17.9.2008 | 21:01
Þröskuldur sem virkar öfugt?
Í Rússlandi, Þýskalandi og Tyrklandi fundu Íslendingar fyrirmyndir að 5% þröskuldi í fylgi til að koma mönnum á þing, tvöfalt hærra lágmarki en í nágrannalöndunum okkar. Allir vita hver tilgangurinn er í Rússlandi með takmörkunum, sem varna Kasparof að komast á þing, en í Þýskalandi mun hræðsla við nýnasista hafa ráðið mestu og í Tyrklandi hræðsla við öfgamúslima.
Tæknilega virkar þröskuldurinn þannig hér á landi að nái framboð hvergi inn kjördæmakjörnum þingmanni þarf sem svarar fylgi sem annars gæfi þrjá þingmenn til þess að að koma nokkrum manni á þing. Íslandshreyfingin fékk heildarfylgi sem svarar til tveggja þingmanna en þröskuldurinn kom í veg fyrir það.
Ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi hefði Íslandshreyfingin komið tveimur mönnum á þing. 3386 kusu flokkinn í Reykjavík og fengu engan mann, en í Norðvesturkjördæmi kusu 2432 Frjálslynda flokkinn og fengu tvo þingmenn.
Í síðustu skoðanakönnunum hefur Frjálslyndi flokkurinn mælst með 4% fylgi. Flokkurinn mældist svo lágur síðast 2006 ef ég man rétt, en eftir að hann gerði innflytjendamál að aðalmáli sínu seint á því ári með inngöngu Jóns Magnússonar og Nýs afls, flaug fylgið yfir 10% en varð síðan 7,3% í kosningunum.
Nú, þegar fylgi Frjálslynda flokksins er aftur komið niður fyrir þröskuldinn, getur reynslan frá 2006-7 orðið til þess að þeim mönnum vaxi ásmegin í flokknum sem byggja meðal annars á því, að í löndum með marga innflytjendur og mikið erlent vinnuafl er alltaf fyrir hendi allstór hópur kjósenda sem veitir flokki sem er yst úti á vængnum í þeim málum brautargengi.
Þótt Guðjón Arnar og Sleggjan fengju 13,6% í Norðurlandi vestra, má fylgi þeirra í því kjördæmi ekki við því að fara niður fyrir 10% því þá fær flokkurinn ekki kjördæmakjörinn mann þar.
Á sínum tíma var Jón Magnússon í fararbroddi ungra sjálfstæðimanna og í slagtogi með mönnum sem síðar urðu alþingismenn og ráðherrar.
Það er því eðlilegt að hann ætli sér stóra hluti nú. Ákvæðið um lágmarksfylgi getur haft hvetjandi áhrif á það að leitað sé að jaðarfylgi sem gæti verið álíka stór markhópur hér og í nágrannalöndunum og gefið von um að koma örugglega manni á þing.
Sá tilgangur þröskuldsins fyrrnefnda að koma í veg fyrir framboð sem höfða til jaðarfylgis getur þar með snúist upp í andhverfu sína.
Ekki er ólíklegt að þeir Jón og Magnús Þór skynji að þetta geti gefið þeim sterka stöðu í Frjálslynda flokknum þegar um er að tefla að koma manni á þing eða ekki. Ef þeim tekst að hrekja Sleggjuna af leið, veikir það stöðuna í akkeriskjördæminu Norðurlandi vestra og þar með stöðu formannsins. Þá birtist hættan á að flokkurinn nái ekki manni þar inn og þar með vex nauðsyn þess að ná 5% þröskuldinum á landsvísu.
Í næstu kosningum verða 11 ár síðan Guðjón Arnar og Sverrir Hermannson komust á þing með kvótamálið sem aðalmál. Eftir því sem kvótakerfið lafir lengur og árin líða dofnar það mál og þörfin vex á að skjóta nýjum málefnastoðum undir flokkinn, sem veiti honum álíka sérstöðu og hann dafnaði á í upphafi.
Það skyldi þó aldrei fara svo að niðurstaðan yrði kristilegur þjóðernissinnaður flokkur á hægri vængnum með innflytjendamál sem aðalmál og að þröskuldurinn góði virki öfugt við það sem kannski var ætlast af þeim sem settu hann inn í kosningalögin?
![]() |
Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
17.9.2008 | 12:58
Vistakstur í sem víðustum skilningi.
Keppnismót í sparakstri hafa sýnt hve miklum árangri má ná í sparnaðarátt og minnkun loftmengunar með vistakstri. Hins vegar er raunhæfur vistakstur í daglega lífinu flóknari en sparaksturskeppni vegna þess að í sumum tilfellum tapast verðmæti ef alger vistakstur hvers og eins er látinn ráða.
Dæmi um þetta má sjá á umferðarljósum. Ef hver og einn hugsar aðeins um að hann sjálfur spari sem mest eldsneyti, fer hann löturhægt af stað á grænu ljósi og hefur hröðun bílsins í lágmarki. Ef allir gera þetta dregur það stórlega úr afköstum umferðarinnar og mun færri komast yfir á grænu ljósi en ella.
Þegar umferð er mikil verður meiri hætta á umferðarteppum og seinagangi ef allir fara að aka svona undir þessum kringumstæðum.
Sem dæmi get ég nefnt þá, sem fara af stað á grænu ljósi á Miklubraut í vesturátt frá gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar. Ef þeir ætla að taka vinstri beygju suður Háaleitisbraut verða þeir að taka strax af stað og hraða sér upp að beygjuljósinu á Háaleitisbrautinni vegna þess hvað það logar í skamma stund.
Oft hef ég bölvað ökumönnum á undan mér á þessari leið fyrir það að vera hálfsofandi, hugsa ekkert um hag umferðarinnar í kringum þá og valda því að kannski aðeins þeir einir hafa komist yfir á beygjuljósinu.
Bílar sem stöðvast, bíða og aka aftur af stað að óþörfu valda óþarfa eldsneytiseyðslu og mengun og hægja á umferð.
Bestu dæmin er umferðarljósin á fjölförnum gatnamótum á háannatíma. Þá skiptir gríðarlega miklu máli að sem flestir komist yfir á grænu ljósi í hvert sinn, - annars lengist bara biðröðin og biðin með bílana í lausagangi.
En vistakstur er hið besta mál, því að hann er hluti af því sem mest þarf að bæta hjá okkur; - að við séum að pæla í umferðinni í kringum okkur og vakandi fyrir því að leggja okkar af mörkum til þess að hún gangi sem best, mengi sem minnst og sé sem hagfelldust.
Kjörorðið ætti að vera: Vistakstur í sem víðustum skilningi.
![]() |
Átak í vistakstri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2008 | 10:39
Nafngiftir, sem orka tvímælis.
Nöfnin sem Bandaríkjamenn gefa fellibyljunum suður af landi sínu geta orkað tvímælis. Mér finnst nafngiftin Ike ekki góð. Dwight D. Eisenhower var rómaður sem frábær stjórnandi með góða samskiptahæfileika sem helsta kost. Hann var forseti Bandaríkjanna 1953-61 og náði yfirburðakjöri bæði 1952 og 1956 ekki hvað síst fyrir kjöroðið "I like Ike", sem stuðningsmenn hans notuðu.
Á tímabili stefndi Nígeríumaður einn, Ike Ibeabuchi, hraðbyri í að verða heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum, og hann hlaut þetta nafn vegna dálætis foreldra hans á hinum eina og sanna Ike, sem var svo "likable."
Ég hef því alltaf velt því fyrir mér hvort nafngiftir fellibylja kunni koma betur út með því að beita breyttri aðferð.
En um þetta ráðum við hér á Íslandi svo sem ekki neinu né heldur því að vegna þess hve gríðarlegur munur var á hlýja loftinu á sunnanverðu Grænlandshafi og kalda loftinu norður af Labrador, komst hinn deyjandi Ike í kjöraðstæður í einhverri bestu fóðurgeymslu fyrir krappar stormlægðir sem þekkist í heiminum, - fyrir suðvestan Ísland.
Á Bretlandseyjum er þetta fyrirbæri kallað Íslandslægðin og á veturna er lægsti meðalloftþrýstingur sem þekkist á jörðinni, einmitt fyrir suðvestan Ísland. Það ekkert er við því að segja. Þetta er staðreynd sem við verðum að sætta okkur við.
![]() |
Mörg útköll vegna óveðursins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.9.2008 | 10:21
Mænuskaði, - hið örlagaríka augnablik.
Enginn sem ekki hefur reynt það getur sett sig inn í kjör mænuskaðaðra. Bara tilhugsun mín ein um sekúndurnar þegar máttur og tilfinning hverfa og sortnar fyrir augum, - minningin um skelfinguna, sem fylgir slíkum augnablikum, - gefur mér vísbendingu um það sem um sé að ræða. Hjá mörgum var það eitt augnablik sem öllu réði og tvisvar á ævinni hef ég upplifað slík augnablik þar sem mátturinn kom þó aftur, sem betur fór.
Í fyrra skiptið var það í sveitinni þar sem ég datt hátt fall aftan af dráttarvél og kom beint niður á sitjandann. Við það kom hnykkur á hrygginn og ég missti allan mátt svo gersamlega, að ég gat ekki andað og féll í köfnunaryfirlið, allt varð svart fyrir augunum.
Síðan komu mátturinn, sjónin og öndunin aftur, en hið skelfilega augnablik gleymist aldrei, - andráin þegar maður vissi ekki hvort að svona væri dauðinn.
Í seinna skiptið gekk ég afturábak við að draga flugvélina TF-FRÚ og steig óvart á lítinn svellbunka sem ég hafði ekki tekið eftir. Ég rann og vegna hins mikla átaks skall ég af heljarafli með hnakkann á malbikið, rotaðist augnablik en fann þergar ég rankaði við mér að líkaminn fyrir neðan háls var eins og horfinn í burtu líkt og hann væri ekki til. Hann var bara eitthvert óviðkomandi kalt kjötstyttki. Ég hafði sem sé lamast við höggið og slynkinn sem kom á bakið.
Svona lá ég í nokkrar sekúndur, gat mig hvergi hrært og varð hugsað til sonar míns, sem fæddist með klofinn hrygg og ólæknandi mænuskaða sem hefur haldið honum í hjólastól alla ævi.
Það er með ólíkindum hvað maður getur hugsað margt á örfáum sekúndum þegar svona gerist. Skelfingin er ólýsanleg.
Síðan kom mátturinn aftur en það hefur það alltaf talað til mín þegar rætt er um málefni mænuskaðaðra. Okkur er hollt að hugsa til þeirra og bera kjör þeirra saman við okkar þegar við erum að barma okkur yfir hlutum sem eru smámunir einir í samanburði við þeirra vandamál.
Ég þekki það í gegnum son minn og vini hans að húmorinn er þeirra vopn í baráttu þeirra við að takast á við örlög sín, - oft grimmilegur svartur gálgahúmor. Öllu gamni getur fylgt alvara og allri alvöru líka eitthvert gaman.
Tryggvi Ingólfsson orðar þetta svo vel í Morgunblaðsviðtalinu í dag með því að segja: "Maður tekur eitt skref í einu og er æðrulaus. Öðruvísi gengur þetta ekki."
Sonur minn á það til dæmis til að segja við mig þegar honum líkar ekki hvað ég er að gera: "Ef þú hættir þessu ekki, pabbi, geng ég frá þér!"
Ég vil því ekki að þessi pistill sé tómur bölmóður og leyfi mér, - um leið og ég hvet alla til að sinna málum mænuskaðaðra sem best, - að enda á stöku sem hrökk upp úr mér eftir atvikið sem ég greindi frá hér að ofan, þegar ég rotaðist og lamaðist í nokkrar sekúndur við það að draga flugvélina TF-FRÚ. Til útskýringar er rétt að geta þess að meðal helstu flugvina minna á Akureyri eru Víðir Gíslason og Húnn Snædal, oftast kallaður Húnni.
Álíka lífsreynslu á ekki neinn, -
alls ekki Víðir né Húnni,
því raunar í heiminum reynist ég einn
um að rotast í drætti með frúnni.
![]() |
Vildi að ég fyndi til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)