Langt gengið.

Sagnfræðingar framtíðarinnar munu vafalaust undrast hve langt var gengið í því 2003 að þóknast Bandaríkjamönnum, að því er virðist til þess eins að ríghalda í þann hugsunarhátt sem Andri Snær Magnason hefur lýst svo vel: Það er vá fyrir dyrum af því að það er orðið friðvænlegt!

Það gat meira að segja leitt menn út í það að hugsa með sér að ágætt væri að stuðla að aukinni hryðjuverkahættu vegna þess að þá væri meiri líkur á að hægt væri að halda varnarliðinu. Vísa til næstu bloggfærslu minnar á undan þessari.


mbl.is Röng og ólögmæt ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var betra að hættan ykist svo að herinn færi síður?

Þegar hér sat vinstri stjórn 1971-74, sem vildi láta varnarliðið fara, fór í gang undirskriftasöfnunin "Varið land" en herstöðvaandstæðingar fóru sem fyrr í mótmælagöngur að vallarhliðinu. Á skemmtunum söng ég um báðar fylkingarnar, - lagið "Litla Birna við Keflavíkurflugvallarhliðið" í orðastað hernámsandstæðinga en lagið "If you go away" í orðastað þeirra sem vildu hafa herinn áfram.

Íslendingar nýttu á þessum tíma sér þörf Kananna fyrir hersetu hér með því að kría út hagstæða loftferðasamninga. Bænarákall Íslendinga leit svona út í upphafi söngs míns:

If you go away, - ef þú her ferð burt, -

ef þú færð ekki að vera hér um kjurt,

þá er allt í steik, þá er engin von,

þá verður einvaldur Lúðvík Jósepsson.

Engir bísnismenn græða þá á þér,

þá allt íslenskt flug strax á hausinn fer,

if you go away kemur Rússinn, svei,

if you go away. 

Þegar nýjasta útttekt Vals Ingimarssonar um þetta mál er lesin er ótrúlegt að sjá hve skammt íslenskir ráðamenn höfðu komist út úr hugarheimi kalda stríðisins á árinu 2003, heldur voru enn á sömu slóðum og 1971-74. 

Þeir ríghéldu í þá gömlu sýn að allt yrði í steik ef varnarliðið færi og jafnvel má túlka hegðun þeirra þannig að þeir hefðu talið það kost við að Íslendingar gerðust stuðningsmenn við hernaðinn í Írak, að við það ykist hryðjuverkahætta á Íslandi og þar með þörf á herþotunum og herliðinu! 

Þessum ráðamönnum datt aldrei í hug að spyrja þeirrar spurningar hvers vegna Bandaríkjamenn ættu frekar að hafa fjórar herþotur til taks gegn hugsanlegri hryðjuverkaárás fyrir 300 þúsund manns í fjarlægu eylandi heldur en að hafa þær til varnar fyrir einhverjar af þeim tugum ef ekki hundruðum bandarískra borga sem hafa fleiri íbúa en 300 þúsund manns.

Þótt Íslendingar misstu marga sjómenn í heimsstyrjöldinni eimdi lengi eftir af afleiðingum þess að Íslendingar græddu gríðarlega fjárhagslega á stríðinu. Það skapaði þann hugsunarhátt að leitast við að hagnast af hernaðarumsvifum og reyna þar af leiðandi að viðhalda herviðbúnaði löngu eftir að ljóst var að hann var orðinn óþarfur.

Við þetta rembust menn í stað þess að fagna því að friðvænlegra var orðið og meta öryggishagsmunina upp á nýtt í samræmi við breytta stöðu.  

 

 

 


Einstök byrjun !

Það hefur oft verið sagt að íslenska landsliðið í handbolta hafi um of lent í því að fara erfiðustu leiðina að takmarki sínu með því að tapa óvænt í fyrstu leikjum og þurfa að vinna sig upp af botninum.

Annað er uppi á teningnum nú, hvernig sem framhaldið verður. Ég minnist þess ekki að Íslendingar hafi í fyrstu tveimur leikjum sínum á stórmóti byrjað á að salta fyrst landslið stórþjóðar sem hefur vanist því að eiga heimsmeistara og Ólympíumeistara og rassskella síðan í næsta leik ríkjandi heimsmeistara. 

Það er mjög mikilvægt að byrja svona vel því að erfiða leiðin, sem ég minntist á áðan, hefur oft orðið til þess að strákarnir hafa lent í því að vera búnir með þrekið í lokin.

Framhaldið ætti að vera auðveldara þegar búið er að ná strax svona mörgum stigum í hús. Nú er bara að vona að strákarnir ofmetnist ekki heldur haldi áfram á sigurbraut með því að sýna það sama og þeir hafa sýnt fram að þessu og spila skynsamlega úr spilunum.

Þetta er stórkostlegt! Nú er gaman! Til hamingju, strákar og þökk fyrir frammistöðuna !  


mbl.is Ísland fór hamförum gegn Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um vegaröxlina.

Í bloggfærslu minni um sllysið á Suðurlandsvegi í gær gerði ég að umtalsefni að vegaraxlirnar á kaflanum milli Hveragerðis og Selfoss væru þær lélegustu á allri leiðinni milli Reykjavíkur og Selfoss, einmitt á þeim kafla leiðarinnar þar sem þeirra er mest þörf. Það er meðal annars þetta atriði sem fær mig til að segja að þessi vegarkafli sé orðinn dýrkeyptasti vegarkafli landsins vegna þess að menn telji of dýrt að lagfæra hann.

Það er að vísu ekki hægt að sanna að góð og breið vegaröxl hefði breytt einhverju um slysið í gær. Hins vegar blasir við notagildi vegaraxlar þegar ökumaður, sem þarf að beygja út af veginu og fara yfir miðlínu vegar, þarf að stansa við miðlínuna til þess að bíða eftir að umferð úr gagnstæðri átt fari framhjá.

Þá gefur góð og breið vegaröxl bílum, sem koma aftan að hinum stansaða bíl, rými til að fara fram hjá honum hægra megin og halda áfram án þess að trufla umferðina.

Núverandi þrengsli á þessum vegarkafla auka á slysahættu og valda umferðartruflunum. Sagt er að vegna mikillar og tímafrekrar skipulagsvinnu verði þessi vegarkafli tvöfaldaður síðast. Í ljósi þessa má setja fram eftirtaldar tillögur:

1. Hámarkshraðinn á þessum kafla verð strax lækkaður.

2. Löggæsla á kaflanum verði tryggð og ætlað til þess fé.

3. Þegar í stað verði veitt fjármagni í að breikka og laga vegaraxlir á veginum og gera útskot eða viðbótarakreinar við vegamót sem liðka fyrir umferð þegar ökumenn þurfa að fara út af veginum.

4. Fyrrnefndri skipulagsvinnu við tvöföldun vegarins verði veittur eins öflugur forgangur og unnt er og kapp lagt á að þessi kafli þurfi ekki að koma síðastur í tvöföldun vegarins.

Ef litið er til hundruð milljóna króna beins fjárhagstjóns þjóðfélagsins vegna slysanna á þessum kafla ár hvert hljóta menn að sjá að það er ótækt að bera fyrir sig fjárskorti varðandi umbætur.


Bloggfærslur 12. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband