12.7.2008 | 13:39
Löngu tímabærar framkvæmdir.
Það gleður flugáhugamann að sjá hve vel gengur að lengja Akureyrarflugvöll. Það leiðir hugann að annarri löngu tímabærri og nauðsynlegri framkvæmd, en það er lenging Egilsstaðaflugvallar, sem hefði jafnvel átt að koma á undan. Vegna nálægðar við hringveginn við syðri brautarendann nýtast ekki til lendingar úr suðri 240 metrar á suðurenda vallarins.
Þetta getur verið bagalegt og vafasamt. Ég var frammi í hjá flugmönnunum í sneisafullri Flugleiðaþotu af gerðinni Boeing 757 þegar hún lenti í norðurátt á brautinni í september í fyrra. Misvinda var og lenti þotan í lítilsháttar meðvindi í blálok aðflugsins þannig að það þurfti að auka hraða hennar, miðað við jörð, þessa síðustu metra.
Fyrir bragðið þurfti vélin alla brautina eins og hún lagði sig til að geta stöðvast og snúið við til aksturs til baka.
Aðflug að Egilsstaðaflugvelli er mun einfaldara og auðveldara en að Akureyrarflugvelli, vegna þess hve fjöllótt er við þann síðarnefnda, Eyjafjörðurinn þröngur og lágmarsflughæð í blindaðfluginu hærri en fyrir austan.
Þetta hefur þá þýðingu að flugmenn, sem þekkja ekki til aðstæðna og hafa ekki áður flogið inn á þessa velli, hlífa sér frekar við því að fara inn á Akureyri þegar þeir skoða aðflugið.
Myndarleg lenging Egilsstaðaflugvallar svo að hann geti gagnast hvaða þotum, sem er, er að mínum dómi einhvert brýnasta framkvæmd íslenskra flugmála, samgangna og ferðamála.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.7.2008 | 13:02
Misjafnlega alvarlegt.
Ónákvæmni í frásögnum fjölmiðla af nauðlendingum er stundum bagaleg. Fjölmiðlum hættir stundum til að kalla svonefndar varúðarlendingar (precauitionary landings) nauðlendingar, en talverður munur getur verið á slíkum lendingum og nauðlendingum (emergency landings).
Eitt af mörgum dæmum um þetta er það atvik þegar flugmaður var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur í júlílok 2000 og lenti í það miklum mótvindi að hann varð í vafa um að hann hefði bensín alla fyrirhugaða leið og lenti því í Húsafelli í staðinn.
Aldrei var nein hætta á ferðum en í fjölmiðlum var talað um nauðlendingu vegna bensínleysis sem gerir atvikið margfalt alvarlegra en það raunverulega var. Þetta var ákaflega leiðinlegt fyrir flugmanninn og þeim mun bagalegra að aðeins rúmri viku síðar hafði þetta hugsanlega áhrif á það þegar sami flugmaður þurfti aftur að leggja mat á það þegar hann var kominn af stað í flugferð hvort hann hefði nóg eldsneyti alla leið.
Í slíku tilfelli hefur flugmaður eðlilega ekki mikinn áhuga á því að lenda strax aftur í fréttum vegna hugsanlegs bensínleysis og það getur haft óæskileg áhrif á ákvarðanir hans. Sú flugferð endaði með banaslysi.
|
Lenti á einum hreyfli |
| Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt | |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)








