Mænuskaði, - hið örlagaríka augnablik.

Enginn sem ekki hefur reynt það getur sett sig inn í kjör mænuskaðaðra. Bara tilhugsun mín ein um sekúndurnar þegar máttur og tilfinning hverfa og sortnar fyrir augum, - minningin um skelfinguna, sem fylgir slíkum augnablikum, - gefur mér vísbendingu um það sem um sé að ræða. Hjá mörgum var það eitt augnablik sem öllu réði og tvisvar á ævinni hef ég upplifað slík augnablik þar sem mátturinn kom þó aftur, sem betur fór.

Í fyrra skiptið var það í sveitinni þar sem ég datt hátt fall aftan af dráttarvél og kom beint niður á sitjandann. Við það kom hnykkur á hrygginn og ég missti allan mátt svo gersamlega, að ég gat ekki andað og féll í köfnunaryfirlið, allt varð svart fyrir augunum.

Síðan komu mátturinn, sjónin og öndunin aftur, en hið skelfilega augnablik gleymist aldrei, - andráin þegar maður vissi ekki hvort að svona væri dauðinn.

Í seinna skiptið gekk ég afturábak við að draga flugvélina TF-FRÚ og steig óvart á lítinn svellbunka sem ég hafði ekki tekið eftir. Ég rann og vegna hins mikla átaks skall ég af heljarafli með hnakkann á malbikið, rotaðist augnablik en fann þergar ég rankaði við mér að líkaminn fyrir neðan háls var eins og horfinn í burtu líkt og hann væri ekki til. Hann var bara eitthvert óviðkomandi kalt kjötstyttki. Ég hafði sem sé lamast við höggið og slynkinn sem kom á bakið.

Svona lá ég í nokkrar sekúndur, gat mig hvergi hrært og varð hugsað til sonar míns, sem fæddist með klofinn hrygg og ólæknandi mænuskaða sem hefur haldið honum í hjólastól alla ævi.

Það er með ólíkindum hvað maður getur hugsað margt á örfáum sekúndum þegar svona gerist. Skelfingin er ólýsanleg.

Síðan kom mátturinn aftur en það hefur það alltaf talað til mín þegar rætt er um málefni mænuskaðaðra. Okkur er hollt að hugsa til þeirra og bera kjör þeirra saman við okkar þegar við erum að barma okkur yfir hlutum sem eru smámunir einir í samanburði við þeirra vandamál.

Ég þekki það í gegnum son minn og vini hans að húmorinn er þeirra vopn í baráttu þeirra við að takast á við örlög sín, - oft grimmilegur svartur gálgahúmor. Öllu gamni getur fylgt alvara og allri alvöru líka eitthvert gaman.

Tryggvi Ingólfsson orðar þetta svo vel í Morgunblaðsviðtalinu í dag með því að segja: "Maður tekur eitt skref í einu og er æðrulaus. Öðruvísi gengur þetta ekki."

Sonur minn á það til dæmis til að segja við mig þegar honum líkar ekki hvað ég er að gera: "Ef þú hættir þessu ekki, pabbi, geng ég frá þér!"

Ég vil því ekki að þessi pistill sé tómur bölmóður og leyfi mér, - um leið og ég hvet alla til að sinna málum mænuskaðaðra sem best, - að enda á stöku sem hrökk upp úr mér eftir atvikið sem ég greindi frá hér að ofan, þegar ég rotaðist og lamaðist í nokkrar sekúndur við það að draga flugvélina TF-FRÚ. Til útskýringar er rétt að geta þess að meðal helstu flugvina minna á Akureyri eru Víðir Gíslason og Húnn Snædal, oftast kallaður Húnni.

Álíka lífsreynslu á ekki neinn, -
alls ekki Víðir né Húnni,
því raunar í heiminum reynist ég einn
um að rotast í drætti með frúnni.


mbl.is Vildi að ég fyndi til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þetta er sennilega það síðasta sem ég vildi upplifa. Ég get ekki ímyndað mér að geta ekki hreyft mig og finna ekki fyrir líkamanum. Og svo að þurfa hjálp við allt, bókstaflega. Ég held að það væri betra að hrökkva en að lamast frá hálsi og niður. Það næsta sem ég hef komist þessu var fyrir sjö árum. Ég fékk brjósklos og gat mig varla hreyft. Ég var uppi í rúminu á annari hæð. Það kemur að því að maður þarf að fara á klósettið, svo ég staulaðist fram úr. Ég komst hálfa leiðina niður stigann en gafst þar upp. Hafði hreinlega ekki kraft til að fara lengra. Ég komst ekki heldur upp, svo ég sat þarna í stiganum í 2-3 tíma. Ég hafði skilið gemsann eftir við rúmið, svo ég gat engan beðið um hjálp. Það má svo sem fylgja sögunni að ég náði að halda í mér.

Þetta er auðvitað ekkert, miðað við að lamast, en ég skildi þá hvað við höfum það gott ef að heilsan er í lagi. Sé maður sprækur á sál og líkama leysast önnur vandamál af sjálfu sér.

Villi Asgeirsson, 17.9.2008 kl. 12:17

2 identicon

Ég skildi þetta lömunarástand upp á nýtt þegar við hjónin sátum við sjúkrabeð mágs míns, sem hafði lamast frá hálsi og niður.  Önnur hendi hans lá ofan á sænginni, og systir hans spurði: Er í lagi að hafa hendina þarna?  Og hann spurði á móti: Hvar er hún??

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband