Ótrúlegur leiðari Moggans.

Í tæp sextíu ár hef ég fylgst með leiðaraskrifum Morgunblaðsins og í nánast allan þennan tíma hefur verið hægt að treysta því að blaðið styddi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í gegnum þykkt og þunnt. Eina undantekningin sem ég man eftir var þegar Matthías Jóhannessen gagnrýndi fyrirkomulag vígsluhátíðar ráðhússins og fyrir það refsaði Davíð honum með því að láta fjarlægja ljóð Matthíasar úr glugga í húsinu.

Ég reikna með að fylgisspekt Moggans við Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafi verið alger fyrir mína tíð og þar með var tími þessarar órofa tryggðar minnsta kosti hátt í átta áratugir.

Ég hefði bölvað mér upp á það að einhvern tíma myndi ég lesa eftirfarandi orð, sem ég tek úr leiðara blaðsins í dag um borgarfulltrúa D-listans: "...geta ekki verið þektkir fyrir það stefnuleysi og hringlandahátt...."..."ótrúlegt stefnuleysi og dómgreindarleysi...", "...stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi þeirra, sem þarna ráða ferðinni. Aldrei í sögu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur hefur flokkurinn beðið slíkan hnekki og sýnt slíka lágkúru."

Í leiðaranum er fullyrt að "niðurlæging borgarstjórnarflokksin er farin að hafa áhrif á stöðu Sjálfstæðisflokksins í landsmálum" og flokksforystan hvött til að taka í taumana. "Það er nóg komið af þessari endemis vitleysu" segir í lok leiðarans.

Það er almenn viðurkennt að REI-klúðrið allt eins og það var kallað á sínum tíma var ótrúlegur farsi og tvenn meirihlutaskipti í borginni á 100 dögum bættu ekki úr skák.

Ég nota orðið ótrúlegur um leiðara Moggans ekki til að leggja dóm á hann í sjálfu sér heldur til að vekja athygli á því að REI-klúðrið, sem var valið mál ársins 2007, virðist geta blossað upp að nýju á þann hátt að rofin sé með öllu nær 80 ára hefð órjúfandi stuðnings Morgunblaðsins við D-listann í Reykjavík.


mbl.is Segir hringalandahátt setja orkuútrásina í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekkt fyrirbæri.

Sú ályktun að Svínaflóaklúðrið hafi verið lyfjaneyslu Kennedys að kenna er athyglisverð en þó vafasöm. Ráðamenn heims hafa ekki þurft slíkt til að taka rangar ákvarðanir. Kennedy var nýtekinn við afar krefjandi starfi og reiddi sig á upplýsingar hers og leyniþjónustu. Vafasamt er að niðurstaða Kennedys um að gefa grænt ljós á hana hefði orðið önnur þótt hann hefði verið heill heilsu.

Mér finnst uppljóstrunin um ástand Nixons þegar Yom Kippur stríðið brast á mun skelfilegri. Nixon var blindfullur og menn neyddust til að taka ákvarðanir fyrir hans hönd á þann hátt að í raun var hann sviptur völdum á meðan á þessu ástandi hans stóð. Þar var um að ræða forseta með hönd á kjarnorkuhnappnum.

Vitað er að Winston Churchill skolaði niður að minnsta kosti viskíflösku á hverjum degi og tók ýmsar rangar ákvarðanir. Ein þeirra varð ein af ástæðum þess að hann tapaði í kosningunum 1945, en það var þegar hann sagði að kæmist Verkamannaflokkurinn til valda stefndi í hliðstætt ástand og verið hefði í Þýskalandi.

Kannski var kallinn rallhálfur þegar hann sagði þessi ósköp. Enginn er fullkominn.

Churchill hefði kannski afrekað enn meira og gert færri mistök ef hann hefði verið allsgáður allan tímann, en ekkert verður sannað í þeim málum.

Fáir voru eins grátt leiknir af samstarfi sínu við lækna og Adolf Hitler sem var orðinn veruleikafirrtur lyfjasjúklingur síðustu misseri stríðsins. Hugsanlega spillti valdið í þeim efnum. Þegar einum foringja er falið alræðisvald verða læknar eins og allir aðrir að lúta vilja hans, þótt hann felist í skaðlegri fíkn.

LJóst er þó að stríðið hefði ekki farið á annan veg þótt Hitler hefði verið allsgáður. Forsendan fyrir helstefnu hans var sú að Þjóðverjar hefðu gert mistök með því að gefast upp árið 1918 án þess að erlendur her væri kominn inn í landið. Hitler sagði frá upphafi að þeir sem að því stóðu hefðu svikið þjóðina og að slíkt mætti aldrei koma fyrir aftur.

Þetta var megingrundvöllur stefnu nasista í 23 ár og því fór sem fór að milljónum manna var fórnað í löngu tapaðri baráttu.


mbl.is Lyfjaneysla Kennedys sögð óhófleg um tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. apríl 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband