TÁKN ÓHUGNAÐAR OG ANDVARA.

Heilinn, vitsmunalíffæri hvers manns, er varinn af hauskúpu. Hauskúpan og höfuðið hefur löngum verið dramatískur hlutur. Þannig eru sagnirnar um höfuð Jóhannesar skírara og Pompeijusar fullar hryllings og óhugnaðar. Stundum er gálgahúmor með í för, samanber frásögn Njálu af þvi þegar Kári hjó höfuðið af einum brennumanna, sem var að telja peninga, "og nefndi höfuðið tíu þá af fauk bolnum" segir í sögunni.

Líklega er verðmætasti hluturinn á heimili mínu listmunur þar sem hauskúpa og krosslagðir leggir leika aðalhlutverkið sem huti af stórum, kringlóttum öskubakka. Gripurinn er áhrifamikil áminning um nauðsyn þess að vera á varðbergi gagnvart grimmd mannsins.

Forsaga þessa stóra og mikla öskubakka er sú að helsti heimilisvinur foreldra minna, Baldur Ásgeirsson heitinn, var annar tveggja Íslendinga, samverkamanna Guðmundar í Miðdal, sem fóru í boði sjálfs Heinrichs Himmlers til Dachau í Þýskalandi 1938 til að nema þar mótasmíði og listmunagerð úr steini.

Himmler var mikill áhugamaður um slíka list og ætlaði henni stóran hlut í menningu hins germanska ríkis hreinna aría, yfirburðakynþáttar. Ég spurði Baldur aldrei nákvæmlega út í aðstæðurnar, sem þeir Íslendingarnir bjuggu við í Dachau, en ímynda mér stundum að þeir gætu hafa dvalið þar í góðu yfirlæti og unnið í steinum, sem hinir hlekkjuðu gyðinglegu handan við múrinn, hjuggu fyrir þriðja ríkið.

Staðurinn hefur sérstakan blæ yfir sér sem fyrstu skipulögðu útrýmingarbúðir nasista og okkar tíma.

1938-1940 voru dýrðarár í Þýskalandi. Hitler innlimaði Austurríki í Þýskaland 1938 við mikinn fögnuð beggja þjóða, vafði ráðamönnum Breta og Frakka um fingur sér í Munchen og var valinn maður ársins af tímaritinu Time.

Hvergi var eins lítið atvinnuleysi og í Þýskalandi, gríðarlegar framkvæmdir í landinu með hraðbrautir þvers og kruss sem tákn þess fyrir umheiminn, að þarna væri að finna lausn þeirra þjóðfélagsvandamála, sem voru að sliga önnur lönd í kreppunni.

Nú nýlega las ég merka bók, "Nazism at war", sem sýnir glögglega, að allt þetta spilverk nasista og friðarhjal þeirra þar með var byggt á blekkingu, því að efnahagslega var óhugsandi að halda þessari uppbyggingu áfram lengur en í mesta lagi tvö ár í viðbót. Þá hlaut að koma að skuldadögunum og eina ráðið gagnvart því var að leggja undir sig önnur lönd í hernaði.

Allir hefðu átt að sjá 1938 að þjóðarframleiðsla og efnahagur Þjóðverja gat ekki staðið undir framkvæmdunum og hervæðingunni án stríðs.

Öllum mátti vera ljós kúgunin og einræðið sem kerfið byggðist á. En fyrst breskir og franskir stjórnmálamenn að Churchill undanskildum voru blindir fyrir blekkingum þess, var skiljanlegt að ungir menn dáðust að uppganginum í Þýskalandi.Ég man að faðir minn og Baldur ræddu þetta stundum á þessum nótum og varð tíðrætt um andvaraleysið gagnvart illskunni í heiminum, sem væri lævís og lipur.

Það var oft glatt á hjalla hjá þeim þegar þeir tefldu og létu mig spila amerískan svertingjadjass fyrir sig og eitt sinn var það í einskonar hálfkæringi sem Baldur kvaðst ætla að gefa föður mínum krassandi afmælisgjöf. Þeir voru rúmlega tvítugir menn og húmorinn var oft svartur og krassandi.

Og það gerði hann. Húskúpa og krosslagðir leggir voru merki SS-sveita Himmlers og þetta merki, stórt og áhrifamikið, prýðir hinn stóra öskubakka sem kom með og gaf honum. Ég efast um að annar gripur af þessu tagi sé til á Íslandi.

Baldur reykti talsvert og síðar, þegar skaðsemi reykinga varð öllum ljós, varð merking SS-merksins, dauðans og óhugnaðarins, tvöföld á öskubakkanum og mjög viðeigandi.

Baldur Ásgeirsson var einhver ljúfasti og besti maður sem ég hef kynnst og fyrir þá sök verða andstæður góðs og ills enn áleitnari í hvert sinn sem ég hugsa um hann og öskubakkann sem hann gerði.

Aldrei mun falla úr gildi þörfin á andvaranum gagnvart illskunni og þeim augum lít ég á þennan grip.

Baldur komst nær óhugnaðinum en flestir aðrir Íslendingar við húsgafl dauðans og pyntinganna í Dachau.

En þegar ég heyri góðs manns getið er nafn hans eitt af þeim sem kemur upp í hugann.


mbl.is Ekki frekari eftirmál af beinfundinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Stórmerkileg lesning og áhrifarík; takk fyrir þetta, Ómar.

Jón Agnar Ólason, 25.3.2008 kl. 10:31

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Skemmtileg og dramatísk frásögn.

  

Axel Jóhann Hallgrímsson, 25.3.2008 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband