2.10.2009 | 21:26
Veturinn fyrr á ferð ?
Ég var að koma til Akureyrar eftir akstur frá Reykjavík á Fiat 500 sem ég ætla að hafa við samkomuhúsið á Ólafsfirði annað kvöld þegar ég fer með grínannál síðustu hálfrar aldar
Ólafsfjörður var fyrir valinu vegna þess að árið 1959 skemmti ég þar í fyrsta sinn utan sunnanverðs Faxaflóasvæðisins.
Þetta er fortíðarfíknarferð, - eftir hálfrar aldar ferðaferil um landið er það endurtekið að fara á minnsta bíl landsins í slæmu vetrarveðri frá Reykjavík norður í land.
Mynd mbl.is af bíl í hríðarkófi lýsir aðstæðum á Öxnadalsheiði í kvöld.
Það er stundum sagt að leiðin eftir Langadal sé löng, samanber vísuna:
Ætti ekki vífaval /
von á mínum fundum /
leiðin eftir Langadal /
löng mér þætti stundum.
En Langidalurinn á ekki möguleika á móti Öxnadalnum í þessu tilliti þegar veður og færð eru eins og var í kvöld.
Ég hef haft það á tilfinningunni að undanförnu að veturinn ætli að koma fyrr og verða kaldari en undanfarnir vetur. En kannski er það bara vitleysa hjá mér.
![]() |
Óveður við Sandfell og Hvalsnes |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.10.2009 | 21:18
Verkfræðilegt afrek.
Þótt ég hafi barist gegn gerð Kárahnjúkavirkjunar og telji hana ekki hafa átt rétt á sér, tel ég að gerð hennar sé mesta verkfræðilega afrek Íslendinga. Verkfræðingum tókst að spila úr þessu geggjaða verkefni og sleppa fyrir horn og það má út af fyrir sig óska þeim til hamingu með það.
Virkjunin átti að mínu mati ekki rétt á sér vegna þess að hún olli, samkvæmt mati Rammanefndar um virkjanir, mesta mögulega umhverfistjóni sem hægt var að framkvæma á Íslandi.
Þetta var óhemju áhættusöm og flókin framkvæmd og munaði litlu að illa færi. Þegar borað var til kanna jarðlög fyrir jarðgöngin löngu var því til dæmis sleppt að kanna 5- 7 km langt misgengissvæði á miðri leið lengstu ganganna. Þar tafðist verkið um marga mánuði.
Ætlunin var að bora göngin úr báðum áttum og enda við misgengið, sem menn nýttu sér það, að þar átti að bora síðast og því ekki aftur snúið.
Þegar ég spurði talsmann Landsvirkjunar af hverju misgengið, sem sást vel úr lofti, hefði ekki verið kannað var svarið: "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var." Lýsir vel hugarfarinu að baki virkjuninni.
Ég ræddi þetta við kunnan bankamann þegar stefni í vandræðin við borunina en hann sagði að enginn banki myndi hafa áhyggjur af ríkisstryggðri framkvæmd því að "...því verr sem framkvæmdin gengur, því meira græðir bankinn."
Átti þar líklega við uppákomu á borð við þá þegar redda þurfti sjö milljarða láni með ofurvöxtum á innan við klukkustund, en þetta gerðist um það leyti sem vandræðin í göngunum voru mest.
Úr því að ráðist var í þetta verk er ástæða til að anda léttara yfir því að ófarir við framkvæmdina bættust ekki við ofan á allt annað.
Enda þetta á því að vitna beint í skjal þar sem lögfræðingur Landsvirkjunar lýsir eðli hennar:
"Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-, umhverfislegu, - og markaðslegu tilliti, - er í raun eyland í raforkukerfinu."
Það var tekin allt of mikil áhætta og í ofanálag verður virkjunin þegar fram líða stundir minnisvarði um þá skammtímagræðgi og áhættufíkn sem þjóðir heims hafa orðið vitni að eftirminnilegan hátt að ástundið var á Íslandi á árunum 2002-2008.
![]() |
Framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.10.2009 | 20:51
Ólympíuhugsjónin er hnattræn.
Ólympíuhringirnir tákna heimsálfurnar. Það er kominn tími til að færa sig um set frá þeim heimsálfum, sem eru norðan miðbaugs og halda leikana í heimshluta sem hefur farið varhluta af þeim.
Þess vegna var það tímaskekkja að Bandaríkjaforseti, sem valdamesti maður heims, hlutist til um að þeir verði eina ferðina enn haldnir í Norður-Ameríku.
Mér finnst það þess vegna gott að þessi annars frábæri forseti hafi farið sneypuför til Kaupmannahafnar. Þótt hann eigi heima í Chicago hefði ekki verið rétt að láta það hafa áhrif á staðarvalið.
Til hamingju, Ríó, Brasilía og Suður-Ameríka !
![]() |
Obama vonsvikinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2009 | 09:03
Hvað á maður að segja?
Hvað á maður að segja þegar fleiri þjóðhöfðingjar og áhrifamenn heims eru saman komnir á einum stað en dæmi eru um, til þess eins að ákveða hvort Ólympíuleikar verði haldnir í Chicago, Rio De Janero, Madrid eða í Japan?
Þetta er langur listi af prinsum og furstum, einn fyrrverandi konungur, einnig þeir Kissinger og Barack Obama, Bandaríkjaforseti.
Kastrupflugvöllur lokaður sem og Eystrasaltsbrúin !
Í desember verður haldin einhver mikilvægasta ráðstefna síðari tíma í Kaupmannahöfn, þegar þjóðir heims ráða ráðum sínum um einn mesta aðsteðjanda vanda mannkyns á sögulegum tíma.
Haldið þið að allt stórmennið, sem nefnt er til sögunnar í Kaupmannahöfn í dag, verði þá statt þar?
Nei, þannig verður það ekki.
Einu sinni var sýnd kvikmynd sem hét "It´s a mad, mad world." Já, þetta er geggjuð veröld sem við lifum í.
![]() |
Obama í Bella Center |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)