15.4.2008 | 22:57
Bláeygir í meira lagi.
Í Kompásþætti í kvöld stakk í augun hve nákvæmlega sama vestfirskum sveitarstjórnarmönnum virtist um allt nema það eitt að þeim væri lofað 500 manna vinnustað sem leysti öll vandamál Vestfjarða. Bendi á bloggfærslu Ólínar Þorvarðardóttur varðandi Katamak-NAFTA skúffufyrirtækið á Írlandi. Engu máli virðist skipta hvaða umhverfis- og ímyndarhagsmunir eru í húfi og þaðan af síður vafasamur bakgrunnur þeirra sem þarna ætla að maka krókinn.
Í heimavinnu, úrvinnslu og framsetningu Kompásfólksins var vel að verki staðið eftir því sem hægt var að komast eitthvað nálægt því, hverjir stæðu á bak við hin stórkarlalegu áform á Vestfjörðum.
Hið eina sem ég saknaði af efnisatriðum úr stuttmynd minni, "Löðri", var það að ég undraðist í Noregsferð minni að af 100 olíuhreinsistöðum í Evrópu væru aðeins tvær í Noregi, báðar nálægt tveimur stærstu borgunum, Osló og Bergen. Ekki ein einasta á allri strandlengjunni norður úr þar sem við sams konar byggðavanda er að etja og á Vestfjörðum. Og eru Norðmenn þó ein mesta olíuframleiðsluþjóð Evrópu.
Það getur verið gott að vera auðtrúa og bláeygur, en hættan við slíkt er alltaf sú að óprúttnir aðilar nýti sér grandaleysi fólks. Ég fæ ekki betur séð en að hver einasti Íslendingur sem nálægt þessu máli kemur, sé jafn bláeygur, þar með talinn Ólafur Egilsson, gamall og góður vinur minn, sem ég þekki að engu nema hinu besta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
15.4.2008 | 19:48
Guðni rektor og framúrkeyrslan.
Mér hefur verið sagt að á þeim árum sem Guðni Guðmundsson, hinn svipmikli og skemmtilegi rektor, réði ríkjum í M.R., hafi hann jafnan lagt á það mikla áherslu að fara aldrei fram úr fjárheimildum og helst að skila afgangi.
Afleiðingin hafi hins vegar orðið sú að fjárveitingar til skólans hafi verið minnkaðar í stað þess að verðlauna Guðna fyrir löghlýðni sína og staðfestu. Honum og skólanum var refsað en ekki umbunað.
Á sama tíma virtust aðrir, sem fóru aftur og aftur fram úr heimildum, vera verðlaunaðir fyrir það með hækkuðum fjárframlögum.
Auðvitað er þetta ekki svona einfalt og stundum virðist augljóst að fjárveitingavaldið hefur ekki gert sér grein fyrir raunverulegri fjárþörf tiltekinnar starfsemi. En sagan af Guðna og hinum, sem þurftu á fé frá ríkisvaldinu að halda, vekur mann samt til umhugsunar.
Það hlýtur að vera eitthvað bogið við það sem maður sem maður hefur stundum heyrt af munni þeirra sem með fjármál stofnana fara: "Blessuð verið þið, við fáum ekkert út úr því að halda okkur innan við fjárheimildir."
![]() |
Algerlega ólíðandi framúrkeyrsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2008 | 08:43
"Gef oss í dag..."
Eina setningin í Faðirvorinu um efnisleg verðmæti er: "Gef oss í dag vort daglegt brauð." En nú hefur hegðun mannsins gert það að verkum að æ erfiðara verður að uppfylla þessa einföldu ósk. Í bandarísku vísindatímariti las ég nýlega úttekt á helstu möguleikum til að framleiða minna mengandi orkugjafa og var etanól ofarlega á blaði.
Niðurstaða blaðsins var hins vegar sú að ef slík framleiðsla ætti að ná einhverjum árangri yrði að fórna undir hana gríðarlega miklu landi, sem í Bandaríkjunum einum myndi samsvara heilu ríkjunum. Með því yrði tekið land frá matvælaframleiðslu og afleiðingarnar yrðu matarskortur og snarhækkandi matvælaverð.
Af þessu sjáum við að orsakasamhengi hlutanna getur oft verið flókið og ófyrirséð og að afleiðingar orkusóunar koma víða fram.
Nú eru Bandaríkjamenn og Frakkar fyrstu þjóðirnar til að láta eitthvað af hendi rakna til hjálpar hinum fátæku, hungruðu þjóðum, Það er góðra gjalda vert en upphæðirnar eru örlítið smábrot af þeim fjárhæðum sem einkum þessar þjóðir og aðrar vestrænanar þjóðir eyða í að styrkja landbúnað sinn og eyðileggja með því möguleika suðrænna og fátækari þjóða til að nýta landkosti sína á eðlilegan hátt.
Á sama tíma og vestrænar þjóðir hamra á nauðsyn verslunarfrelsis og afnámi hafta og styrkja viðhalda þær höftum og styrkjum í landbúnaði.
Þetta atriði er líkast til mesta ranglæti heimsins þegar grannt er skoðað.
![]() |
Fjármálaráðherrar í áfalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)