Rússar hætta við að lána Íslendingum.

Hverjir hafna lánum? Nú, lántakendur auðvitað. Eða það hélt ég.

Lánveitendur geta ekki "hafnað láni" frá sjálfum sér og ég fæ því ekki betur séð en að fyrirsögnin "Rússar hafna láni til Íslands" sé röng. 

Það má skilja hana sem svo að Rússar hafni því að fá lán, sem Íslendingar áttu að fá.

Þeir sem "hafna" einhverju hafna gjöfum, tilboðum eða einhverju sem er beint til þeirra, - ekki frá þeim.

Rússar eru hættir við að lána Íslendingum, svo einfalt er það. 

Ef ég hætti við að senda vinum mínum jólakort þá orða ég það þannig. Ekki: Ómar hafnar jólakortum til vina sinna.  


mbl.is Rússar hafna láni til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Senuþjófar á flugsýningum.

Sukhoi orrustuþoturnar sem koma eiga til Keflavíkurflugvallar voru senuþjófar á flugsýningum í París fyrir rúmum tíu árum. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess hvílíkir snillingar flugu þessum vélum.

300px-Su-27_low_pass

Sérlega minnisstætt var þegar Bandaríkjamenn hugðust sýna einstæða fluggetu nýrrar, rándýrrar og flókinnar ofurþotu sem bar heitið X-31.

Hún kom fljúgandi í átt að flugsýningunni í París og gerði ýmsar æfingar þar sem notuð var flókin tækni byggð á því að nota hið gríðarlega afl hreyflanna til að láta vélina nær stöðvast í loftinu og standa upp á endann með tækni sem bar heitið "vectored thrust", sem útleggja má sem "fjölstefnukný." 

Á eftir þessu atriði fór Sukhoi-þotan í loftið og gerði margfalt fjölbreyttari æfingar en bandaríska ofurþotan og þar að auki í návígi við áhorfendur yfir sjálfri brautinni en ekki í órafjarlægð eins og X-31.

Tókst snillingunum sem flugu Sukhoi-þotunni með að láta hana standa nær kyrrstæða upp á endann, nokkuð sem ég hef ekki séð neina flugmenn gera á neinum af þeim orrustuþotum sem ná tvöföldum hljóðhraða í ofanálag og hafa yfir 3000 kílómetra drægi. Var þetta eitt eftirminnilegasta atriði sem ég hef séð á flugsýningum. 

Tveimur árum síðar áttu sömu flugmenn að endurtaka þetta á næstu Parísar-flugsýningu og voru áhorfendur tvöfalt fleiri en nokkru sinni fyrr, því að svo mikið orð fór af Sukhoi-atriðinu tveimur árum fyrr.

Þotan hóf sig á loft og var síðan flogið í nokkra venjulega hringi með hjólin niðri dágóða stund.

Síðan kom hún inn til lendingar og þulurinn tilkynnti: "Því miður verður ekki hægt að sýna meira flug á þessari þotu því að flugmennirnir geta ekki tekið hjólin upp !"  

Já, bilun sem jafnvel eldgamlar litlar Piper Apache vélar eru lausar við!

Framangreint bendir til að þessar þotur sem eru hreyfla með alls 30000 kílóa kný og ná yfir 3000 km hraða þurfi á góðu viðhaldi að halda.   


mbl.is Munu beita sér gegn viðhaldsstöð fyrir orrustuflugvélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í lið með Eiði.

Þetta er svo sem ekki stórt atriði en sögnin að telja og orðið talsins eru óþörf tískufyrirbrigði. 

Dæmi: Í stað þess að segja: Akureyringar eru um sautján þúsund er bætt við orðinu talsins, sem er alveg óþarft.

Enn verri er þrálát notkun sagnarinnar að telja þegar tölur eru nefndar.

Þá lítur Akureyrarfréttin svona út: Akureyri telur sautján þúsund manns sem er alger málleysa.

Við, sem fáumst við gamanmál leyfum oft púkanum í okkur að leika sér svolítið og getur hálkæringurinn orðið býsna mikill þegar menn vega hver annan í góðsemi eins og Grímur Thomsen orðaði það.

Fyrir mörgum árum fór Flosi Ólafsson frá Akureyri eftir að hafa dvalið þar um hríð og var ekki ánægður með allt hvað Akureyrardvöl sína snerti.

 

Þá gerði hann þessar tvær vísur: 

 

Frá Akureyri ég býst nú brott  / 

á bitrum vetrardegi köldum.   /  

Á Akueyri er allmargt gott   /

en ekkert þó af mannavöldum.

 

Aðra vísu gerði hann sem hann fór með í einum af spurningaþáttunum "Hvað heldurðu?"  

 

Á Akureyri um það bil   /

ekki neins ég sakna.   /

Jú, þar er fagurt þangað til   /

þorpsbúarnir vakna.  /

 

Ég gisti á Akureyri tvær nætur á dögunum og var svo óheppinn að fyrri nóttina varð mér ekki svefnsamt lengi vel vegna drykkjuláta og hávaða og flýði úr húsinu.

Þá sá ég færi á að loka þeim kersknis- sólarhring sem Flosi hafði fjallað um að hálfu leyti:

 

Á Akureyri um það bil   / 

ást mín fer að dofna.   /

Þar er ólíft þangað til   / 

þorpsbúarnir sofna.   /  

 

Hefði jafnvel getað haft vísuna svona vegna hugsanlegrar orsakar þess að hávaðanum linnti í lokin:  

 

Um Akureyri um það bil   /

ég ósofinn mun þreyja.  /

Þar er ólíft þangað til    /

þorpsbúarnir "deyja".   / 

 

Þess má geta að maður gekk undir manns hönd að bæta mér þetta ónæði upp og einnig bentu Akureyringarnir, sem allt vildu fyrir mig gera, á að fólkið, sem hélt fyrir mér vöku hefði verið aðkomufólk en ekki Akureyringar.  

Minnti það mig að vísu á fréttina í Degi hér um árið þess efnis að hundur hefði bitið mann illa á Akureyri, en fréttin endaði síðan á setningunni: "Þess skal getið að um aðkomuhund var að ræða." 

Til að jafna nú þessi mál vil ég geta þess að Akureyringar og Akureyri eru mikið eftirlæti mitt og að þar á ég ýmsa af mínum allra bestu og tryggustu vinum.

Síðastliðin sumur hef ég haft þar bækistöð í tengslum við kvikmyndagerð mína á Norður- og Norðausturlandi og mér líður alltaf vel þar.  

Auk þess svaraði ég á sínum tíma vísu Flosa með svipaðri vísu um Reykjavík og Reykvíkinga og hef gert texta um Akureyri á borð við "Nótt á Akureyri" og "Halló, Akureyri."

Ætti enginn að velkjast um góðan hug minn til norðanmanna þótt það geti komið fyrir að brugðið sé á leik til gamans.  


mbl.is Fórnarlömb skjálftans 1.115 talsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilega unnin frétt.

Fréttin um Mógölsu verður seint talin til stórra frétta. En hún er skemmtilega unnin og sýnir að matreiðsla blaðamanns getur breytt heilmiklu. Svo má kannski minnast á eina skýringu á því að sumt af fénu sé tregt til að koma af fjalli, en það er margumtöluð hlýnun loftslagsins.
mbl.is Mógolsa náði í ungan og sprækan elskhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið - Stalíngrad - Demyansk.

Ég hef sem dellukarl í öllu sem snertir Seinni heimsstyrjöldina verið að horfa á ágætar og lærdómsríkar heimildarmyndir á YouTube um hershöf'ðingja Hitlers. 

Í myndunum eru notuð síðustu tækifærin sem gefast til að ræða við aldraða afkomendur hershöfðingjanna og menn sem voru í innsta hring herjanna sem börðust til þess að varpa nýju og betra ljósi á þá og það sem gerðist. 

Margt í þessum myndum minnir á íslenska Hrunið og "hernaðinn gegn landinu" sem Laxness skrifaði svo frábæra blaðagrein um. 

Flestir hershöfðingjar Hitlers litu niður á "austurríska liðþjálfann" sem taldi sig standa jafnfætis þeim þrautreyndu og lærðu hernaðarsnillingum sem herhöfðingjarnir voru flestir.

En þeir urðu að beygja sig undir ægivald hans og verða leiksoppar þess hvernig hann notaði það til að ítrasta hvað þeir voru metnaðargjarnir og skylduræknir. Hann spilaði á það að setja þá í ónáð' á víxl, einn og einn, ef þeir mökkuðu ekki rétt, en ónáð eins þýddi að annar var í leiðinni hækkaður í tign.  

Þetta þrennt, metnaðargirni, skyldurækni og blind hlýðni getur verið baneitruð blanda og reyndist það í hernaði Þriðja ríkisins.  

Hernaður Þjóðverja varð "Hrun" eftir að þýski herinn hafði farið einstæðar sigurfarir í útrás, líkt og íslenska "Útrásin"

Leiftursóknin um Ardennafjöll í maí 1940 var fífldjarft en snillarlegt herbragð Von Mansteins sem byggðist á "element of surprise", að koma á óvart og nýta sér að því leyti fáfræði óvinarins um það sem var að gerast. 

Þetta var hliðstætt því hvernig bankabólan byggðist á því að þjóðin uggði ekki að sér eða því hvernig virkjana- og stóriðjuæðið byggist á því að þjóðin viti sem minnst um allar hliðar þess máls, einkum þá sem snýr að náttúruverðmætunum sem fórnað er.  

Á ferðum mínum síðasta áratug hef ég talað við marga ágætismenn, sem sögðu mér frá því trúnaði að þeir gerðu sér vel grein fyrir eðli þeirra framkvæmda sem þeir voru þátttakendur í en þeir "væru bara að vinna vinnuna sína, nýta menntun sína og hæfileika". 

Hershöfðingjar Hitlers hlutu margir átakanleg örlög. Hitler lét drepa Rommel og átakanleg voru líka örlög Von Paulusar sem þorði ekki að óhlýðnast Hitler og bjarga 6. hernum út úr herkvínni í Stalíngrad meðan það var enn hægtt, heldur héldu hann og hans menn í nýjar og nýjar gyllivonir og loforð um hjálp að utan. 

Minnir það ekki svolítið á það hvernig okkur Íslendingum sýndist inngripið frá Quatar og fleiri aðgerðir rétt fyrir Hrunið vera hjálp að utan sem gæti bjargað málum?

Gyllivon Von Paulusar byggðist á því að Þjóðverjum hafði tekist að halda uppi 110 þúsund manna innilokuðum her í fjóra mánuði fyrr á árinu við Demyansk milli Moskvu og Pétursborgar á ævintýralegan hátt og bjarga honum síðan úr herkvínni. 

Í staðinn innsiglaði Von Paulus dauða nær allra þeirra 300 þúsund hermanna sem voru í 6. hernum.

Rommel, Guderian, Manstein og fleiri sáu að leikurinn var tapaður vorið 1943 en samt þjónuðu þeir Hitler af fremsta megni eins lengi og þeir mögulega gátu, - þorðu ekki að rugga bátnum fremur en íslenskir ráðamenn síðasta hálfa árið fyrir íslenska Hrunið.  

Fræðimönnum ber saman um Þjóðverjar hefðu getað komist mun betur út úr hildarleiknum ef þeir hefðu komist hjá afdrifaríkum mistökum Hitlers eða óhlýðnast honum.

Íslendingar hefðu líktast til líka geta komist betur af ef brugðist hefði verið fyrr við því tryllta æði á fjármálasviðinu sem við súpum nú seyðið af.  

 

 

 


mbl.is Málin að komast á lokastig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband