TÁKNRÆN AÐGERÐ.

Rof kínverska ríkissjónvarpsins á beinni útsendingu frá Olympíu var afar táknræn aðgerð sem sýnir mismuninn á aðstæðum þar í landi og á Vesturlöndum. Útsending á Vesturlöndum hefði ekki verið rofin við samsvararndi aðstæður. Ég held að fólk hefði fengið að sjá hvað gerðist. Minna má hins vegar á það hvernig íslensk stjórnvöld gengu erinda kínverskra stjórnvalda gagnvart Falun Gong-fólkinu á sínum tíma og í gangi og lögregla sá til þess að hinn erlendi gestur þyrfti ekki að sjá að hér á landi væru uppi nein andmæli gegn mannréttindabrotum.

Ég er hins vegar þeirra skoðunar að íþróttaleikvangar og íþróttaviðburðir eigi að vera griðastaðir frá pólitískum deilum og hef áður bloggað um það hvernig það að blanda þessu saman leiðir í ögöngur sem eru engum til góðs, til dæmis í Moskvu 1980 og Los Angeles 1984. Dæmi um Ólympíuleika sem þó tókst að halda án stórfelldrar fjarveru þjóða voru leikarnir í Melbourne 1956 skömmu eftir að sovétmenn bældu niður uppreisn Ungverja í blóði.


mbl.is Útsending rofin frá Ólympíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LEYNDARMÁL HINNA HORFNU.

Beinafundurinn í Kjósinni leiðir hugann að því hve lengi það getur dregist að horfið fólk finnist þrátt fyrir mikla leit. Sum mannshvörf eru alveg ótrúega dularfull og er skemmst að minnast hvarfs hins heimsfræga flugmanns og loftbelgsfara Steve Fossett í Nevadaeyðimörkinni sem er ekki aðeins sjálfur týndur heldur líka heil flugvél sem hann var á. Maður hélt að með nýjustu geimmyndatækni sem gumar af því að greina smáhluti á jörðinni væri hægt að leysa þetta mál en það er öðru nær.

Ég hef ekið um eyðimerkurnar Mojave, Dauðadal og hluta af Nevadaeyðimörkinni og á erfitt með að skilja hvernig jafn stór hlutur og flugvél skuli geta verið týndur á svæði þar sem sólin skín í heiði mestallt árið, jafnvel þótt þetta svæði sé feikna víðfeðmt.

Við skulum ekki afskrifa að eitthvað tengt Guðmundar- og Geirfinnsmálum finnist þótt síðar verði. Minna má á hinn dularfulla fund vettlings Jóns Austmanns við Blöndugljúfur tugi kílómetra frá Beinhól á Kili eftir að Reynistaðabræður urðu þar úti.

Mér eru ævinlega minnisstæð klaufaleg ummæli talsmanns lögreglunnar í harðri yfirheyrslu Svölu Thorlaciusar í Kastljósi í Sjónvarpi í kringum 1974-75 þegar hún saumaði að honum og sagði sem svo að það væri hart að leitir lögreglu og leitarmanna bæru ekki árangur.

Lögreglufulltrúinn sagði að það væri ekki alveg rétt hjá henni að leitirnar bæru ekki árangur, því að "þær enda oftast með því að finnum að lokum þá týndu steindauða og allt í fína lagi."

Hin óheppilegu ummæli beindust að því að skárra væri að finna eitthvað að lokum en ekki neitt og má út af fyrir sig taka undir það þótt orða hefði mátt það á heppilegri hátt.

Stundum er leitað langt yfir skammt. Mér er minnisstæð hin langa og ítarlega leit að flugvélinni TF-ROM að mig minnir í maí 1973. Nú er ég búinn að fá leiðréttingu í athugasemd og ártalið var 1981. Flugvélin fannst ekki þrátt fyrir margra daga leit á leitarsvæði sem náði allt frá Reykjavík um Arnarvatnsheiði og norðanverðan Kjöl og allan Tröllaskaga allt til Akureyrar.

Ég var á þriðja leitardegi sendur sem leiðsögumaður með stórri þyrlu varnarliðsins sem þaulleitaði allan Tröllaskagann.

Veður var þannig þegar TF-ROM var á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar að það var heiðskírt en svo mikið mistur að skyggni var aðeins nokkrir kílómetrar. Eina svæðið sem þoka var á var á Holtavörðuheiði og vestast áTvídægru á tiltölulega litlu svæði.

Eftir á að hyggja var langlíklegast að flugvélinni hefði verið flogið með þjóðveginum frekar en að fljúga beint þrátt fyrir heiðskírt veður. Ég þekki það vel að flugmenn, sem þekkja landið vel, eru skiljanlega ragir við að fljúga í lélegu skyggni um svæði sem þeir fara sjaldan eða aldrei yfir. Kjölur er gott dæmi um þetta og einnig er öruggara á eins hreyfils vél með tilliti til vélarbilunar að fylgja vegum, túnum og byggð.

Flak flugvélarinnar fannst loks skammt austan við veginn upp á Holtavörðuheiði hjá litlum vötnum, sem með flekkóttri jörð (þetta var snemma vors) gerði illmögulegt að sjá flakið.

Flugmaðurinn hafði fylgt veginum en hrakist inn á heiðina efst í Norðurárdal vegna þokunnar og að lokum lent inni í þokunni og brotlent.

Ef hann hefði hækkað flugið og flogið í mistrinu yfir þokuna hefði hann líklegast komist áfram en honum hefur hugsanlega verið í minni örlög flugvélarinnar TF-REA sem fórst í Snjófjöllum 1973 eftir að flugmaðurinn ætlaði að fljúga upp úr þoku.

TF-ROM var snúið of seint við og því fór sem fór.

Eftir á að hyggja var þetta flugslys af fullkomlega rökréttum orsökum, sem hefðu átt að beina leitinni að mestu að þessu litla svæði austan við Heiðarsporðinn og Biskupsbeygjuna þar sem Holtavörðuheiði tekur við af Norðurárdal.
Þar hafði þokunni létt daginn eftir, mistrið minnkað mikið og komið gott skyggni og gott leitarveður.

Ég hitti nýlega flugmann sem leitaði á þessu svæði og sagði mér frá því að hann hefði haldið að hann hefði flogið yfir flakið, snúið við til að finna það aftur en ekki fundið það og efaðist þá um að þetta hefði verið rétt hjá sér. Hann kvaðst viss um það nú að ef hann hefði haldið áfram að fínkemba betur á þessum stað og fljúga þess vegna aftur og aftur yfir sömu staðina hefði hann fundið flakið.

Þetta skipti svo sem ekki máli hvað varðaði þá týndu að því leyti að þeir höfðu allir látist í þessari harkalegu brotlendingu sem sundraði vélinni í marga hluta. En leitin og óvissan hefðu orðið skammvinnari með markvissari leit.

Síðan má samt deila um það hvort eftir sem áður sé ekki rétt að hafa leitarsvæði sem stærst. Vettlingur Jóns Austmanns sýnir okkur að oft er með ólíkindum hve langt hinir týndu villast.


mbl.is Mannabein fundust á víðavangi í Kjósarhreppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband