Fyrsta heita hafgolan síðan 1944 og 1939?

Þá rúma sex áratugi sem ég man aftur í tímann minnist ég þess ekki að norðvestan hafgola í Reykjavík hafi verið meira en tuttugu stiga heit. Venjulega hefur slík gola fært með sér allt niður í 10-12 stiga heitt loft af sjónum þegar hún hefur náð sér á strik, og þá hefur hitinn í borginni getað fallið um allt að tíu stig.

Ástæðuna mátti heyra í dag með því að hringja í númer fimm eftir að hringt hefur verið í sjálfvirka símsvara Veðurstofunnar, 9020600 en þar er upplýst um flugveðurskilyrði. Þar kom í ljós að í öllum hæðum fór heitt loft frá Evrópu frá austri til vesturs yfir landið með um 30 hnúta hraða. Þetta er svo mikið magn og straumurinn svo sterkur að ellefu stiga heitt hafið við vestanvert landið nær ekki kæla loftið svo neinu nemi.

Hugsanlega hefur loftið í hafgolunni komið að hluta úr norðaustri ofan úr uppsveitum Borgarfjarðar og af norðanverðu hálendinu þar sem hitinn komst í 24 stig, t.d. á Hveravöllum. Þessi loftmassi hefur hugsanlega náð að sveigjast í hálfhring inn til höfuðborgarsvæðisins án þess að missa mikinn varma.

Athygli hefur vakið þessa hlýju daga að á veðurkortum í sjónvarpinu hefur heita loftið frá Evrópu náð að breiða sig yfir allt norðanvert Atlantshafið og yfir Grænlandsjökul líka, þannig að í norðanátt á vesturströnd Grænlands var 10 stiga hiti í Nuuk og 13 stig í Narsarsuaq. Er óvenjulegt að sá mikli ísmassi sem Grænlandsjökull er nái ekki að framleiða neinn kuldapoll.

Þetta minnir á hitabylgjuna síðsumars 2005 þegar svo hlýr, stöðugur og þurr loftmassi var yfir landinu að hvergi kom hafgola né þoka við strendur þótt hitinn færi langt yfir 20 stig yfir miðju landinu. Hvergi varð heldur moldrok á hálendinu.

Loftið núna er líka tiltölulega þurrt, - rakastigið á Kárahnjúkum var til dæmis aðeins 53% í dag. Eftir því sem ísinn minnkar meira á norðurskautinu verður minni hætta á að kuldinn þar sameinist kuldaútstreymi Grænlandsjökuls og verði fóður fyrir háloftakuldapoll sem sendi kalda strauma suður til okkar og geri okkur lífið leitt.


mbl.is 29 gráður og sólskin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dettifoss og Gullfoss líka?

Hugmyndir um að Urriðafoss verði fallegri og betri eftir virkjun ríma vel við hugmyndir virkjanasérfræðinga um að hægt sé að virkja Dettifoss, Gullfoss og aðra fossa á þennan hátt. Á ráðstefnu einni rakti sérfræðingur áætlun um virkjun Dettifoss sem byggðist á því að hægt yrði að auglýsa hann áfram sem kraftmesta foss Evrópu þótt vatn yrði tekið af honum vegna virkjunar!

Áætlunin byggist á rannsókn, sem gerð var á viðhorfum ferðamanna við fossinn eitt sumar. Á kuldakafla  minnkaði rennslið um hann úr 400 rúmmetrum niður í 160 rúmmetra og niðurstaða rannsóknarinnar var að "það kvartaði enginn".

Af þessu var dregin sú ályktun að hægt yrði að hleypa á fossinn ca 160 rúmmetra rennsli þær fáu vikur sem ferðamannastraumurinn væri mestur, - fossinn yrði fallegri með þessu vatnsmagni en ekki eins illúðlegur og þegar hann er sá kraftmesti í Evrópu.

Áfram yrði hann auglýstur sem aflmesti foss Evrópu og allir yrðu ánægðir. Vafalaust er hægt að virkja Gullfoss á svipaðan hátt og fjarlægja Sigríðarstofu eða breyta nafni hennar svo lítið beri á einhvern veturinn þegar fossstæðið er hvort eð er þurrt og engir ferðamenn á ferli.

Þetta yrði svo "gríðarlega þjóðhagslega hagkvæmt" svo að notuð séu orð bóndans að Urriðafossi.

Urriðafoss hefur hingað til verið auglýstur sem vatnsmesti foss landsins en auðvitað á enginn eftir að kvarta þótt hann verði minni og fallegri einhverja sumardaga, hvað þá þótt hann hverfi alveg á veturna þegar ferðamannastraumurinn er enginn.

Virkjanaáætlanir byggjast nefnilega þrátt fyrir allt á þeirri óumflýjanlegu staðreynd að það er ekki bæði hægt að leiða vatn úr farvegi fljóta í fallgöng gegnum stöðvarhús til að framleiða nokkur hundruð megavött og hafa sama vatnið á fossum árinnar næst fyrir neðan á sama tíma.

Persónlega finnst mér Búðafoss og Hestafoss ofar í Þjórsá fallegri en Urriðafoss en virkjunarmenn eru svo heppnir að aðgengi að þeim er miklu verra en að Urriðafossi, að ekki sé minnst á Gljúfurleitarfoss, Dynk og Hvanngiljafoss fyrir neðan Norðlingaöldu sem eru enn á aftökulista Landsvirkjunar hvað sem Össur Skarphéðinsson segir.

Dynkur er að mínum dómi magnaðasti stórfoss landsins vegna þess að ég þekki enga hliðstæðu hans erlendis en hef séð marga jafnoka eða ofjarla Gullfoss.

Nú er þegar búið að taka 40 prósent af vatnsmagni Dynks frá honum og enginn íslenskur foss þolir eins illa að missa vatn, því að þá breytist hann úr einstæðu samsafni 18 fossa í fossstæðinu í 10 fossa fyrirbrigði þar sem sumir fossarnir eru orðnir að sprænum og nafnið Dynkur orðið hlægilegt.

Vegna þess að ekkert hefur verið gert til að bæta aðgengi að fossinum mun aðferð strútsins svínvirka þegar honum verður slátrað.

Því eins og allir vita er það,  sem strúturinn sér ekki, ekki til.

 

 


mbl.is Fossinn sem gleymdist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"19. aldar götumynd" of þröngt hugtak.

Í umræðunni um Laugaveg 4-6 var hugtakið "19. aldar götumynd" eðlilega haldið á lofti um neðstu húsin á Laugavegi. En útlit Laugavegar snýst ekki um það hvort hús eru frá því fyrir eða eftir 1900 heldur fremur hvort þau séu í þeim byggingarstíl sem tíðkaðist fram yfir 1920 áður en svonefndur funkis-stíll hélt innreið sína og hefur síðan birst í margs konar kassalaga stein- og glerbyggingum sem ekki eru í stíl við þá götumynd Laugavegar sem ríkti fram á fyrst hluta 20. aldar.

Reynsla úr mörgum evrópskum borgum sýnir, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur glögglega sýnt, að best hefur tekist til, bæði hvað snertir gott mannlíf, verslun, þjónustu og þar með hagkvæmni þar sem miðborgarhlutar eru í þessum eldri stíl en ekki í glerkassastílnum.

Við eigum að nýta okkur þessa reynslu. Hún byggist á því að efla sérstöðu og menningarsögulegt gildi eldri borgarhluta sem aðdráttarafl til sameigilegrar upplifunar kynslóðanna í stað þess að gera þá sem líkasta þeim nýjum borgarhlutum, sem birtast í stóru verslunarsteinkössunum sem nú þjóta upp nær krossgötum og þungamiðju höfuðborgarsvæðisins Ártúnhöfði - Mjódd - Smárinn.

Það hlýtur að vera hægt að finna lausn varðandi Listaháskólann sem byggist á að fara þessa leið og góðum arkitektum er treystandi til að finna hana.


mbl.is Magnús: Ekki góð byggingarlist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband