Annasumar framundan.

Jæja, segir fólk, ertu ekki að verða tilbúinn með myndina um Örkina? Þegar ég segi því að eftir sé að mynda tvö miðlunarlón og þurrka upp tugi fossa hváir það því heldur að nú sé nær öllum framkvæmdum lokið eystra.Það er rétt hvað snertir álverksmiðjuna og það er líka það eina sem flestir virðast hafa áhuga á, skítt með einhver drekkingarsvæði og fossa.

En næsta sumar verður annasamt hjá mér því að eftir er að sigla Örkinni á tveimur nýjum lónum skammt frá Eyjabökkum, fylgjast með drekkingu fallegra gróinna árhólma Kelduár á svæði sem bæði ég og aðrir höfum haldið að væri urð og grjót.

Ekki verður síður tignarlegt að fylgjast með því þegar um þrjátíu fossar hætt að renna, tveir þeirra á stærð við Gullfoss.
Fólki myndi finnast það merkilegt ef hægt væri að horfa á Gullfoss hverfa en Kirkjufoss og Faxi mega víst fara fjandans til.

Það verður líka fróðlegt að fylgjast með fyrstu dögunum þegar helmingur lónstæðis Hálslóns, eitthvað á milli 20 og 30 ferkílómetrar, verður þakinn fíngerðum leir en líklega verður erfitt að finna stað til að komast niður í lónið til siglinga.

Ég fór fyrstu ferðina austur á þessu ári fyrir viku og þar er mun meiri jafnfallinn snjór en verið hefur í marga vetur. Örkin er svo gersamlega á kafi að ekki sér urmul af henni. Rennsli inn í lónið var með mesta móti í fyrrahaust og rafmagnsnotkun álversins mun minni en verða mun næstu vetur þannig að það er líklegt að minni fjörur verði á lóninu nú en snemmsumars 2009.

Það verður ekki fyrr en í fyrsta lagi í júlí 2009 sem hægt yrði að ljúka við að kvikmynda að mestu afleiðingar þessarar dæmalausu framkvæmdar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, þessarar dæmalaust vel heppnuðu framkvæmdar, sem veita birtu og yl inn í austfirskt samfélag.

Hugsið ykkur, áður rann allt þetta vatn engum til gagns! Nú er hægt að ganga þurrum fótum um dýpsta og hrikalegasta hluta Hafrahvammagljúfurs og ef vel verður haldið á spilunum þá sjáum við þarna túristasjoppur hangandi í klettaveggjunum með mynjagripaglingur úr hreindýrahorni og nokkrum steinvölum sem hægt er að segja að sé úr botni lónsstæðisins. Þá hefur fólkið eitthvað til mynja frá þessu umdeilda svæði.

Fyrir suma myndi steinvalan vera minnisvarði um glæp gegn náttúrunni. En fyrir aðra yrði hún mynjagripur um stórkostlegt samspil náttúrunnar og mannsandans.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.4.2008 kl. 22:59

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Áður en framkvæmdirnar komu til var hægt að ganga niður í Hafrahvammagljúfur um svonefnt Niðurgöngugil og það gerði ég á sínum tíma. Þar var hægt að standa við ána á botni gljúfursins þar sem það er dýpst og dást að afli hennar þar sem hún þeyttist framhjá, löðrandi brún af aurnum, sem hún notaði til að sverfa þetta mikla gljúfur og viðhalda því.

Það er búið að syngja svo oft sönginn um það að verið sé að opna gljúfur, sem ekki var hægt fyrr að komast niður í, að það virðist engu skipta hver staðreyndin er, - Gunnar og aðrir gleðja sig yfir hinu ranga og halda því fram endalaust.

Eftir að búið er að taka sandinn og aurinn af ánni, sem hún notaði til að viðhalda gljúfrunum, munu þau smám saman fyllast af skriðugrjóti, sem fellur ofan í það og verður ófært að ganga um.

Besti brandari þinn, Gunnar, er þó líklega þessi um steinvölurnar, sem hægt verði að segja að séu úr botni lónstæðisins. Þú trúir því semsagt að hægt verði að kafa niður á 150 metra dýpi við Stapana og hefja þaðan upp hið mislita grjót sem þegar er komið undir aurlag, sem verður þykkara og þykkara með hverju ári.

Mikil er trú þín, maður!

Ómar Ragnarsson, 13.4.2008 kl. 06:50

3 identicon

Ómar,, láttu ekki Gunnar TH (tómur haus) ergja þig, hann situr um síðuna þína og vill setja hana á það lága plan sem hann er á, hann virðist alltaf hafa einhverja annarlega þörf til að vera með ómálefnalegar athugasemdir enda fengið mikið last fyrir það hér, endilega haltu áfram umfjöllun þinn um íslenska náttúru og fleiri góða pistla.

Ævar oddur Ævarsson (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 08:24

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég efast um að margir geri sér grein fyrir umfangi eyðileggingarinnar. Ég geri mér sjálfur enga grein fyrir því. Ég er alltaf jafn undrandi að til sé fólk sem er fylgjandi þessari helför gegn landinu.

Villi Asgeirsson, 13.4.2008 kl. 12:46

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nú..... var "eitthvað annað" kórinn ekki búinn að taka frá nokkur hlöss af þessum ómetanlegu steinvölum? Þeir hafa verið að hugsa eitthvað annað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.4.2008 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband