Mótsagnirnar varðandi villiféð.

Óviðeigandi lagabókstafur virðist vera það eina sem ræður aðför þeirri að villifé í Tálknanum sem nú hefur verið gerð. 

Lagabókstafurinn gildir um tamið fé, húsdýr,  og er settur af mannúðar- og dýraverndunarástæðum sem ganga út frá því að tamið fé sé ófært um að lifa veturinn af á afrétti og því beri að bjarga því öllu til byggða en ekki að láta einstakar kindur veslast upp, kveljast og deyja á fjöllum.

Öðru máli hlýtur að gegna um fjárstofn sem gengið hefur villtur úti í náttúrunni um áratuga skeið, hefur staðið af sér alla vetur og er í jafnvægi við umhverfið.

Af frásögnum smalamanna í sjónvarpi í kvöld var að heyra að þetta fé væri að þróast í þá átt að standa sig æ betur við þessar aðstæður, væri orðið háfættara en venjulegt fé og mun fimara í skriðum og klettum.

Sem bendir til þess að ástandið sé eins og gerist í hinni villtu náttúru þar sem tegundirnar laga sig að aðstæðum með árunum og jafnvægi kemst á. 

Á viðmælendum var að heyra að áhyggjuefni væri hve margir hrútar væru þarna.

Mátti draga af þeim ummælum að ærnar og lömbin hlytu þá að illa haldin og þyrfti að grípa inn í.

Nú er það svo að ekkert óeðlilegt er við það að hrútar séu margir í villifé, gagnstætt því sem er hjá tömdu fé þar sem reynt er að hafa þá sem fæsta með því að skjóta þá.

Útilokað er reyndar að þetta séu nær eingöngu hrútar því að annars myndi stofninn deyja út, en það hefur hann einmitt ekki gert !

Minnir mig á það þegar nemandi í M.R. spurði Sigurð Þórarinsson eitt sinn hvort hómósexúalismi væri ættgengur.

Sigurður svaraði samstundis: "Nei, ekki ef hann er praktiseraður eingöngu !"

Það var reynt að útrýma villifénu í Tálknanum fyrir aldarfjórðungi með því að fljúga yfir það á þyrlu og skjóta það.

Tókst ekki þrátt fyrir blóðbað. Engu skárra er að hundelta það nú og láta það lemstrast eða hrapa til dauðs eins og fregnir eru af.

Ég held að við eigum að lofa náttúrunni að hafa sinn gang. Saga villifjárins í Tálknanum sýnir að þar hefur hún verið í jafnvægi um áratuga skeið. 

 


Horft rétt fram á nef sér.

Þegar manni er svo kalt á fótunum að varla er hægt að hreyfa til vinnu utandyra þá getur nærtækasta ráðið verið að pissa í skóinn svo að hægt sé að halda áfram að vinna verk sitt og "koma hjólum atvinnulífsins af stað."

Þetta ráð svínvirkar til að byrja með en síðar verður ástandið verra en ella. Þá kemur í ljós að betra hefði verið að taka sér tíma og nudda hita og lífi í fæturna þurra.

Stóriðjuáformin syðra og nyrðra eru byggð á úreltum sjónarmiðum sem ekki eiga lengur við.

Á fyrstu áratugum stóriðjunnar voru bestu virkjanakostirnir fólgnir í svo stórum vatnsaflsvirkjunum að ekki var hægt að ráðast í þær nema hafa stóran kaupanda.

Fyrirfram var vitað hvað hver virkjun myndi skila miklu afli.

Þessu er öfugt varið hvað snertir jarðvarmavirkjanirnar eins og orkumálastjóri lýsir vel í viðtali í Fréttablaðinu í dag.

Þar er um að ræða virkjanir á mörgum virkjanasvæðum og tugum borholna sem erfitt er að sjá fyrirfram hvað skila miklu og tekur oft mörg ár að átta sig á því.

Augljóslega er því sígandi lukka heppilegust, að virkja rólega og yfirvegað og laða marga smærri kaupendur að.

Fyrir liggur áhugi margra smærri kaupenda að íslenskri orku og því núverandi stóriðjustefna, sem byggist í að leyfa risaálverum að taka heilu landshlutana í gíslingu, beinlínis skaðleg ef menn horfa aðeins lengra fram en fram yfir nokkra daga sem svonefndur stöðugleikasáttmáli verður í gildi eða ekki í gildi.


mbl.is Áform um orkuskatt endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband