Var betra að hættan ykist svo að herinn færi síður?

Þegar hér sat vinstri stjórn 1971-74, sem vildi láta varnarliðið fara, fór í gang undirskriftasöfnunin "Varið land" en herstöðvaandstæðingar fóru sem fyrr í mótmælagöngur að vallarhliðinu. Á skemmtunum söng ég um báðar fylkingarnar, - lagið "Litla Birna við Keflavíkurflugvallarhliðið" í orðastað hernámsandstæðinga en lagið "If you go away" í orðastað þeirra sem vildu hafa herinn áfram.

Íslendingar nýttu á þessum tíma sér þörf Kananna fyrir hersetu hér með því að kría út hagstæða loftferðasamninga. Bænarákall Íslendinga leit svona út í upphafi söngs míns:

If you go away, - ef þú her ferð burt, -

ef þú færð ekki að vera hér um kjurt,

þá er allt í steik, þá er engin von,

þá verður einvaldur Lúðvík Jósepsson.

Engir bísnismenn græða þá á þér,

þá allt íslenskt flug strax á hausinn fer,

if you go away kemur Rússinn, svei,

if you go away. 

Þegar nýjasta útttekt Vals Ingimarssonar um þetta mál er lesin er ótrúlegt að sjá hve skammt íslenskir ráðamenn höfðu komist út úr hugarheimi kalda stríðisins á árinu 2003, heldur voru enn á sömu slóðum og 1971-74. 

Þeir ríghéldu í þá gömlu sýn að allt yrði í steik ef varnarliðið færi og jafnvel má túlka hegðun þeirra þannig að þeir hefðu talið það kost við að Íslendingar gerðust stuðningsmenn við hernaðinn í Írak, að við það ykist hryðjuverkahætta á Íslandi og þar með þörf á herþotunum og herliðinu! 

Þessum ráðamönnum datt aldrei í hug að spyrja þeirrar spurningar hvers vegna Bandaríkjamenn ættu frekar að hafa fjórar herþotur til taks gegn hugsanlegri hryðjuverkaárás fyrir 300 þúsund manns í fjarlægu eylandi heldur en að hafa þær til varnar fyrir einhverjar af þeim tugum ef ekki hundruðum bandarískra borga sem hafa fleiri íbúa en 300 þúsund manns.

Þótt Íslendingar misstu marga sjómenn í heimsstyrjöldinni eimdi lengi eftir af afleiðingum þess að Íslendingar græddu gríðarlega fjárhagslega á stríðinu. Það skapaði þann hugsunarhátt að leitast við að hagnast af hernaðarumsvifum og reyna þar af leiðandi að viðhalda herviðbúnaði löngu eftir að ljóst var að hann var orðinn óþarfur.

Við þetta rembust menn í stað þess að fagna því að friðvænlegra var orðið og meta öryggishagsmunina upp á nýtt í samræmi við breytta stöðu.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér gengurðu allt of langt, Ómar:

jafnvel má túlka hegðun þeirra þannig að þeir hefðu talið það kost við að Íslendingar gerðust stuðningsmenn við hernaðinn í Írak, að við það ykist hryðjuverkahætta á Íslandi og þar með þörf á herþotunum og herliðinu!

Hvernig datt þér þetta í hug? 

Jón Valur Jensson, 13.8.2008 kl. 04:33

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Jón Valur, ekki of langt heldur yfir um. Miðað við skrif þín Ómar, og áhyggjur af ástandinu í Ossetíu, og þetta sem hann skrifar nú, ætla ég að þú hafir árið 2004 talið Saddam vera meinlaust grey.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.8.2008 kl. 07:28

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Var þetta ekki bara blind aðdáun Davíðs á Gogga og hans fjölskyldu? Allt sem kemur frá þeirri undurhreinu fjölskyldu er yndislegt og ber að styrkja. Ég man eftir að hafa lesið slepjulegasta aðdáunarvæl sem Bush hefur þurft að hlusta á. Það var í Draumalandinu, þar sem Davíð sleikti tær forseta Bandaríkjanna. Afskaplega vandræðalegt að vera íslendingur þegar maður les það.

Ég get ekki ímyndað mér að Davíð og Halldór hafi ekki séð í gegn um lýgina á vormánuðum 2003. Ekki var ég í innsta hring, og ég sá þetta. Flestir vesturlandabúar sáu í gegn um þetta. Hver sem ástæðan var fyrir þessari ákvörðun, var hún röng og hvernig að henni var staðið jaðrar við landráð. Jaðrar er sennilega og of varlega sagt. Að ákveða að fara í stríð án þess að tala um það við nokkurn mann er eitthvað sem maður hefði trúað upp á Adolf, Josef og svoleiðis menn. Það á ekki að geta gerst á Íslandi, eða í hvaða svokölluðu lýðræðisþjóðfélagi sem er.

Þetta mál verður að skoða og þeir seku verða að svara fyrir sig. En það gerist aldrei því það er valdaelíta á Ísland sem ræður og Davíð er háttsettur í þeim félagsskap. Sú valdaelíta er svo í góðu sambandi við bandarísku elítuna, og þar liggur hnífurinn í kúnni. Þetta er baktjaldamakk og við sauðirnir verðum að sætta okkur við það, og að svona valdsníðsla mun aukast á komandi árum. Við verðum að sætta okkur við það því við þorum hvorki né nennum að standa í því að standa vörð um lýðræðið.

Villi Asgeirsson, 13.8.2008 kl. 07:31

4 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Fyrri athugasemdin átti að vera svoan:

Jón Valur, ekki of langt heldur yfir um. Miðað við skrif þín Ómar, og áhyggjur af ástandinu í Ossetíu, og þetta sem þú skrifar nú, ætla ég að þú hafir árið 2004 talið Saddam vera meinlaust grey.

Villi Ásgeirsson, þú ert haldinn ímyndununarveiki á háu stigi, afsakaðu að ég segi það. Þú gerir allt of mikið úr Íslenskum stjórnmálamönnum og "tengslum" þeirra. Það er leiðinlegur andskoti að sjá hvernig margir vinstrisinnaðir menn eru á kafi í alls kyns samsærisrugli.

Ég leyfi mér að minna á að Íslendingar eru 300.000 manna þjóð í Ballarhafi sem engin man eftir nema þegar Björk skrækir og þegar Íslendingar auglýsa sjálfa sig, t.d. með lélegum tökum sínum á fjármálum. Við slíkar aðstæður er ekki nema von að sagnfræðin verði líka dálítið ímyndunarveik.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.8.2008 kl. 08:32

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Nafni, það er tvennt sem þú klikkar á.

1. Ég er ekki vinstri maður. Ég held að vinstri-hægri dæmið sé úrelt og dautt. Ef ég á samt að setja mig á þann skala, er ég einhversstaðar í miðjunni. Öfgar í báðar áttir eru slæmar, eins og sagan hefur margoft sýnt.

2. Ég efast um að íslenskir stjórnmálamenn séu svo mikið "inni" hjá "elítunni". Þeir reyna og gera það sem þeir geta en ekkert gengur. Þar af leiðandi eru þeir viljugir til að spila sem peð, samanber þetta mál. Samsæriskenningar eru margs konar. Sumar halda því fram að kóngafólk sé einhver eðlutegund. Þær eru skemmtilegar en auðvitað alveg út úr kortinu. Það er hins vegar sannað mál og ekkert leyndarmál að hópur áhrifafólks kemur saman ár hvert og ákveður stefnu komandi árs. Það er auðvitað samsæri, en þar sem það er sannað, er það ekki kenning.

Þú hefur þó rétt fyrir þér að Ísland er aukaleikari í alþjóðamálum og skiptir engu máli. 

Villi Asgeirsson, 13.8.2008 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband