26.3.2008 | 21:25
ENNÞÁ VON UM BÆRILEGA LAUSN.
Vaxandi ósætti NATO og Rússa vekur áhyggjur. Viðbrögð Rússa við uppsetningu á eldflaugum NATO í Póllandi og Tékklandi eru skiljanleg svo og áform að NATO færi út kvíar í fyrrum ríkjum Sovétríkjanna sálugu. NATÓ er einfaldlega hernaðarbandalag þótt yfirlýst sé að það sé varnarbandalag og að á sínum tíma hafi verið til þess full ástæða að stofna NATÓ. Í herförinni inn í Írak á uppdiktuðum forsendum var ekki lengur hægt að segja að eingöngu væri um varnarviðbrögð að ræða, því miður.
En rétt eins og að Rússar segja að ekki sé viðunandi fyrir þá að hafa við landamæri sín lönd og bækistöðvar á vegum hernaðarbandalags sem þeir eru ekki sjálfir í, myndu Bandaríkjamenn væntanlega ekki taka því þegjandi ef Mexíkó væri í hernaðarbandalagi sem Bandaríkin væru ekki í, heldur gamall andstæðingur úr kalda stríðinu.
Þótt margt hafi breyst síðan 1963 ætti okkur að vera í minni lætin sem urðu út af því að Rússar ætluðu að segja upp kjarnorkueldflaugar á Kúbu og þá stóð öll samúð hins vestræna heims með Bandaríkjamönnum en ekki Kúbverjum.
Ásókn fyrrum austantjaldslanda og lýðvelda Sovétríkjanna í búnað sem geti minnkað áhrif hins stóra rússneska nágranna eru líka skiljanleg rétt eins og það var skiljanlegt að Castro vildi fá til sín mótvægi við yfirþyrmandi nálægð hins kjarnorkuvædda risaveldis. Aðeins tveimur árum fyrr höfðu Bandaríkjamenn stutt innrás kúbverskra útlaga í Svínaflóa og Castro var því uggandi um sinn hag.
Castro hafði það upp úr krafsinu að þegjandi samkomulag varð um að ef Rússar flyttu eldflaugarnar burtu myndu Bandaríkjamenn ekki reyna aftur neitt ævintýri í líkingu við Svínaflóainnrásina og að þessu leyti borgaði brölt Castros sig fyrir hann þótt það kostaði næstum því kjarnorkustyrjöld.
Nú er að sjá hvort hægt sé að lægja öldurnar sem hafa risið við bæjardyr Rússa. Eins og oft í deilum er það liður í áætlun beggja að bera fram hinar ítrustu kröfur sem síðan er hægt að slá af til að ná málamiðlun. Svipuð aðferð og hjá aðalhönnuði GM á sinni tíð sem lagði þessar línur: "Go all the way, then back off."
Æskilegast væri að finna lausn sem tryggir sjálfstæði nágrannaríkja Rússlands og afskiptaleysi Rússa af innanlandsmálum þeirra án þess að það þurfi að hnykla mikla eldflaugavöðva við landamæri Rússlands.
Rússar hafa gasið sem þeir selja til vesturs uppi í erminni og vonandi kemur ekki til þess að þeir beiti því vopni í þvingunarskyni.En það gætu þeir gert ef þeim finnst þeim vera niðurlægðir í eldflaugamálinu.
Það er engum í hag að nýtt kalt stríð hefjist. Þótt manni hugnist stjórnarfarið í Rússlandi illa, ekki hvað síst eftir að hafa farið þangað og þefað af grasrót rússnesk samfélags, verður raunsæispólitík sem beinist að friði vonandi látin ráða í samskiptum NATO og Rússa.
![]() |
Bush þáði boð Pútíns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2008 | 14:43
"ÁRÁS" AÐ FARIÐ SÉ AÐ LÖGUM.
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði að kæra Landverndar vegna framkvæmdaleyfis við Helguvík væri "árás". Líklega er hann sama sinnis um kæru Náttúruverndarsamtakanna. Í þessum skilningi var það "árás" þegar Hjörleifur Guttormsson kærði framkvæmdir við álver á Reyðarfirði vegna þess að þær byggðust á mati á umhverfisáhrifum verksmiðju, sem mengaði á allt annan hátt en verksmiðjan sem reisa átti. Hjörleifur vann málið en framkvæmdir voru aldrei stöðvaðar.
Sá sem braut af sér hagnaðist á brotinu og þetta er aðferð stóriðjupostulanna.
Þeir virðast setja sig á annan stall en venjulega borgara. Þegar almennnir borgarar hyggjast fara út í framkvæmdir sem eru háðar lögbundnum skilyrðum af ýmsu tagi, bíða þeir með að hefja framkvæmdirnar þangað til öllum skilyrðum hefur verið fullnægt.
Hefji þeir framkvæmdir fyrr eru þær venjulega stöðvaðar strax af þeim sem ber að halda uppi eðlilegum lögum. Hér á landi virðist annað eiga að gilda um virkjanir og stórverksmiðjur og hinir framkvæmdaglöðu treysta því að komast upp með að hefja framkvæmdir og láta þær ganga svo hratt að ekki verði aftur snúið.
Hvorki hefur verið gengið frá orkuöflun, orkuflutningum né losunarkvótum fyrir álverið í Helguvík, en með því að hefja samt framkvæmdir eru sveitarfélögin, sem semja þarf við um línurnar og virkjanirnar, beittar kúgun og það vafalaust skilgreint sem "árásir" ef þessir samningsaðilar mögla.
Kæra Landverndar byggðist á því að samkvæmt eðlilegum og skynsamlegum lagaskilningi væri rétt að álverið og allar framkvæmdir, sem tengjast því, færu í eitt heildarmat á umhverfisáhrifum frekar en að matið færi fram í bútum, lína hér og lína þar, virkjun hér, virkjun þar, leiðsla hér og leiðsla þar o.s.frv. Þess vegna skaut Landvernd málinu til umhverfisráðherra sem er með mat á umhverfisáhrifum á sínu forræði.
Nú hafa jarðýtuvöðlarnir með framkvæmdum sínum sett kúgunarpressu á umhverfisráðherrann sem verður siðan sakaður um "árás" ef hann makkar ekki rétt.
Landsvirkjun tilkynnti með pomp og pragt á Keflavíkurflugvelli á dögunum að búið væri að ganga frá samningum um orkusölu frá Neðri-Þjórsá til netþjónabús á vellinum og þess hvergi getið að ósamið væri enn við landeigendur.
Samt höfðu stjórnarþingmenn á borð við Illuga Gunnarsson og einnig Þorsteinn Pálsson ritstjóri, sagt að ekki dygðu lengur þau rök fyrir þvinguðu eignarnámi að "brýnir þjóðarhagsmunir" krefðust þess.
Landsvirkjun skellir skollaeyrum við slíku og er greinilega búin að afgreiða málið með þeirri hugsun að valta yfir allt og alla eins og venjulega. Hún hefur ekki fallið frá hugmyndum um innrás í Þjórsárver, endanlega uppþurrkun Dynks, flottasta foss landsins, ásamt fleiri stórfossum og eyðileggingu Langasjávar.
Þegar þar að kemur heldur Landsvirkjun því opnu að framkvæma þetta allt gert og andóf gegn því verður vafalaust kallað "árás."
Síðustu daga fyrir kosningar var gengið frá óafturkræfum gerningum sem varða óafturkræfar framkvæmdir, annars vegar um innrás jarðýtna í Gjástykki vegna rannsókna og hins vegar vegna eignaskipta við Þjórsá.
Í nágrannalöndunum eru það óskráð lög, sem farið er eftir, að fráfarandi stjórnvöld forðist að ljúka rétt fyrir kosningar gerningum sem eru óafturkræfir og binda hendur þeirra sem taka við eftir kosningar.
Í Bandaríkjunum líkja menn forsetanum við "lame duck", lamaða önd í þessu tilliti og telja það hluta af eðlilegu lýðræðislegu siðgæði. Þar í landi eru menn líka meðvitaðir um það að yfirgnæfandi meirihluti þeirra kjósenda, sem óafturkræfar ákvarðanir varðar, er ófæddur.
Slíkur hugsunarháttur virðist enn eiga langt í land með að nema hér land. Hér þykir sjálfsagt að teygja og sveigja lög að vild. "Löglegt en siðlaust" kallaði Vilmundur Gylfason slíkt.
Hér á landi er viðleitni þeirra sem vilja að farið sé að lögum og í samræmi við lýðræðislegt siðgæði kölluð "árás."
Í samræmi við það reikna ég með því að vera skilgreindur af þessum aðilum sem "árásarmaður."
Miðað við þann málstað sem þjónað er með slíkum nafngiftum ætla ég hins vegar að bera þetta heiti stoltur ásamt því fólki sem má sæta því að vera kallað "hryðjuverkamenn", "illgresi" og "öfgafólk" vegna skoðana sinna á umhverfismálum.
![]() |
Kæra útgáfu byggingarleyfis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)