12.4.2008 | 22:58
Þrándheimur - Reykjavík - Höfn - Osló.
Þrændalög eru álíka fjölmenn byggð og suðvesturhorn Íslands. Engin byggð heims er sambærilegri við Reykjavíkursvæðið. Þetta er sama breiddargráða, svipað loftslag, sama borgarstærð, svipuð menning og þjóðhagir. Í Þrándheimi er Ólafshöllin, 1200 manna alhliða tónlistar-og óperuhús sem kostaði samt aðeins hluta af því sem tónlistarhús í Reykjavík og óperuhús í Kópavogi munu kosta samanlagt.
Ég hef talað við íslenskan leikstjóra, Svein Einarsson, sem lýkur lofsorði á Ólafshöllina sem óperuhús. Þar var ég þegar Sigurrós flutti Hrafnagaldur sinn og hljómburður og stemning var eins og best verður á kosið. Ólafshöllin afsannar að tónlistarhús og óperuhús geti ekki farið saman.
Ólafshöllin er ekki minnismerki um arkitekta. Hún fellur svo vel inn í miðborg Þrándheims að erfitt er að finna hana. Hún er sambyggð við hótel, ráðstefnuhús og verslunarmiðstöð. Minni salurinn tekur rúmlega 200 manns, alveg hæfilega stór svo að hann er eftirsóttur allt árið sem og stóri salurinn. Sá litli er hannaður þannig að að það virðist alltaf húsfyllir og topp stemning, jafnvel þótt aðeins 100 manns séu þar. Það hef ég sannreynt.
Minni salurinn í tónlistarhúsinu í Reykjavík á að taka 500 manns. Ef aðeins 1 - 200 manns koma þangað virkar hann tómur. Hann mun keppa við þrjá álíka stóra sali í Reykjavík.
Ef fá á útlendinga til að koma fram í tónlistarhöllinni í Reykjavík veita topp hallir í nágrannalöndunum ,sem eru mun nær hinum fjölmenna Evrópumarkaði, henni samkeppni. Fróðlegt verður að sjá hvernig til tekst í slíkri samkeppni og rekstri hallarinnar.
Notkun Laugardalshallarinnar fyrir tónleika hefur sýnt þörf fyrir stóru rými fyrir tónleika. Munurinn er hins vegar sá að auðveldara er að reka Laugardalshöllina vegna þess að þar eru íþróttaviðburðir og íþróttaiðkun alla aðra daga en tónleikar eru þar.
Í Reykjavík hefði átt að vera fyrir löngu að reisa höll á borð við Ólafshölina í Þrándheimi fyrir skikkanlegan pening. Það verður spennandi að sjá hvernig til tekst um rekstur mun stærri hallar í Reykjavík, sem ekki er nothæf sem óperuhús.
![]() |
Óperuhúsið vígt í Ósló |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2008 | 10:43
Annasumar framundan.
Jæja, segir fólk, ertu ekki að verða tilbúinn með myndina um Örkina? Þegar ég segi því að eftir sé að mynda tvö miðlunarlón og þurrka upp tugi fossa hváir það því heldur að nú sé nær öllum framkvæmdum lokið eystra.Það er rétt hvað snertir álverksmiðjuna og það er líka það eina sem flestir virðast hafa áhuga á, skítt með einhver drekkingarsvæði og fossa.
En næsta sumar verður annasamt hjá mér því að eftir er að sigla Örkinni á tveimur nýjum lónum skammt frá Eyjabökkum, fylgjast með drekkingu fallegra gróinna árhólma Kelduár á svæði sem bæði ég og aðrir höfum haldið að væri urð og grjót.
Ekki verður síður tignarlegt að fylgjast með því þegar um þrjátíu fossar hætt að renna, tveir þeirra á stærð við Gullfoss.
Fólki myndi finnast það merkilegt ef hægt væri að horfa á Gullfoss hverfa en Kirkjufoss og Faxi mega víst fara fjandans til.
Það verður líka fróðlegt að fylgjast með fyrstu dögunum þegar helmingur lónstæðis Hálslóns, eitthvað á milli 20 og 30 ferkílómetrar, verður þakinn fíngerðum leir en líklega verður erfitt að finna stað til að komast niður í lónið til siglinga.
Ég fór fyrstu ferðina austur á þessu ári fyrir viku og þar er mun meiri jafnfallinn snjór en verið hefur í marga vetur. Örkin er svo gersamlega á kafi að ekki sér urmul af henni. Rennsli inn í lónið var með mesta móti í fyrrahaust og rafmagnsnotkun álversins mun minni en verða mun næstu vetur þannig að það er líklegt að minni fjörur verði á lóninu nú en snemmsumars 2009.
Það verður ekki fyrr en í fyrsta lagi í júlí 2009 sem hægt yrði að ljúka við að kvikmynda að mestu afleiðingar þessarar dæmalausu framkvæmdar.
Bloggar | Breytt 13.4.2008 kl. 06:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.4.2008 | 00:10
Til hamingju, Haukar!
Ég er heitur Framari en það fer ekkert á milli mála hvaða félag á skilið að vera Íslandsmeistari í hanbolta þetta árið. Haukar eru einfaldlega með besta liðið og verðskula meistaratitilinn. Við Framara vil ég viðhafa kjörorð mitt í lífinu: Það gengur betur næst. Að því þarf að keppa á endasprettinum í ár og gera síðan enn betur næsta ár.
Ég man þá tíð þegar Haukar voru "litli bróðir" FH í handboltanum. En stundum gerist það að litli bróðir verður stærri og sterkari en stóri bróðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)