5.1.2009 | 20:34
"Endurgreiða" fleiri?
Ekki var hægt að skilja annað á Bjarna Ármannssyni viðtalinu í Kastljósinu í kvöld en að hann hefði endurgreitt um það bil helminginn af því sem hann hagnaðist nettó á starfslokasamningi sínum hjá Glitni. Það þýðir þá væntanlega að hann haldi öðrum 370 milljónum eftir. Margir myndu telja sig vera á ofurkjörum með slíkt.
Talað er um að í fjármálageiranum séu það um það bil þrjátíu manns sem beri mesta ábyrgð á hruninu.
Ummæli Bjarna vekja ýmsar spurningar:
1. Er það hæfileg og sanngjörn niðurstaða að hann, sem einn af þrjátíumenningunum, haldi svo miklu eftir á sama tíma og margir, sem ekki báru ábyrgð, hafa misst allt sitt eða lepja dauðann úr skel vegna hrunsins?
2. Aðalspurningin. Eru fleiri sem ætla að "endurgreiða" ef þeir halda umtalsverðum fjárhæðum eftir? Kannski engir aðrir?
3. Þarf að bíða eftir því hvernig fari fyrir ýmsum áður en spurningu númer 2 verði svarað? Björgólfur Guðmundsson sagði til dæmis í Kastljósviðtali að hann vissi ekki hvernig honum myndi á endanum reiða af.
4. Hvað um sérstaka ábyrgð Framsóknarflokksins? Aftur og aftur er komið að kosningaloforði Framsóknarflokksins 2003 um 90% húsnæðislán sem færði honum rúmlega 18% atkvæða. Bjarni Ármannsson lýsti því vel í viðtalinu í kvöld hvernig "hjarðeðli" og samkeppnisvilji á markaðnum ollu því að allir töldu sig þurfa að fara af stað í kapphlaup með hugarfari sem síðan vatt upp á sig og smitaði inn í alla vitleysuna sem af þessu spannst.
![]() |
Endurgreiddi 370 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
5.1.2009 | 14:30
Kunnugleg sundurþykkjustef.
Gamalkunnug sundurþykkisstef má nú heyra hjá stjórnarflokkunum, ekki ósvipuð þeim sem heyrðust á síðustu mánuðum fyrri ríkisstjórna sem voru að liðast í sundur. Æ fleiri ráðherrar og þingmenn deila á samstarfsflokkinn og er orðræðan um að flýta kosningum gott dæmi um það.
Í fyrstu voru það aðeins tveir ráðherrar, Björgvin Sigurðsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem töluðu um slíkt, en nú hefur Ingibjörg Sólrún gefið veiðileyfi á málið og egnt ýmsa Sjálfstæðismenn til andsvara.
Það getur verið kostur fyrir ríkisstjórn að hafa mikinn þingmeirihluta en gallinn er hins vegar sá að meiri hætta er á svona sundurþykkju í slíkum tilfellum vegna þess að hver einstaklingur um sig, sem fer út af línunni, telur sig geta gert það í krafti þess að þar sé ekki um úrslitaatriði að ræða.
Dæmi um hið gagnstæða eru reyndar mörg, eins og hjá ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen þegar Guðrún Helgadóttir fór sínar eigin leiðir í Gervasoni-málinu og stjórnin hékk á bláþræði. En þá eru málin afmarkaðri, eðli málsins samkvæmt.
Geir H. Haarde hefur stjórnarumboðið og getur fræðilega séð veifað Framsóknarflokknum framan í Samfylkinguna.
Æ meiri órói ríkir innan Samfylkingarinnar vegna stöðunnar og spurning er hvað ægivald Ingibjargar Sólrúnar nær langt. Sagt er að hún stjórni sínum flokki með harðri hendi og sé kvenkyns Davíð Oddsson í því efni.
Úr skoðanakönnunum má lesa að meirihluti samfylkingarfólks sé óánægður með stjórnarsamstarfið og vilji leita sem flestra leiða út úr því. Formaðurinn hefur gefið í skyn að ástæðurnar gætu verið margar en verið sé að leita að einhverri haldbærari ástæðu til stjórnarslita en ESB-málinu.
Ég man varla eftir hliðstæðum ummælum annars af tveimur oddvitum ríkisstjórnar.
Geir heldur fast í Davíð og Ingibjörg virðist ekki bera utanríkisstefnuna í málefnum Ísraelsmanna undir Geir heldur reka eigin utanríkisstefnu, líkt og Steingrímur Hermannsson gerði í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar.
Fjórum mánuðum eftir að Steingrímur hitti Arafat sprakk sú stjórn. Hvað eigum við að gefa þessari ríkisstjórn langan tíma?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.1.2009 | 13:47
Britannica nútímans.
Nú eru 45 ár síðan maður lagði í það átak að kaupa Alfræðiorðabókina Britannicu og hefur hún að vísu dugað furðu vel síðan, en margt í henni þó orðið úrelt með tímanum. Einn af fjölmörgum kostum netsins er sá frábæri möguleiki að geta flett öllum fjandanum upp og kynnst sér alla mögulega og ómögulega huti.
Wikipedia getur líka átt þátt í því að hamla gegn fordómum, sleggjudómum og skaðlegrar fáfræði.
Gildi Wikipediu sem ódýrrar og aðgengilegrar uppsprettu þekkingar er ómetanlegt og því eru það góðar fréttir að þetta sívaxandi alfræðirit standist áhlaup fjármálakreppunnar.
![]() |
Wikipedia festir sig í sessi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)