Lærum af Norðmönnum.

Hulda Gunnlaugsdóttir kemur frá hárréttum stað til að fást við skipulagsvandamál Landspítalans. Á sínum tíma fór ég og skoðaði nýja sjúkrahúsið í Oslo og síðan til samanburðar sjúkrahúsið í Þrándheimi. Og hvílíkur munur!

Oslóbúar fóru þá leið að finna nógu góða, auða og stóra lóð sem næst miðju samgöngukerfis Oslóborgar og byrja með autt blað, reisa þar sjúkrahús frá grunni sem hrein upplifun var að skoða.

Í Þrándheimi var íslenska leiðin farin, að reyna með bútasaumi viðbygginga, jarðganga og tengibygginga að búa til spítala. Flestum, sem ég ræddi við, bæði þar og í Osló, kom saman um að þetta væru mikil mistök og víti til að varast.

Hins vegar gat ég ekki betur heyrt en að spítalinn í Osló fengi einróma lof.


mbl.is Hulda forstjóri Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinni nýi og endurvakti veruleiki.

Nýr veruleiki er að renna upp fyrir þjóðum Vesturlanda. Rússar eru að rísa úr öskustó og sætta sig ekki lengur við að vera hornreka, heldur láta nágrannaþjóðir sínar finna fyrir afli og veldi rússnekska bjarnarins. Olíu- og gasveldið vegur þar þyngst en ekki má heldur gleyma því að þeir eiga enn nógu mikið af kjarnorkuvopnum til að gamla skammstöfunin MAD, mutual assure destruction, sé enn í fullu gildi.

Að því leyti til hefur veruleiki Kalda stríðsins aldrei horfið, - veruleiki sem er ekki sæmandi dýrategund, sem telur sig skapaða í mynd Guðs almáttugs og verðskulda heitið homo sapiens. Vísa til bloggpistils á undan þessum.


mbl.is Þjóðverjar vilja ekki verða of háðir Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

G E G T - Gulltryggð Eyðing, Gagnkvæm Tortíming.

Ég hrökk upp með andfælum í fyrrinótt eftir óhugnanlegan draum sem mig dreymdi. Ég titraði, draumurinn var svo raunverulegur og sannfærandi að ég var nokkra stund að átta mig á því að hann væri ekki veruleikinn.

Mig dreymdi að oboðsleg birta lýsti skyndilega upp íbúðina sem ég bý í og þegar ég fór út að stofuglugganum sá ég svepplaga ský stíga til himins handan við Lönguhlíðina. Um mig læstist ólýsanleg skelfingartilfinning: Kjarnorkustríð var brostið á.

Eldflaugarskotið með sprengjuna hafði að vísu greinilega geigað út þrí að hún kom niður suður af Selvogi, en hver vissi hvar næsta sprengja myndi springa?

Allan tíman sem Kalda stríðið stóð dreymdi mig aldrei svona draum vitandi af kjarnorkuógninni sem vofði yfir öllu mannkyni. Af hverju dreymir mig þá svona draum nú? Líklegast vegna þess að nýjustu árekstrar Rússa og Bandaríkjamanna eru á milli þjóða sem ráða enn yfir kjarnorkuvopnum sem nægja til að eyða öllu lífi á jörðinni.

Mig dreymir þetta af því að með hegðun sinni við austanvert Svartahaf hafa þessi stórveldið komið í bakið á mér og öllum íbúum jarðar þegar við vorum farin að halda að gereyðingarógnin heyrði fortíðinni til.

Ekki er langt síðan upplýst var að upp úr 1980 munaði minna að kjarnorkustríð brytist út en í Kúbudeilunni 1962. Kannski dreymdi mig þennan draum nú vegna þess að nýlega sá ég fyrir tilviljun í sjónvarpi 45 ára gamla mynd Kubriks um doktor Strangelove og sat enn sem límdur við skjáinn, dáleiddur af þessu meistarverki kaldhæðni, hrollvekju og ádeilu. Ætti að vera skylda allra jarðarbúa að sjá þessa mynd.

Kjarnorkuógnin er í raun enn meiri þá en nú ef miðað er við eldflaugafjölda og sprengimagn. Mér finnst ekki boðlegt fyrir mannkynið að líta fram hjá lögmáli Murphys sem segir að ef eitthvað geti farið úrskeiðis, muni það óhjákvæmilega gerast fyrr eða síðar.

Þessi ógn blasir enn við en við lítum undan, -nema ef undirmeðvitundin tekur völdin eins og í martröð draums míns í nótt, - martröð sem þvi miður getur enn orðið að veruleika í vöku.

Ef hún verður að veruleika veit ég nú hver tilfinningin verður þegar sprengjurnar fara að springa og verð að reyna að sætta mig við það að lifa það ekki að þessari ógn verði bægt frá okkur eða afkomendum okkar. Það finnst mér dapurlegt því forsendan fyrir kjarnorkuvopnaeign stórveldanna er sú að báðir aðilar trúi því að mótherjinn beiti þeim, telji hann sig knúinn til þess. Annars er "fælingarmátturinn" marklaus.

Skammstöfunin yfir þetta er MAD, "mutual assured destruction". Útleggst á íslensku sms-máli "GEGT", "Gulltryggð Eyðing, Gagnkvæm Tortíming." ("Gegt" er sms-skammstöfun fyrir "geðveikt")


Bloggfærslur 29. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband