"SÁUÐ ÞIÐ HVERNIG ÉG TÓK HANN?!

Ofngreinda greinda setningu segir Jón sterki mannalega í Skugga-Sveini að afloknum átökum, þar sem hið þveröfuga á við. Fréttir fjölmiðlanna í morgun hófust svona: "Seðlabankinn hefur stórhækkað stýrivexti, úr 13,75% í 15% og gengi krónunnar og virði hlutabréfa hefur þegar hækkað Þetta tilkynnti Davíð Oddsson Seðlabankastjóri í morgun." Já, mikill er Davíð, - vantaði bara að sagt yrði um vandann og seðlapabba: Sáuð þið hvernig hann tók hann?!

Alveg dásamleg uppákoma: Pabbi kyssti á meiddið eftir að sársaukinn var aðeins að byrja að minnka og mikið er nú seðlapabbi klár og góður. Allir ánægðir, að minnsta kosti ríkisstjórnin, já, já, allt í fína lagi.

Gallinn er bara sá að hlutabréf voru þegar farin að hækka erlendis og þar með hér heima, áður en þetta kom til. Það vildi bara svo heppilega til fyrir seðlapabba, sem sjálfur hratt þenslunni af stað fyrir sex árum, að hér á landi var frídagur, annar páskadagur, og þess vegna komu áhrif erlendu hlutabréfahækkunarinnar ekki fram hér á landi fyrr en í morgun, og þessi áhrif sköpuðu umhverfi fyrir óhjákvæmilega hækkun krónunnar eftir allt of djúpa dýfu.

Seðlapabbi sá sér leik á borði til að eigna sér það og láta líta svo út sem margítrekaðar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans skiptu einhverjum sköpum í íslensku efnahagslífi.

Það er ekki einu sinni hægt að líkja þessu við að pissa í skó sinn, því að sá hluti efnahagslífsins sem svona "handaflsaðgerðir" eins og Davíð kallaði svona einu sinni, hafa áhrif á, fer síminnkandi. Hluti erlendra lána hjá fyrirtækjum og einstaklingum mun ekki minnka, heldur vaxa og Davíð getur aðeins pissað í hælinn á skó íslensks efnahagslífs.

Sérfræðingar hafa sýnt fram á að þegar til lengra tíma sé litið borgi sig að taka lán í erlendum myntum, jafnvel þótt krónan sígi tímabundið eða til langframa. Fáránlegar og skaðlegar sveiflur krónunnar munu halda áfram að rýra trú innlendra og erlendra aðila á henni.

Aðgerð Seðlabankans er örþrifaráð til að bjarga óraunhæfum kjarasamningum úr fyrirsjáanlegum ógöngum og reyna að fresta hinum óhjákvæmilega, timburmönnunum eftir lána- þenslu- og neyslufyllerí undanfarinna ára.

Áfram er blásið í blöðru okurvaxtanna, sem sliga efnahagslífið og reyna að fresta því enn um sinn að fjárfestar, sem nýta sér vaxtamuninn hér og erlendis, missi móðinn og hætti að fjárfesta í krónubréfunum og öðru hliðstæðu.

Þreföld stýrivaxtahækkun á undanförnum þensluárum er fyrir löngu komin út fyrir skynsamleg mörk og enginn virðist velta þeirri spurningu fyrir sér hvenær sé komið að endimörkum þess að Davíð geti sagt eina ferðina enn: "Sáuð þið hvernig ég tók hann!"


mbl.is Eðlileg viðbrögð Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Ég hef sagt það áður og segi það enn og hef það að auki eftir einum af mínum uppáhaldsrithöfundum: "þetta eru asnar Guðjón".

corvus corax, 25.3.2008 kl. 16:52

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Forsætisráðherra talaði reyndar um að gengi hlutabréfanna hefðu hækkað vegna utan að komandi áhrifa.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.3.2008 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband