Löngu tímabærar framkvæmdir.

Það gleður flugáhugamann að sjá hve vel gengur að lengja Akureyrarflugvöll. Það leiðir hugann að annarri löngu tímabærri og nauðsynlegri framkvæmd, en það er lenging Egilsstaðaflugvallar, sem hefði jafnvel átt að koma á undan. Vegna nálægðar við hringveginn við syðri brautarendann nýtast ekki til lendingar úr suðri 240 metrar á suðurenda vallarins.

Þetta getur verið bagalegt og vafasamt. Ég var frammi í hjá flugmönnunum í sneisafullri Flugleiðaþotu af gerðinni Boeing 757 þegar hún lenti í norðurátt á brautinni í september í fyrra. Misvinda var og lenti þotan í lítilsháttar meðvindi í blálok aðflugsins þannig að það þurfti að auka hraða hennar, miðað við jörð, þessa síðustu metra.

Fyrir bragðið þurfti vélin alla brautina eins og hún lagði sig til að geta stöðvast og snúið við til aksturs til baka.

Aðflug að Egilsstaðaflugvelli er mun einfaldara og auðveldara en að Akureyrarflugvelli, vegna þess hve fjöllótt er við þann síðarnefnda, Eyjafjörðurinn þröngur og lágmarsflughæð í blindaðfluginu hærri en fyrir austan.

Þetta hefur þá þýðingu að flugmenn, sem þekkja ekki til aðstæðna og hafa ekki áður flogið inn á þessa velli, hlífa sér frekar við því að fara inn á Akureyri þegar þeir skoða aðflugið.

Myndarleg lenging Egilsstaðaflugvallar svo að hann geti gagnast hvaða þotum, sem er, er að mínum dómi einhvert brýnasta framkvæmd íslenskra flugmála, samgangna og ferðamála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var svo fávís að halda  að  þær reglur væru  í gildi að enginn óviðkomandi mætti vera inni í flugstjórnarklefa farþegaþotu þegar lent er , farið á loft  eða í flugi yfirleitt.

Þetta hélt ég að væru alþjóðareglur. Kannski er  búið að breyta þessu  . Eða hvað ?

.

ESG (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 15:58

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Tek undir þessi sjónarmið. Nauðsynlegt er að stækka flugvöllinn á Egilsstöðum ekki síður en á Akureyri.

Fyrir örfáum vikum átti eg stutt erindi norður til Akureyrar. Aðflugið niður í Eyjafjörðinn varvægast sagt  mjög órólegt enda hvöss norðanátt. Hvernig þetta er á veturna er ábyggilega skelfilegt og ekki lendandi nema í stærri flugvélum.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 12.7.2008 kl. 16:01

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í stórum flugvélum eru ekki aðeins sæti fyrir flugstjóra og aðstoðarflugmann heldur einnig þriðja sætið aðeins aftar fyrir miðju, sem hægt er að reisa upp úr gólfinu. Þar getur gefist fyrir þriðja mann að sitja og fylgjast með.

Þótt ég hafi ekki tékk á Boeing 727 er ég með atvinnuflugmannsréttindi (að vísu með takmörkunum vegna 65 ára aldurs) og hef flogið tveggja hreyfla vélum.

Seta mín á "prikinu" eins og það er kallað var því fullkomlega lögleg.

Ómar Ragnarsson, 12.7.2008 kl. 22:42

4 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Mæltu heilastur Ómar. Auðvitað á að lengja Egilsstaðaflugvöll. Vandamálið er að hann þarf að lengja til suðurs og þar er þjóðvegurinn. Best væri auðvitað að færa þjóðveginn. Brúin yfir Lagarfljót er orðin lúin og mig minnir að ný brú sé á vegaáætlun árið 2012 en það er gert ráð fyrir henni nánast á sama stað. Þetta er vegna þessa að Fellamenn vilja umferðina í gegn hjá sér sem er auðvitað mesta rugl. Nú eru Fell og Egilsstaðir orðin sama sveitarfélag og vonandi kemst þá vitræn umræða um flugvöllin inn. Stór alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum er alvöru stóriðja sem nýtist öllum landsmönnum. Veðurfar og aðstæður eru þannig að hvergi á Íslandi er betri staður fyrir flugvöll.

Haraldur Bjarnason, 13.7.2008 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband