ÁLFTADALSDYNGJA, - EKKI UPPTYPPINGAR.

Ef eldgos verður á þeim stað þar sem skolfið hefur síðustu mánuði fyrir norðan Vatnajökul, spá jarðfræðingar því að verði dyngjugos, hið fyrsta hér á landi á sögulegum tíma. Gosið yrði þá í gamalli dyngju sem er átta kílómetra fyrir norðaustan Upptyppinga og heitir Álftadalsdyngja og nafn staðarins því vel við hæfi. Gos á þessum stað má ómögulega kenna við Upptyppinga. Eða myndi gos í Stóra-Kóngsfelli í Bláfjöllum verða kynnt sem gos í Vífilsfelli? Eða gos í Mosfelli í Mosfellsbæ sagt vera gos í Esjunni?

Þá á ekki að vefjast fyrir fjölmiðlamönnum og þjóð sem telur sig jafn klára og Íslendingar að læra orðið Álftadalsdyngja, fremur en að segja Mosfell í staðinn fyrir Esja ef eitthvað gerist í Mosfelli.

Elskurnar mínar: Álftadalsdyngja, - plís !


mbl.is Enn jarðskjálftar við Upptyppinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig er það Ómar áttu ekki einhversstaðar loftmynd af dyngjunni, svona til að átta sig betur á landslaginu sem gæti horfið. Þrátt fyrir tugi ferða inn í Öskju, bæði um Krepputungu og um Lindir þá man ég ekki eftir þessari Dyngju, Upptyppingar -já Vaðalda og fl.-já en engin Álftadalsdyngja situr í sjónræna minningabankanum.

Jón Baldur (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 10:21

2 Smámynd: Sævar Helgason

"Elskurnar mínar: Álftadalsdyngja, - plís !"

Já Ómar ,"elskunum þínum" eru Upptyppingar hugstæðari 

Sævar Helgason, 23.3.2008 kl. 10:28

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef verið að skoða heimasíðu Saving Iceland samtakanna. Þar stendur m.a.:

Jökulsá á Fjöllum hosts Europe's most powerful waterfall, Dettifoss. The river runs through the protected canyon of Jökulsárgljúfur National Park and past the magical area of Hljóðaklettar, much loved by tourists. All this is now threatened by the man-made eruption." 

Kvittarðu undir svona fullyrðingar Ómar?

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2008 kl. 11:06

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þarna er að verið að fjalla um skjálftana við Upptyppinga og Álftadalsdyngju.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2008 kl. 11:08

5 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Í kaflanum "Um Fagradal, Álftadal og Arnardal" í þessari bók stendur : "Norðvestur af mynni Fagradals rennur Kreppa í sveig um Lónshnjúk (852 m), sem skýlir dalnum og norður af er víðáttumikil dyngja mynduð á einu af hlýskeiðum ísaldar, og hafa jarðfræðingar kennt hana við Álftadal (Álftadalsdyngju), en austanvert í henni eru Álftadalshæðir (802)."

Veðurstofan reiknar fjarlægðir út frá ákveðnum kennileitum : Upptyppingum, Herðubreiðarlindum, Herðubreiðartöglum,Kverkfjöllum, Sauðárdalsstíflu, Snæfelli...

Pétur Þorleifsson , 23.3.2008 kl. 11:30

6 identicon

Því má ekki gleyma að jarðskjálftarnir eru á 12-15 km dýpi ... því bæði ógjörningur að segja hvort eldgos verður eða hvar. Fullyrðing Ómars því út í hött: "Gosið yrði þá í gamalli dyngju sem er átta kílómetra fyrir norðaustan Upptyppinga og heitir Álftadalsdyngja." Við höfum ekki hugmynd um hvort eða þá hvar þessi kvika mun koma upp ... við Upptyppinga eða úti í miðri Jökulsá ekkert ólíklegra en Alftadalsdyngja. Dýpið er hins vegar það mikið að kvikan verður frumstæð, líklega ólivínþóleiít, og mun fljótt (nema gosið verði því austar) koma sér í farveg Jökulsár á Fjöllum. Kvikan gæti náð Dettifossi á fyrsta sólarhring. Það yrði ævintýralegt sjónarspil. Ef þessi kvika nær yfirborði er líklegt að gosið verði bæði öflugt og langvinnt flæðigos. Það er einnig alrangt hjá Ómari að ekki hafi orðið dyngjugos á sögulegum tíma á Íslandi, þau eru nokkur og dugir að nefna Hallmundarhraun og Sturtsey. Það er allaveganna alveg ljóst að það spáir enginn jarðfræðingur þvi að gosið verði "hið fyrsta hér á landi á sögulegum tíma." Það er bara svona dæmigert blaðamannabull.

Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 13:22

7 identicon

Og varðandi þína spurningu, Gunnar TH., þá er það rétt hjá "Saving Iceland" að EF þessi kvika nær yfirborði og EF hraunið verður það vestarlega að það fari í farveg Jökulsár á Fjöllum þá er Dettifoss, Jökulsárglúfur og jafnvel hluti Hljóðakletta í hættu. En það er hins vegar gríðarlega langsótt að mannskepnan hafi eitthvað með þetta að gera. Í raun alveg út í hött og hjálpar ekki einu sinni að benda á að Hekla hafi orðið virk vel eftir Sultartangavirkjun og farið í gjósa í Kröflu eftir boranir þar. Þessi kvika sem er að bylta sér 15 kílómetrum undir Upptyppingum og nágrenni er ekki þar af mannlegum völdum. Hvort eldgos verður eða ekki hefur og ekkert með mannskepnuna að gera eða hennar gjörðir.

Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 13:37

8 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég hef verið að fylgjast með þessu á www.vedur.is og þar er eingöngu talað um Upptippinga..

http://vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar/#view=table

Svo það er ekkert skrítið að blaðamenn segi Upptippinga.

Óskar Þorkelsson, 23.3.2008 kl. 14:15

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir fróðleikinn Björn. Mér finnst með ólíkindum hvernig Saving Iceland fullyrðir að þetta "manngerða eldgos" muni eyðileggja þessar náttúruperlur. Það er mikið á Kárahnjúka lagt. Svo hef ég séð marga þekkta virkjana og stóriðjuandstæðinga blogga um að það væri fínt ef virkjunin yrði fyrir skakkaföllum af völdum þessara jarðhræringa. Maður skilur ekki svona.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2008 kl. 14:24

10 identicon

Já, það er með ólíkindum að nokkur haldi því fram að þessar kvikuhreyfingar á 15 km dýpi séu af mannavöldum. Einnig ljóst af EF af eldgosi verður og EF það rennur langt niður eftir farvegi Jökulsár þá mun ásýnd náttúrunnar breytast, ný undur myndast í bland við þau sem fyrir eru. Bara gangur náttúrunnar og ekkert við því að segja. Þótt skjálftavirknin (og þar með kvikan þarna niðri) hafi verið að færast til austurs er mjög ólíklegt að hún komi upp austan við gosbeltið. Þótt þarna verði mikið eldgos þá eru engar líkur á því að það muni hafa nokkur áhrif á Kárahnjúkavirkjun. Jafnvel þótt þarna verði gríðarlegt eldgos og mikið kvikustreymi í 3-4 ár ... þá ætti það engin áhrif að hafa á Kárahnjúkavirkjun. Komi þessi kvika upp á annað borð finnst mér ólíklegt að hún komi upp austan við gosbeltið eða í eða við Álftadalsdyngju ... leiðin upp ætti að öllu jöfnu að verða mun tórsóttari þar heldur en austur í gosbeltinu. Áfltadalsdyngja er líklega hið minnsta nokkur hundruð þúsund ára gömul ... kvikan hlýtur því að eiga greiðari leið í brotnu móbergsmyndunni þar vestan við .. svo sem við Upptyppinga ... heldur en þarna austur í grágrýtis- og blágrýtismynduninni. Því er mjög ólíklegt að gosið verði í Álftadalsdyngju.

Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 14:49

11 Smámynd: Pétur Þorleifsson

"Þótt þarna verði mikið eldgos þá eru engar líkur á því að það muni hafa nokkur áhrif á Kárahnjúkavirkjun."  Virðast vera skiptar skoðanir jarðfræðinga um þetta.

Pétur Þorleifsson , 23.3.2008 kl. 17:43

12 identicon

Takk fyrir þennan link Pétur ... þetta er merkilegur pistill hjá RÚV ... og ekki laust við að það sé pólitískur fnykur af honum ... það kemur hvergi fram hver eða hverjir þessir jarðvísindamenn eru: "að mati jarðvísindamanna ... Jarðvísindamenn telja ... að mati jarðvísindamanna ...  Jarðvísindamenn telja." En hvaða jarðvísindamenn eru þetta??? Hvað er að baki fréttinni ... þótt vissulega muni órói verða töluverður ef og þá þegar þessi kvika kemst til yfirborðs ... þá fylgir þeim átökum engin ógurleg skjálftavirkni né heldur eftir að flæði kviku og hrauns er komið á stað. Sú fullyrðing að "margar sprungur á virkjunarsvæðinu séu mjög lekar" getur vart átt við rök að styðjast.  Þá finnst mér einnig sú fullyrðing að "umtalsverð hætta sé talin á því að sprungur gleikki" við eldsumbrot við Upptyppinga mjög hæpin. Sé ekki alveg hættuna. Finnst meiri hætta stafa af orðalagi fréttamannsins: "Umtalsverð hætta ... margar og mjög" og vitnað út í loftið án þess að nefna nein nöfn ... fnykur af pólitík ... óvönduð fréttamennska.

Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 18:15

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Getur það verið, Pétur Þorleifsson, að afstaða jarðvísindamanna gagnvart hugsanlegri vá, stjórnist að einhverju leiti af afstöðu þeirra til framkvæmdanna? Í skýrslunni sem þú vísar í eru ýmsar vangaveltur og nokkuð dökk mynd dregin upp. Í skýrslunni má lesa frekar sterk varnaðarorð, en svo segir í restina:

"Þessi skýrsla er byggð á tiltölulega takmörkuðum upplýsingum".

Ég er ekki að segja að þeir sem unnu skýrsluna hafi verið óheiðarlegir, en þarna er samt verið að túlka óvissuþætti með nokkuð afgerandi hætti, án þes að hafa upplýsingar um málið að ráði. Ég var bara að velta fyrir mér hvort andúð á verkefninu gæti verið skýringin.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2008 kl. 18:29

14 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Í síðari tenglinum koma fram nöfn. Það var viðtal við Freystein Sigmundsson í þessum fréttatíma.

Pétur Þorleifsson , 23.3.2008 kl. 18:30

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég segi, að EF kvikan komi upp beint yfir skjálftasvæðinu muni hún koma upp um Álftadalsdyngju. Ég fullyrði hvergi að það muni gjósa í dyngjunni en bið um að farið sé rétt með staðsetningar skjálftanna.

Ekki þarf annað en að líta á kort Veðurstofunnar til að sjá Upptyppinga sem brúnan blett fyrir suðvestan skjálftasvæðið sem hefur mánuðum saman verið undir dyngjunni, en er nú í norðvesturhluta hennar eð jaðrinum.

Það liggja fyrir þau orð jarðeðlisfræðingana Páls Einarssonar og Gunnars Guðmundssonar að hugsanlegt sé að fylling Hálslóns hafi virkað sem eins konar "gikkur" sem hleypti af stað kvikuhreyfingum sem hvort eð er hefðu byrjað einhvern tíma þarna.

Fyrstu vikurnar fylgdu skjálftarnir nákvæmlega sveiflum í hækkun lónsins en síðan hafa hrinurnar lotið eigin duttlungum.

Það þýðir ekki það sama og að fyllingunni verði kennt um það beint ef þarna verður gos og enginn getur sagt um það hve miklu fyrr það gæti orðið en ella fyrir áhrif"gikksins" og heldur ekki hvort það verður yfirleitt.

Páll Einarsson telur líkurnar á gosi á þessu ári 50/50 allir jarðfræðingar taka fram að enginn viti hvort skjálftarnir hætta og ekkert gos verði.

Ómar Ragnarsson, 23.3.2008 kl. 19:11

16 identicon

Þeir Freysteinn Sigmundsson og Páll Einarsson eru vissulega meðal okkar allru færustu vísindamanna og dreg ég snarlega til baka öll mín orð um fréttamennsku RÚV hér að framan enda þessi frétt unnin beint upp úr þessari samantekt (það hefði þó mátt geta þess í fréttinni) en þar segir meðal annars: "Þá kann virkni í nærliggjandi eldstöðvakerfum, þar á meðal Öskju .... að leiða til misgengishreyfinga ... við Kárahnjúka." Mér finnst það samt langsótt ... og sé ekki alveg að þeir skjálftar sem muni fylgja flæðigosi við Upptyppinga ættu að hafa mikil áhrif á misgengi og sprungur við Kárahnjúka. Ef til vill (og vonandi) kemur það í ljós. Ég hef ekki trú á að afstaða alvöru jarðvísindamanna, eins og hér um ræðir, stjórnist af skoðunum þeirra á einhverjum framkvæmdum. Það voru vissulega mikil mistök að ráðast í þessa virkjun en fyrst það var gert (með tilheyrandi kostnaði) skulum við rétt vona að hún fái að snúast og náttúruöflin láti hana í friði.

Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 19:22

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Alvöru" jarðvísindamenn eru mennskir eins og annað fólk, Björn. Túlkanir á vísbendingum geta auðveldlega litast af skoðunum þeirra, án þess að þeir fari með nein ósannindi.

Hún var athyglisverð túlkun bóndans á bökkum Þjórsár, á áhættumati Landsvirkjunnar vegna fyrirhugaðra virkjunnar. Að hans mati er áhættan á stíflurofi það mikil að hann telur sig ekki getað unað því. Í áhættumatinu segir m.a.

"Við hönnun stíflna og flóðvirkja er m.a. gert ráð fyrir því að þau standist svonefnt þúsund ára flóð með fyllsta öryggi en slíkt flóð er svo stórt að það kemur einungis á þúsund ára fresti að meðaltali. Jafnframt er í hönnuninni gert ráð fyrir að stíflur standist 50% stærra flóð án rofs en þá mögulega með takmörkuðum skemmdum. Einnig miðast hönnunin við stærsta líklega jarðskjálfta á svæðinu án rofs og gert er ráð fyrir að undir stíflum geti myndast sprungur. Þá er gert ráð fyrir gaum- og mælikerfum, viðbragðsáætlunum og öðrum viðvörunaraðgerðum".

"Hönnun stíflnana í Þjórsá miðast við stærsta jarðskjálfta sem búast má við á svæðinu sem og tengdar sprunguhreyfingar. Ekki er þó hægt að útiloka stíflurof en til þess að það eigi sér stað þyrfti til ólíklega atburði, svo sem mikla sprungugliðnun þvert á stífluna eða stórfelld mistök við byggingu hennar. Líkurnar á stíflurofi vegna jarðskjálfta og sprungumyndunar voru metnar sem 1 á móti 10.000 á ári en gengið út frá líkunum 1 á móti 100.000 á ári vegna stórfelldra mistaka í hönnun og rekstri".

Þetta telur bóndinn óviðunandi áhættu. Hann segir að meira að segja Landsvirkjun viðurkenni að áhættan sé fyrir hendi. Er hægt að segja að hann hafi rangt fyrir sér? Nei, ekki frekar en maðurinn sem ákveður að halda sig innandyra vegna hræðslu við að fá loftstein í hausinn.

 

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2008 kl. 22:02

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Áhættumatið má sjá HÉR en Verkfræðistofan VST gerði það fyrir LV.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2008 kl. 22:07

19 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Hm -  áhugaverðar pælingar ...  voru vísindamenn ekki á því að eldstöðin í Heimaey væri alveg gjörsamlega steindauð. Fyrir forvitnissakir Björn ...  kenndi pabbi þinn  á Laugum í Reykjadal??

Pálmi Gunnarsson, 23.3.2008 kl. 22:44

20 identicon

Ja godur

Bart Skofe (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 00:24

21 identicon

Jú Pálmi, karl faðir minn var kennari þar ... og gott ef ek sá ekki til þín renna trommukjuða þar margt fyrir löngu ...  ég er ekki viss um að vísindamenn hafi talið Heimaey útdauða þótt orðalagið "Helgafell er útdautt eldfjall" hafi komist í kennslubækur fyrir grunnskóla. Ekki endilega samhengi þar á milli. Og visslega erum við öll mennsk og gerum mistök og látum tilfinningar og skoðanir stjórna orðum okkar. Eldá ofanfrá Upptyppingum til sjávar í Kelduhverfi yrði stórkostleg sjónarspil sem margt mætti af læra. Þar myndi móðir náttúra fylla upp í skarð sem hún sjálf rauf með gríðarlegum vatnsflaumi. En það er víst fátt annað að gera en bíða og vona. En það má ekki gera sér of miklar vonir. Þetta er líkt og með stíflurofið í Þjórsá. Litlar líkur. Í raun ekkert svo miklu meiri líkur á gosi við Upptyppinga heldur en að gjósi við Veiðivötn þar sem Þjórsárhraunið átti upptök sín fyrir um 9000 árum. Ef sambærilegt gos yrði nú, á sama stað og magnið svipað, hyrfu Vatnsfellsstöð, Sultartangavirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sultartangavirkjun, Búrfellsvirkjun og auðvitað nýju virkjanirnar niðri við Urriðafoss á nokkrum klukkustundum.

Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 08:56

22 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Er ástæða til þess að hafa áhyggjur af Sauðárdalsmisgenginu ef gýs í Kverkfjallaeldstöðinni og jarðskorpuflekahreyfing á sér stað ?  Hér á bls. 18 er mynd af þessu misgengi.

Pétur Þorleifsson , 24.3.2008 kl. 13:24

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Landsvirkjun stundar hvorki tæknirannsóknir á framkvæmdasvæðinu né annast hönnun mannvirkja. Til þess eru ráðnir færustu sérfræðingar á hverju sviði, allt frá jarðfræði til verkfræðihönnunar. Þeir eru ýmist íslenskir eða útlendir!"

"Í upphafi var skipað sérstakt sérfræðingaráð, sem var skipað heimsþekktum sérfræðingum til þess að fylgjast með hönnun og vinnu á svæðinu!" (Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar)

Þeir aðilar sem fengnir voru til Kárahnjúkaverkefnisins, leggja heiður sinn og fyrirtækja sinna að veði með vinnu sinni. Þessir aðilar taka störf sín ekki með neinni léttúð. En svo koma aðrir fram, vísindamenn o.fl., sem enga ábyrgð bera, og tala digurbarkalega um hversu "bíræfið" verkefnið er. Þeirra orð verða gleymd og grafin innan tíðar, en mannvirkin standa áfram sem vitnisburður um verkfræðilegt afrek.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.3.2008 kl. 14:01

24 identicon

Ég held það geti enginn sagt fyrir um það með einhverri vissu, Pétur, en mér finnst ólíklegt að svo miklir sjálftar fylgi eldgosi í Kerkfjöllum að þetta misgengi fari eitthvað á stjá. Þá finnst mér ólíklegt að eldgos  í Kverkfjallaeldstöðinni (eitt og sér) komi hreyfingu á jarðskorpuflekana. Frekar að hreyfing á jarðskorpuflekunum komi af stað eldgosi en þetta Sauðárdalsmisgengi er í nokkurri fjarlægð (um 50 km) frá Kverkfjallaeldstöðinni auk þess sem undirlag virkjunarinnar er langt fyrir utan gosbeltið og veröldin þar ekki jafn auðhreyfð og innan gosbeltisins. Ég myndi því ekki hafa áhyggjur af þessu ... auk þess sem það tekur því ekki ... því við fáum engu um það breytt ... og getum ekki komið í veg fyrir það á nokkurn hátt. Annars er rólegt undir Álftadalsdyngju í augnablikinu.

Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 17:56

25 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Undirlag virkjunarinnar er ekki "langt fyrir utan gosbeltið." Sprungusveimur Kverkfjalla gengur beint í gegnum Kárahnjúka sem sjálfir eru eldfjöll.

Ómar Ragnarsson, 25.3.2008 kl. 10:24

26 identicon

Það kallast eldfjöll eða eldstöð þar sem gosið hefur á nútíma eða frá því ísa síðasta jökulskeiðs ísaldarinnar leysti. Þegar þú, Ómar, segir Kárahnjúka vera eldfjöll myndi það merkja að þar hafi eldar verið uppi á síðustu 10.000 árum. Ef þú skoðar greinina: "Síðustu eldgos við Kárahnjúka" (http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=722664) stenst það engan vegin. Þar segja jarðfræðingarnir Jóhann Helgason og Ágúst Guðmundsson meðal annars:

"Kárahnjúkasvæðið hefur yfirleitt verið talið liggja utan hins virka eldgosa- og skjálftabeltis. Rannsóknir á sprungum í berggrunni styðja þessa túlkun þar sem nýlegar sprungur hafa ekki fundist á svæðinu."

og

"Síðustu eldgos við Kárahnjúka urðu fyrir um 200 þúsund árum, þ.e. þeir mynduðust ekki á síðasta jökulskeiði, heldur því næstsíðasta eða jafnvel fyrr. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við könnun sprungna á svæðinu en engar opnar sprungur hafa fundist á yfirborði."

Kárahnjúkar eru sem sagt EKKI eldfjöll ... Kárahnúkasvæðið liggur utan his virka eldgosa- og skjálftabeltis og engar nýlegar sprungur eru á svæðinu.

Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 15:31

27 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Austurmörk sprungusveims Kverkfjalla nær undir Hálslón og að stíflustæðunum. Rannsóknir árið 2004 leiddu það í ljós stendur á heimasíðu Kárahnjúkavirkjunar.  Hins vegar mun ekki hafa verið gert mikið með volga borkjarna sem ku hafa komið upp við gljúfrin löngu fyrir framkvæmdir.

Pétur Þorleifsson , 25.3.2008 kl. 18:31

28 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Minna má á að vísindamenn útiloka ekki gos í eða við Snæfell, þótt langt sé síðan gaus þar og það sé 20 kílómetraum fyrir austan Kárahnjúka og liggi ekki á sprungusveim Kverkfjalla. Ekki þarf annað en líta á kort sem hafa verið birt af sprungusveimnum sem sýna að hann stefnir beint upp í Kverkfjöll sem og áberandi berrgangur við Stapana svonefndu á botni Hjalladals.

Ómar Ragnarsson, 26.3.2008 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband