"STAÐINN AÐ VERKI..."

Fréttin af Dunlap, sem átti að fara að taka líffæri úr vegna heiladauða, minnir á Íslendinginn, sem úrskurðaður var látinn eftir að hafa týnst í Bandaríkjunum en dúkkaði síðan sprellifandi upp á Íslandi mörgum árum síðar.

Stærsti "stand-up" draumur minn hefur lengi verið þessi: Ég stend í beinni útsendingu í Leifsstöð þegar tveir menn koma gangandi út úr Flugleiðaþotu, og um leið og alþjóð sér hverjir þeir eru, segi ég í myndavélina: "Við erum stödd hér í Leifsstöð og sjáið þið hverjir koma þarna labbandi sprelllifandi eftir öll þessi ár, - Guðmundur og Geirfinnur! Sælir strákar, hvar hafið þið verið?"

Annars minnir þessi heiladauðasaga mig á eina af eftirlætissögum Boga Ágústssonar hér á árum áður þegar Pólverja-, Álaborgara- og Hafnarfjarðarbrandarar voru hvað vinsælastir. Læt hana flakka hér með og vona að Bogi fyrirgefi mér það:

Í Póllandi lá Pólverji á skurðarborði og færustu heilaskurðlæknar landsins höfðu lyft heilanum úr hauskúpu hans og lagt til hliðar við hana til að komast betur að meini sem þurfti að fjarlægja. Allt í einu leit einhver á klukkuna og hrópaði:"Kaffi!" og allir fóru í kaffi.

Þegar þeir komu úr kaffinu brá þeim í brún því að Pólverjinn var horfinn hafði rankað við sér heilalaus og strokið af spítalanum. Þetta var grafalvarlegt mál og hafin víðtæk leit lögreglu að Pólverjanum heilalausa um allt Pólland.

Þegar sú leit bar ekki árangur var leitað á náðir Interpól, alþjóðalögreglunnar og leitarsvæðið útvíkkað um allan heiminn og leitað árangurslaust í heilt ár, þangað til að lokum að hinn stórhættulegi heilalausi Pólverji
fannst og var handtekinn, STAÐINN AÐ VERKI þar sem hann var að kenna félagsfræði við sænskan háskóla.


mbl.is Maður sem lýstur var látinn segist nokkuð hress
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GAMALT OG NÝTT.

Skömmu eftir heimstyrjöldina var hannað og smíðað farartæki, sem hét Aerocar og var fljúgandi bíll eins og nafnið bendir til. Hann var knúinn 143ja hestafla flugvélarhreyfli og hægt að fella vængina saman og draga á eftir bílnum á vegum. Á vegum var aflinu beint yfir í drifkerfi sem knúði hjólin. Aldrei fannst markaður fyrir þennan bíl.

RAX ljósmyndari á tveggja sæta léttflugvél af gerðinni Kolb sem hægt er að fella vængina á og setja síðan flugvélina inn í kassa sem hann dregur hana á á bílnum. Hann hefur notað flugvélina á þennan hátt en mjög sjaldan.

Ég hef áratugum saman pælt í draumabíl/flugvélinni og komist að þeirri niðurstöðu að einfaldasta lausnins sé sú eina, það er, að bíllinn jafnt sem flugvélin sé knúinn af lokuðum loftskrúfum. Gallinn við slíkt er bara sá að í umferðinni verður loftknýrinn frá hreyflunum til vandræða fyrir aðra umferð. Vængina þarf að fella á þann hátt að bíllinn verði ekki breiðari en 2,50 metrar sem er hámarksbreidd á rútum.

Þá er eftir að geta einföldustu lausnarinnar sem er sú að kaupa sér vélknúna fallhlíf eða tauvæng, sem hægt er að setja í tösku og hafa í farangursgeymslu bílsins. Þegar maður þarf á því að halda að hoppa yfir torfæru eins og jökulfljót eða að stökkva upp á fjall, er hægt að taka "taufaxa" út úr bílnum, breiða á jörðina og hlaupa í loftið með hjálp af skrúfu hreyfilsins á bakinu.

Gallinn við þetta er sá að það má ekki vera mikill vindur, nokkuð sem er erfitt að eiga við á Íslandi.

Þá er eftir einn möguleiki, en hann er sá að kaupa sér vélhjól, sem ég fann í bók yfir vélhjól heims, og er 80sm langt, 50 sm hátt og 30 sm breitt og kemst því inn í fjögurra sæta flugvél.

Þegar lent er er mikill munur á því að vera kominn á steinaldarstigið á tveimur jafnfljótum eða að taka þetta örvélhjól út úr bílnum og þeysa af stað!

Þessi síðasti möguleiki er sá sem stendur næst hjá mér ef ég eignast einhvern tíma fé.


mbl.is Flogið yfir umferðarhnúta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"SÁUÐ ÞIÐ HVERNIG ÉG TÓK HANN?!

Ofngreinda greinda setningu segir Jón sterki mannalega í Skugga-Sveini að afloknum átökum, þar sem hið þveröfuga á við. Fréttir fjölmiðlanna í morgun hófust svona: "Seðlabankinn hefur stórhækkað stýrivexti, úr 13,75% í 15% og gengi krónunnar og virði hlutabréfa hefur þegar hækkað Þetta tilkynnti Davíð Oddsson Seðlabankastjóri í morgun." Já, mikill er Davíð, - vantaði bara að sagt yrði um vandann og seðlapabba: Sáuð þið hvernig hann tók hann?!

Alveg dásamleg uppákoma: Pabbi kyssti á meiddið eftir að sársaukinn var aðeins að byrja að minnka og mikið er nú seðlapabbi klár og góður. Allir ánægðir, að minnsta kosti ríkisstjórnin, já, já, allt í fína lagi.

Gallinn er bara sá að hlutabréf voru þegar farin að hækka erlendis og þar með hér heima, áður en þetta kom til. Það vildi bara svo heppilega til fyrir seðlapabba, sem sjálfur hratt þenslunni af stað fyrir sex árum, að hér á landi var frídagur, annar páskadagur, og þess vegna komu áhrif erlendu hlutabréfahækkunarinnar ekki fram hér á landi fyrr en í morgun, og þessi áhrif sköpuðu umhverfi fyrir óhjákvæmilega hækkun krónunnar eftir allt of djúpa dýfu.

Seðlapabbi sá sér leik á borði til að eigna sér það og láta líta svo út sem margítrekaðar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans skiptu einhverjum sköpum í íslensku efnahagslífi.

Það er ekki einu sinni hægt að líkja þessu við að pissa í skó sinn, því að sá hluti efnahagslífsins sem svona "handaflsaðgerðir" eins og Davíð kallaði svona einu sinni, hafa áhrif á, fer síminnkandi. Hluti erlendra lána hjá fyrirtækjum og einstaklingum mun ekki minnka, heldur vaxa og Davíð getur aðeins pissað í hælinn á skó íslensks efnahagslífs.

Sérfræðingar hafa sýnt fram á að þegar til lengra tíma sé litið borgi sig að taka lán í erlendum myntum, jafnvel þótt krónan sígi tímabundið eða til langframa. Fáránlegar og skaðlegar sveiflur krónunnar munu halda áfram að rýra trú innlendra og erlendra aðila á henni.

Aðgerð Seðlabankans er örþrifaráð til að bjarga óraunhæfum kjarasamningum úr fyrirsjáanlegum ógöngum og reyna að fresta hinum óhjákvæmilega, timburmönnunum eftir lána- þenslu- og neyslufyllerí undanfarinna ára.

Áfram er blásið í blöðru okurvaxtanna, sem sliga efnahagslífið og reyna að fresta því enn um sinn að fjárfestar, sem nýta sér vaxtamuninn hér og erlendis, missi móðinn og hætti að fjárfesta í krónubréfunum og öðru hliðstæðu.

Þreföld stýrivaxtahækkun á undanförnum þensluárum er fyrir löngu komin út fyrir skynsamleg mörk og enginn virðist velta þeirri spurningu fyrir sér hvenær sé komið að endimörkum þess að Davíð geti sagt eina ferðina enn: "Sáuð þið hvernig ég tók hann!"


mbl.is Eðlileg viðbrögð Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TÁKN ÓHUGNAÐAR OG ANDVARA.

Heilinn, vitsmunalíffæri hvers manns, er varinn af hauskúpu. Hauskúpan og höfuðið hefur löngum verið dramatískur hlutur. Þannig eru sagnirnar um höfuð Jóhannesar skírara og Pompeijusar fullar hryllings og óhugnaðar. Stundum er gálgahúmor með í för, samanber frásögn Njálu af þvi þegar Kári hjó höfuðið af einum brennumanna, sem var að telja peninga, "og nefndi höfuðið tíu þá af fauk bolnum" segir í sögunni.

Líklega er verðmætasti hluturinn á heimili mínu listmunur þar sem hauskúpa og krosslagðir leggir leika aðalhlutverkið sem huti af stórum, kringlóttum öskubakka. Gripurinn er áhrifamikil áminning um nauðsyn þess að vera á varðbergi gagnvart grimmd mannsins.

Forsaga þessa stóra og mikla öskubakka er sú að helsti heimilisvinur foreldra minna, Baldur Ásgeirsson heitinn, var annar tveggja Íslendinga, samverkamanna Guðmundar í Miðdal, sem fóru í boði sjálfs Heinrichs Himmlers til Dachau í Þýskalandi 1938 til að nema þar mótasmíði og listmunagerð úr steini.

Himmler var mikill áhugamaður um slíka list og ætlaði henni stóran hlut í menningu hins germanska ríkis hreinna aría, yfirburðakynþáttar. Ég spurði Baldur aldrei nákvæmlega út í aðstæðurnar, sem þeir Íslendingarnir bjuggu við í Dachau, en ímynda mér stundum að þeir gætu hafa dvalið þar í góðu yfirlæti og unnið í steinum, sem hinir hlekkjuðu gyðinglegu handan við múrinn, hjuggu fyrir þriðja ríkið.

Staðurinn hefur sérstakan blæ yfir sér sem fyrstu skipulögðu útrýmingarbúðir nasista og okkar tíma.

1938-1940 voru dýrðarár í Þýskalandi. Hitler innlimaði Austurríki í Þýskaland 1938 við mikinn fögnuð beggja þjóða, vafði ráðamönnum Breta og Frakka um fingur sér í Munchen og var valinn maður ársins af tímaritinu Time.

Hvergi var eins lítið atvinnuleysi og í Þýskalandi, gríðarlegar framkvæmdir í landinu með hraðbrautir þvers og kruss sem tákn þess fyrir umheiminn, að þarna væri að finna lausn þeirra þjóðfélagsvandamála, sem voru að sliga önnur lönd í kreppunni.

Nú nýlega las ég merka bók, "Nazism at war", sem sýnir glögglega, að allt þetta spilverk nasista og friðarhjal þeirra þar með var byggt á blekkingu, því að efnahagslega var óhugsandi að halda þessari uppbyggingu áfram lengur en í mesta lagi tvö ár í viðbót. Þá hlaut að koma að skuldadögunum og eina ráðið gagnvart því var að leggja undir sig önnur lönd í hernaði.

Allir hefðu átt að sjá 1938 að þjóðarframleiðsla og efnahagur Þjóðverja gat ekki staðið undir framkvæmdunum og hervæðingunni án stríðs.

Öllum mátti vera ljós kúgunin og einræðið sem kerfið byggðist á. En fyrst breskir og franskir stjórnmálamenn að Churchill undanskildum voru blindir fyrir blekkingum þess, var skiljanlegt að ungir menn dáðust að uppganginum í Þýskalandi.Ég man að faðir minn og Baldur ræddu þetta stundum á þessum nótum og varð tíðrætt um andvaraleysið gagnvart illskunni í heiminum, sem væri lævís og lipur.

Það var oft glatt á hjalla hjá þeim þegar þeir tefldu og létu mig spila amerískan svertingjadjass fyrir sig og eitt sinn var það í einskonar hálfkæringi sem Baldur kvaðst ætla að gefa föður mínum krassandi afmælisgjöf. Þeir voru rúmlega tvítugir menn og húmorinn var oft svartur og krassandi.

Og það gerði hann. Húskúpa og krosslagðir leggir voru merki SS-sveita Himmlers og þetta merki, stórt og áhrifamikið, prýðir hinn stóra öskubakka sem kom með og gaf honum. Ég efast um að annar gripur af þessu tagi sé til á Íslandi.

Baldur reykti talsvert og síðar, þegar skaðsemi reykinga varð öllum ljós, varð merking SS-merksins, dauðans og óhugnaðarins, tvöföld á öskubakkanum og mjög viðeigandi.

Baldur Ásgeirsson var einhver ljúfasti og besti maður sem ég hef kynnst og fyrir þá sök verða andstæður góðs og ills enn áleitnari í hvert sinn sem ég hugsa um hann og öskubakkann sem hann gerði.

Aldrei mun falla úr gildi þörfin á andvaranum gagnvart illskunni og þeim augum lít ég á þennan grip.

Baldur komst nær óhugnaðinum en flestir aðrir Íslendingar við húsgafl dauðans og pyntinganna í Dachau.

En þegar ég heyri góðs manns getið er nafn hans eitt af þeim sem kemur upp í hugann.


mbl.is Ekki frekari eftirmál af beinfundinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband