"Endurgreiða" fleiri?

Ekki var hægt að skilja annað á Bjarna Ármannssyni viðtalinu í Kastljósinu í kvöld en að hann hefði endurgreitt um það bil helminginn af því sem hann hagnaðist nettó á starfslokasamningi sínum hjá Glitni. Það þýðir þá væntanlega að hann haldi öðrum 370 milljónum eftir. Margir myndu telja sig vera á ofurkjörum með slíkt.

Talað er um að í fjármálageiranum séu það um það bil þrjátíu manns sem beri mesta ábyrgð á hruninu.

Ummæli Bjarna vekja ýmsar spurningar:

1. Er það hæfileg og sanngjörn niðurstaða að hann, sem einn af þrjátíumenningunum, haldi svo miklu eftir á sama tíma og margir, sem ekki báru ábyrgð, hafa misst allt sitt eða lepja dauðann úr skel vegna hrunsins?

2. Aðalspurningin. Eru fleiri sem ætla að "endurgreiða" ef þeir halda umtalsverðum fjárhæðum eftir? Kannski engir aðrir?

3. Þarf að bíða eftir því hvernig fari fyrir ýmsum áður en spurningu númer 2 verði svarað? Björgólfur Guðmundsson sagði til dæmis í Kastljósviðtali að hann vissi ekki hvernig honum myndi á endanum reiða af.

4. Hvað um sérstaka ábyrgð Framsóknarflokksins? Aftur og aftur er komið að kosningaloforði Framsóknarflokksins 2003 um 90% húsnæðislán sem færði honum rúmlega 18% atkvæða. Bjarni Ármannsson lýsti því vel í viðtalinu í kvöld hvernig "hjarðeðli" og samkeppnisvilji á markaðnum ollu því að allir töldu sig þurfa að fara af stað í kapphlaup með hugarfari sem síðan vatt upp á sig og smitaði inn í alla vitleysuna sem af þessu spannst.


mbl.is Endurgreiddi 370 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sturla Snorrason

Miðað við aldur og fyrri störf, fyndist mér ekkert óeðlilegt að hann skili öllum þeim fjármunum sem hann hefur haft af okkur.

Héldi kannski eftir einu húsi í meðal skuld og einum Range Rover á bílaláni.

Sturla Snorrason, 5.1.2009 kl. 20:50

2 Smámynd: Björn Birgisson

Bjarni stækkaði sína nærveru í þessu viðtali. Hann er metnaðargjarn ungur maður, en geðþekkur. Kann að vera erfitt að feta einstígið milli græðgisvæðingarinnar og skoðana tengdamóður hans, sem ég efast ekki um að hún hafi látið uppi - við uppann!

Björn Birgisson, 5.1.2009 kl. 20:50

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Sæll Ómar  Ég held að Bjarni sé að tala um að 370 miljónir sé helmingur af hans heildar launum frá upphafi hjá bankanum eftir skatta sem getur alveg passað.

4. Þess 90% lán fóru aldrei í gegn um þingið sem hefði átt að duga til að stopp það bull í framsóknarflokknum. En bankmennirnir sáu víð því, þeir bara buðu 90% lán sjálfir til að koma skriðunni af stað.  Þannig að upphafið af fasteignabólunni verður því að teljast hjá bökunum. eftir sem áður.

Guðmundur Jónsson, 5.1.2009 kl. 21:04

4 Smámynd: ÖSSI

Mér fannst þetta líta aðeins "betur" út þegar hann nefnir að þetta séu ekki "nema" 15 miljónir að nafnverði þegar þessi kaupréttarsamningar eru gerðir. Það finnst mér í sjálfu sér ekki stórkostlegir peningar í öll þessu hýti. Síðan hækkar bankinn umfram það sem allir búast við og þá eru margföldunaráhrifin svona gríðarleg...en gott hjá Bjarna að skila þessum peningum sem hann fékk í raun á réttmætann hátt. Þetta eru þá væntanlega um 7 miljónir að nafnvirði...

ÖSSI, 5.1.2009 kl. 21:07

5 Smámynd: GOLA RE 945

Þetta var heldur snautlegur kattaþvottur hjá Bjarna.  Það kom ekkert fram í þessu viðtali sem alþjóð vissi ekki, annað en það að hann hafði skilað 370 millum. Hafi hann talið sig öðlast geislabaug fyrir þessar krónur og segjast bera ábyrgð, sem hann skilgreindi ekki nánar í hverju fælist, þá er það misskilningur hjá Bjarna.

Bjarni gerði mikið úr því að engin hefði séð fyrir að bréfin myndu hækka svo mikið frá því að kaupréttarsamningur var gerður, en sleppti því að geta þess að hefðu þau lækkað hefði hann engin bréf keypt. Sem sagt engin áhætta fyrir hann. 

Hann gefur í skyn að hann hafi farið frá Glitni vegna áhættusækni Hannesar og Jóns Ásgeirs, en ætlar síðan að sölsa undir sig Orkuveituna í félagi við þá. Ekki trúverðugur þar.

Eftir að hafa horft á viðtalið dettur mér ekki annað í hug en að Bjarni Ármannsson eitt af þrennu, það vantar allt of margt í þessa frásögn hjá honum. Hann sé það lyginn og héldi að hann kæmist upp með það, svo spilltur og veruleikafirrtur að honum finnist hann eiga skilið hundruð miljóna sem almenningur þarf nú að borga, eða siðblindur.

GOLA RE 945, 5.1.2009 kl. 21:29

6 identicon

Tek undir með nr. 5 og svo má benda á að Bjarni labbaði út úr þessu nýfrjálshyggjudæmi með 7500 miljónir og kemur svo núna og borgar til baka 370 miljónir, hvað með restina?

Valsól (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 21:59

7 Smámynd: Ur-Hellinum

Hann á að skila öllu. Sætta sig við að halda 100 til 200 milljónum miðað við hvað hann hefur gert mikinn skaða. Hann vill bara komast aftur að kjötkötlunum þegar þeir opna aftur. Og nú fremst í röðina. Í fangelsi með þennan mann og alla hans líka.

Ur-Hellinum, 5.1.2009 kl. 22:01

8 Smámynd: Heidi Strand

Tek undir með 5,6 og 7.
Svo má þessi karlar gjarna gefa peninga í góðgerðastofnarnir eins og til dæmis Mæðrastyrksnefnd.
Það má líka hafa alvöru umræðuþættir í sjónvarpinu þar sem f skúrkarnir getur setið fyrir svörum hjá almenningur, (svipað fyrirkomulag og er hjá NRK 1 i redaksjon) en það verður að vera góður stjórnandi

Heidi Strand, 5.1.2009 kl. 22:49

9 Smámynd: Offari

Það er sælla að gefa en þiggja.

Offari, 5.1.2009 kl. 23:42

10 identicon

Hey.. mikilvægt að almenningur fari ekki að fá eitthvert Stokkhólmseinkenni með þessum ræningjum. Þessi gau á að skila öllu aftur, hús og bíll meðtalið. Það er nægt húsnæði fyrir þessa seppa uppi á Miðnesheiði, þau geta fengið 1-2 blokkir þar til að búa í... og strætó í bæinn.

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 09:33

11 Smámynd: Haraldur Baldursson

Væri ekki vert að vita hversu mikið þetta er af heildargreiðslunum til Bjarna.
Gaman að sjá hversu nærri fjárhagslegu öryggi hans er höggvið. Þá fæst kannski betra mat á það hversu mikið er verið að "gefa" tilbaka.

Haraldur Baldursson, 6.1.2009 kl. 12:55

12 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Mér finnst reyndar Bjarni meiri maður að koma fram og lýsa yfir sínum hluta ábyrgðar á hruninu.  Samt er ég foxillur út í þessa fugla.

En er sammála þér Ómar, ég vil að fleiri stigi fram og viðurkenni sinn þátt í málinu, og þá er ég að tala um hina forstjórana, útrásarvíkingana og fl.

Sumir hafa þó komið og sagst ekki sjá eftir neinu,  a.m.k. taldi Jón Ásgeir sig ekki þurfa að afsaka neitt.

Sigurður Sigurðsson, 6.1.2009 kl. 13:25

13 Smámynd: Jóhann G. Frímann

KN sagði: "Það er sælla að gefa en þiggja - á kjaftinn".

Gefum auðmönnunum á kjaftinn. Það á að taka þá niður á sama "level" og þeir hafa sett almúgann á. Núllstilla þá. Er sanngirni í öðru? Kannski væri réttara að sekta þá einnig. Yfirvöld hafa alltaf verið refsiglöð gagnvart minni spámönnum. Hvers vegna silkihanska á þessa menn?

Jóhann G. Frímann, 6.1.2009 kl. 14:05

14 identicon

Þetta var margþættur kattarþvottur.

Maðurinn er búinn að hagnast um milljarða á kaupréttarsamningum sem við vitum núna fyrir víst að þessir menn gátu aldrei tapað á (sbr. gjörninga í Kaupþingi og bréfakaup Birnu bankastjóra)

Svo skilar hann hluta af peningunum sem hann fékk fyrir að hætta í vinnu.....

Hann þurfti ekki að gera það svo það verður að hrósa honum fyrir það upp að vissu marki. En þetta er of seint í rassinn gripið, hugsunarhátturinn sem rústaði fjármálakerfinu á Íslandi kristallaðist kannski í þessum ofur"sporslum" til stjórnanda. Semsagt pínulítill plástur á sárið.

Annar kattarþvottur er að reyna að kenna Framsóknarflokknum um að bankarnir runnu á rassgatið. Bankarnir lánuðu einfaldlega of mikið af peningum í hluti sem voru það samtvinnaðir að þegar einn kubburinn hrundi fór allt á einu bretti. Þetta sáu lánadrottnar íslensku bankanna fyrir og lántökukostnaður þeirra hækkaði það mikið að hrunið varð óumflýjanlegt. Vítahringur vegna lélegrar fjármálastjórnunar heitir það.

Að ætla að halda því fram að hækkun á hámarkslánshlutfalli til íbúðakaupa úr 80% upp í 90% hafi orsakað bankahrunið er hlægilegt.

Það er líka hlægilegt að halda því fram að bankarnir hafi hrunið vegna þess að þeir lánuðu til íbúðakaupa.

Það er hinsvegar staðreynd að þeir lánuðu alltof mörgum á alltof lágum vöxtum til íbúðakaupa, buðu fólki alltof há lán, fundu upp nýtt vistarband með margskilyrtum lánum. Við lánum þér fyrir húsi en þá skaltu líka gjöra svo vel að koma í séreignarlífeyrissparnað hjá okkur, stofna launareikning og svo framvegis.

Þessi lán voru til 20-40 ára, greyið bankaskinnin fjármagna sig hinsvegar til fimm ára í senn, vegna þeirrar eigin lélegu fjárfestingastefnu gátu þeir ekki fjármagnað sig á nægilega góðum kjörum til að græða á "lágu" íbúðalánavöxtunum enda hækkuðu þeir strax vexti og héldu þeim vaxtahækkunum áfram allt fram í hrunið.

Í hnotskurn, þeir fjárfestu illa og brenndu sig á stunda undirboð á húsnæðislánamarkaði. Kemur mjög takmarkað við gjörðir Framsóknarflokksins

Munið þið hvað var hart sótt að leggja íbúðalánasjóð af ?

Barði (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 14:12

15 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Það þýðir ekkert að reyna að hvítþvo Framsóknarflokkinn. Menn í hans raðir bera einmitt mikla ábyrgð á hruninu. Skoðum til dæmis hann Finn Ingólfsson aðeins betur.

Úrsúla Jünemann, 6.1.2009 kl. 14:37

16 identicon

Ég var allavega ekki að reyna að hvítþvo Framsóknarflokkinn.

En það fer í taugarnar á mér hvernig er búið að temja fólk þannig að alltaf skal vera bent á Framsóknarflokkinn sem mesta spillingarbælið, brandaraflokkinn og ábyrgðarmann fyrir öllu sem misferst.

Finnur Ingólfsson og peningamannahópurinn honum tengdur tók þátt í sukkinu, held að það rífist enginn um það. Það er viðskiptablokkin með Framsóknarmenn innanborðs, það stenst samt ekki að þá sé Framsóknarflokknum eitthvað sérstaklega um að kenna.

Þótt að fólk geri sitt besta til að gleyma því þá var Framsóknarflokkurinn með ca. 20% fylgi frá 1980-2005 það hefði gengið kraftaverki næst ef engir Framsóknarmenn hefðu eignast peninga á þeim tíma, sérstaklega þeir sem voru í aðstöðu til að skara eld að eigin köku. Finnur var í þeirri stöðu og gjörnýtti hana... lái honum hver sem vill.

Sama gerðu peningamennirnir tengdir Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni (veit ekki til þess að neinn stór aðili í viðskiptalífinu sé tengdur VG enda smáflokkur þangað til í síðustu kosningum)

Ef við höldum okkur við það sjónarhorn að stjórnmálaflokkarnir beri ábyrgð á klúðri íslenskra viðskiptamanna finnst mér þessi lýsing ágæt á því: 

Það voru Sjálfstæðismenn og Samfylkingin sem spilaðu á fiðlurnar á meðan Reykjavík brann. Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hjálpuðust til við að byggja bálköstinn.

Barði (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 17:26

17 Smámynd: Atli Hermannsson.

Mig minnir að í fyrrasumar hafi verið á kreiki saga um að Glitnir ætlaði ekki að standa að fullu við starfslokasamninginn við Bjarna. Því langar mig að vita áður en ég fer að brosa hringinn, hvort þessar 370 milljónir hafi ekki enn staðið út af borðinu er bankinn fór í þrot.... og því hafi ekki verið um eiginlega endurgreiðslu að ræða?

Atli Hermannsson., 6.1.2009 kl. 23:48

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki dettur mér í hug að firra Sjálfstæðisflokkinn ábyrgð. Hann ber mesta ábyrgð. En hlutskipti Framsóknarflokksins er ömurlegara, því hann átti ekki sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur að vera boðberi þeirrar taumlausu græðgi og auðhyggju sem Sjálfstæðisflokkurinn keyrði áfram.

Og Framsóknarflokkurinn var enginn eftirbátur í sjálftökustjórnmálum og spillingu en Sjallinn.

Ómar Ragnarsson, 7.1.2009 kl. 19:22

19 identicon

Takk fyrir svarið Ómar,  þú hittir naglann 100% á höfuðið í þessari viðbót.

Ef mér leyfist að grípa þessa stuttu hugrenningu á lofti, þá segir hún svo margt um hvernig hugarheimur okkar Íslendinga er.

Við gefum okkur það að Sjálfstæðisflokkurinn sé vís til að hygla velunnurum sínum og vinni leynt og ljóst að því að skapa mikil gróðatækifæri fyrir fáa og verji svo ríkjandi ástand með kjafti og klóm sama hversu ranglátt það er.

En okkur finnst það svo sárt að sjá félagshyggjuflokkanna gera það sama, samt hafa þeir sýnt okkur trekk í trekk að þeir hegða sér næstum því nákvæmlega eins þegar þeir komast að kjötkötlunum. Fyrirheitin eru fegurri og gjörðunum fylgir mikið orðagjálfur en niðurstaðan verður sú sama.

Ef við höfum þessi líkindi í huga og mátum þau saman við "stærstu" málin í íslenskum stjórnmálum. Semsagt hversu margir þingmenn eru andvígir ríkjandi fyrirkomulagi.

Kvótakerfið: Í mesta lagi 15 þingmenn vilja raunverulegar breytingar á því, Samfylkingin hefur tekið málið af dagskrá.

Virkjanamál í stærri kantinum: Ca. 10 þingmenn eru grænir fyrst og atvinnuskapandi síðar. (ekki hengja ykkur í orðalaginu)

Nato: Þeir eru fáir eftir, ætli þeir nái 10 ?

Svokölluð samtrygging stjórnmálaflokkanna: Þeir hafa allir hjálpast að við að tryggja sjálfa sig sem fasta liði á fjárlögum, ekkert bólar á opnu bókhaldi stjórnmálaflokkanna og svo mætti lengi áfram telja. Ætli það séu ekki 10 þingmenn sem raunverulega myndu vilja breyta einhverju róttæku í þessum efnum. Hinir bíða rólegir eftir sínu tækifæri til að skara eld að eigin köku í skjóli leyndarinnar.

ESB: Öllu snúnara mál en í síðustu kosningum lagði enginn flokkur áherslu á málið. Þingmennirnir sem ganga með ESB aðild í maganum slaga þó líklega í meirihluta. En takið eftir því að þeir kunna ekki við að rugga samstöðubátnum á Alþingi. Þeir leggja fram tillögur um allt milli himins og jarðar en ekkert bólar á tillögu um aðildarviðræður. Þeir ætla að bíða og sjá hvort þeir geti ekki náð 50 manna meirihluta fyrst og þá keyrt yfir litla liðið á þingi.

Svakalega þurfum við ferskt blóð á þing.

Barði (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband