellsbæ sagt vera gos í Esjunni?
Þá á ekki að vefjast fyrir fjölmiðlamönnum og þjóð sem telur sig jafn klára og Íslendingar að læra orðið Álftadalsdyngja, fremur en að segja Mosfell í staðinn fyrir Esja ef eitthvað gerist í Mosfelli.
Elskurnar mínar: Álftadalsdyngja, - plís !
![]() |
Enn jarðskjálftar við Upptyppinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
23.3.2008 | 09:43
MESTU HETJURNAR.
Mestu hetjur sem ég þekki heyja hljóða baráttu við grimm örlög, flest þeirra á ýmsum stofnunun heilbrigðiskerfisins. Tveir menn, annar tengdur mér og hinn gamall starfsfélagi, berjast nú svipaðri baráttu og Ólöf Pétursdóttir gerði af slíkri reisn og krafti að aðdáun vekur. Hugur minn er hjá þessu fólki á degi upprisunnar, páskadegi.
Í mjög góðri grein um Bjarna Benediktsson í DV er eftirfarandi setning höfð efir Lao Tse: Sá sem sigrast á öðrum er sterkur. Sá sem sigrast á sjálfum sér er mikilmenni. Ólöf Pétursdótti var í þessum síðarnefnda flokki.
Eitt viðurkenndra mikilmenna heims er Muhammad Ali. Í byrjun var hann drýldinn og sjálfhverfur orðhákur sem stundaði sálfræðihernað gagnvart andstæðingunum sem var ekki alltaf til fyrirmyndar.
Nú um stundir telja frægustu rapparar heims hafa verið brautryðjandann mikla á því sviði.
Sem þungavigtarhnefaleikari bar hann af hvað snerti léttleika, hraða, snerpu, fegurð í hreyfingum og tækni. Hann þótti undur sem kemur kannski fram einu sinni á öld. En það var ekki það sem varð til þess að um síðir er upphaflegt gort hans um að vera "hinn mesti" viðurkennt í íþróttaheiminum.
Smám saman sótti aldurinn að honum, hraðinn minnkaði og síðustu keppnisárin sótti að honum dulinn andstæðingur, Parksinsonveiki, sem greindist ekki fyrr en löngu of seint.
En Ali notaði járnvilja sinn, útsjónarsemi, innsæi og aðlögunarhæfileika til að framlengja sigurgöngu sína í hnefaleikahringnum langt umfram það sem venjulegur maður hefði getað gert.
Ali tapaði fimm atvinnumannabardögum á ferli sínum en það var einmitt það hvernig hann tók þessum ósigrum og vann sig út úr þeim sem fullkomnaði myndina um "hinn mesta." Hann er líklega frægasti Parkinson sjúklingur heims en hefur sagt að hann líti á glímuna við þann sjúkdóm sem framhald af glímunni við andstæðingana í hringnum.
"Guð hefur lagt það verkefni fyrir mig að glíma við Parkinson og ég mun reyna mitt besta til að taka þeirri áskorun og ögrun eins og öllum hinum" segir Ali.
Tímaritið Time fékk færa sérfræðinga til að velja fyrir sig 100 mestu snillinga 20. aldarinnar. Eini íþróttamaðurinn í þeim hópi var Muhammad Ali. Snilldina mældu sérfræðingarnir ekki í gáfnavísitölum heldur alhliða framlegð þeirra á andlega sviðinu.
Hetjusnilldin er ekki einskorðuð við ráðamenn og frægt fólk. Þar sem ég sit og blogga þetta við glugga á Borgarspítalanum er ég þess meðvitaður að handan við vegginn kunni að leynast ein af mestu hetjum þessa lands sem berst sinni hljóðu baráttu á aðdáunarverðan hátt.
Slíkri baráttu barðist Ólöf Pétursdóttir síðasta hálfa aðra ár lífs síns inni á sjúkrastofnun. Megi ljós hennar lýsa okkur öllum nú þegar hún hefur kvatt okkur og skilið eftir sig dýrmætan arf.
Gleðilega páska!
![]() |
Ólöf Pétursdóttir látin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)