6.1.2009 | 23:41
Þurfa að losa sig við...
Framsóknarflokkurinn hefur alla sína tíð róið á miðju hægri-vinstri litrófsins og því átt að vera með mikið fylgi. Því miður hefur hann alla tíð hengt sig á málefni óréttlætis og spillingar sem hafa fælt frá.
Lengi vel var það hrópandi óréttlæti kjördæmaskipunarinnar sem flokkurinn barðist fyrir og smám saman einnig sjálftökustjórmál SÍS-veldisins í helmingaskiptum við Sjálfstæðisflokkinn.
Núna er þrennt sem gerir flokkinn óaðlaðandi.
1. Sjálftökustjórnmálaspillingin sem kristallaðist í einkavinavæðingu bankanna.
2. Stefna náttúruspjalla og stóriðju, alger andstæða stefnu Eysteins Jónssonar, forystumanns flokksins um miðbik síðustu aldar.
3. Frumkvæði og fylgispekt við verstu galla kvótakerfisins.
Ef unga fólkið í flokknum gerir ekki upp við þetta þrennt sé ég enga framtíð fyrir Framsóknarflokkinn. Hann rær á svipuð miðjumið 80% kjósenda og Samfylkingin, Frjálslyndir og Íslandshreyfiingin, auk þess stóra hluta sjálfstæðismanna sem vilja hóflegt fjálsræði og samfélagskennd í verki. Framsóknarflokkurinn hefur klemmst á milli og verður að rífa sig lausan frá þeim steinrunnu afturhalds- og sérgróðaöflum sem hafa ráðið flokknum síðari ár.
![]() |
Hiti á fundi framsóknarmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.1.2009 | 20:30
Bagaleg umferðarfrekja.
Þegar umferð um Kringlumýarbraut er mest á álagstímum bitnar hin íslenska frekja á þeim sem eru svo óheppnir að vera á beygjuakreinum inn á brautina. Þá er stanslaus bílastraumur allt frá Sæbraut og suður í Hafnarfjörð og bíll við bíl.
Við þessu er svo sem lítið að gera nema að þetta bitnar sérstaklega á bílunum sem ætla inn á Kringlumýrarbrautina því að bílstjórarnir sem eru á henni hrúgast inn á gatnamótin bíll við bíl, þótt þeir lendi þar á rauðu ljósi og sjái fyrirfram að svo muni fara. Þar með þeir nær alveg í veg fyrir að þeir sem koma til dæmis eftir Háaleitisbraut og ætla að beygja til suður komist lönd né strönd.
Mér er kunnugt að víða erlendis varðar það sektum að fara inn á gatnamót ef fyrirsjáanlegt er að þar verði menn innlyksa á rauðu ljósi og komi í veg fyrir að þeir sem koma frá hlið á grænu ljósi geti notfært sér það.
Dæmi um þetta eru mörg í umferðinni í borginni, til dæmis þegar bíll er við bíl á Laugavegi. Þá er bílum, sem ekið er eftir hliðargötum er meinað að fara yfir gatnamótin. Græðir þó enginn í bílaröð Laugavegarins á því að gefa ekki eftir örlítið bil á meðan hann bíður hvort eð er.
Það sem er fyndnast við þetta er það að þeir bílstjórar sem telja sig græða á því einn daginn að þjösnast svona áfram verða síðar fyrir barðinu á sams konar þjösnaskap annarra.
Í umferðarlögum er grein sem kveður á um skyldu bílstjóra til að haga akstri sínum þannig að það greiði sem mest fyrir umferð. Brot við þessu ætti að varða sektum ef í það færi eins og um aðrar greinar umferðarlaga.
Í fyrra fóru lögreglumenn einn dag og sektuðu menn fyrir að nota ekki stefnuljós.
Það mætti senda lögreglumenn oftar til að taka til hendinni, til dæmis við aðstæður eins og skapast víða á hverjum degi á fjölförnum gatnamótum, þó ekki væri til annars en að greiða fyrir eðlilegri, réttlátri og hagkvæmri umferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)