10.11.2009 | 23:49
Seint í rassinn gripið.
Þjóðhetja Rússlands, Kalashnikov, segist sofa rólegur á nóttunni því að hríðskotariffill hans sé hannaður til að verja föðurlandið. Mér sýnist það svolítið seint í rassinn gripið.
Heiti riffilsins, AK-47 er dregið af því að hann var tilbúinn frá hendi höfundarins árið 1947.
Og í nafni hans felst hve fráleitt það er að hann hafi komið að þeim notum sem til var ætlast.
Mér er ekki kunnugt um að þurft hafi þennan riffil til að "verja föðurlandið" síðan 1947.
Nema það hafi verið kallað að "verja föðurlandið" að salla niður Ungverja í Ungverjalandi 1956, Afgani í Afganistan og Georgíumenn í síðasta stríði Rússlands.
Kalashnikov segir að kveikjan að því að hanna riffilinn fræga hafi verið innrás Þjóðverja í Sovétríkin 1941 og það að hann særðist illa í því stríði og átti lengi í því.
Hann segir að í raun sé það Þjóðverjum að kenna en ekki honum að Kalashnikov-riffillinn hafi orðið til, annars hefði hann hannað landbúnaðarvélar.
Gallinn á þessari réttlætingu er bara sá að "Föðurlandsstríðinu mikla" var lokið tveimur árum áður en riffillinn heimsfrægi kom fram.
Ég minnist þess enn hvað mér fannst notkun hríðskotariffla óhugnanleg þegar ég sá fyrstu stríðsmyndina sem faðir leyfði mér að sjá með sér, en hún fjallaði um hershöfðingjann Rommel.
Þetta birtist vel í atriðinu þegar hríðskotabyssum var beitt í blóðbaðinu í innrás bandamanna í Marokkó og Túnis, einkum í orrustunni um Kasserine-skarðið, síðustu orrustunni í Afríkustríðinu þar sem Þjóðverjar gerðu bandamönnum skráfveifu og stöðvuðu framrás þeirra í nokkra daga.
Munurinn á venjulegum rifflum og hríðskotarifflum eða á byssum og vélbyssum er sláandi því að með síðarnefndu vopnunum getur einn maður stráfellt marga menn á augabragði.
Þessar byssur eru fjöldadrápstæki sem hafa kostað milljónir manna lífið um allan heim og í flestum tilfellum hefur það ekkert haft með það að gera að "verja föðurlandið".
Baráttan gegn nasistum í Síðari heimsstyrjöldinni var gegn ólýsanlegri villimennsku og kannski hefði hún gengið eitthvað betur á austurvígstöðvunum ef Kalashnikov-hríðskotarifflarnir hefðu þá verið komnir til sögunnar líkt og T-34 skriðdrekarnir og Katusha-eldflaugarnar.
Hönnuðir kjarnorkusprengjunnar sögðust ekki sofa rólegir yfir því hvernir hægt væri að eyða lífi og valda þjáningumm með þessari uppfinningu þeirra og fengu sumir þeirra bágt fyrir að segja það. Fól þessi uppfinning þó öðrum þræði í sér mikla möguleika til friðsamlegra nota.
Svipað má segja um ýmsar uppfinningar sem urðu fyrst og fremst til vegna gildis þeirra í hernaði, svo sem þotuhreyflana og fjórhjóladrifsbílana. Not þessara uppfinninga urðu mikil í friðsamlegum tilgangi.
Hins vegar er erfitt að sjá að Kalashnikov-rifflarnir hafi reynst notadrjúgir í friðsamlegum tilgangi. Nema að menn noti Orwellskan hugsunarhátt og segi að drápstól séu varnartæki.
Í sporum Kalashnikov gæti ég ekki sofið rólegur vitandi það að ekki einn einasti AK-47 riffill hafi verið notaður til að "verja rússneska föðurlandið" - og jafnvel ekki heldur sofið rólegur þótt hann hefði komið að gagni við það eða ætti eftir að gera það.
![]() |
Kalashnikov Hetja Rússlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.11.2009 | 13:16
Heilög stóriðja ?
Listinn yfir fríðindi, undanþágur, afslætti og forréttindi stóriðjunnar á Íslandi er ótrúlega langur.
Í löndunum umhverfis okkur eru lagðir í auknum mæli skattar og gjöld á þá sem nota orkuna.
Það er kreppa á Íslandi og það lendir á öllum. Nei! er hrópað. Það má ekkert lenda á stóriðjunni !
Þá er það klárt. Hún á að vera heilög og ósnertanleg.
![]() |
Stóriðjuskattur óhjákvæmilegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.11.2009 | 00:38
Hugrakkur unglingur segir sannleikann.
Mesta örlagastund í lífi mínu var í frumsýningarpartíi eftir vel heppnaða Herranótt, sem var sú fyrsta sem ég lék í.
Þegar dálítið var liðið á partíið fékk ég á tilfinninguna að ég væri utangátta vegna þess að vín var haft um hönd en ég hafði fram að því aldrei bragðað vín. Allir voru svo skemmtilegir en ég fann mig ekki.
"Ætlarðu ekki að vera með og fá þér einn?" spurði einhver. Í rælni tók ég við glasi, fullu af víni og hélt því fyrir framan mig. Mér leið ekki vel. Ég skynjaði þrýstinginn á að ég yrði að verða maður með mönnum í samkvææminu og fá mér sopa.
Satt að segja ætlaði ég þarna að fá mér fyrsta sopann og vera ekki svona einn og utangátta.
Bara í þetta eina sinn og standa mig síðan betur gegn þessu næst.
Ég skil ekki enn í dag af hverju ég hætti við þegar ég hafði lyft glasinu að vörum mér og gerði mér upp erindi fram á salerni.
En þetta var mesta örlagastundin í lífi mínu. Ef ég hefði byrjað þarna hefðu verið meiri líkur en minni til þess að ég hefði ekki lifað það að komast á þrítugsaldur.
Ég var svo sem nógu villtur án áfengis á þessum árum og ég hafði gert mér grein fyrir því vegna áfengisvandamála á heimili foreldra minna að yfirgnæfandi líkur væru á því að ég myndi ekki ráða við Bakkus.
Í sjónvarpsfréttum í kvöld heyrði ég kjarkmikinn ungling segja svipaða sögu og fannst ákaflega vænt um það. Hann tók með því áhættuna af óþægilegum viðbrögðum skólafélaga sinna sem væru ekki ánægðir með frásögn hans, sem þó var aðeins staðfesting á ótal líkum sögum kynslóð fram af kynslóð.
Þegar glasið var á braut kom smám saman í ljós að ég gat alveg orðið jafn kátur án áfengis og öll hin og þetta var byrjunin á því að eiga auðvelt með að falla með trukki inn í glaðra og góðra vina hóp
Ég get ekki stært mig af því að hafa staðist freistinguna í partíinu forðum daga því að ég ætlaði að taka sopann en það var eins og einhver ósýnileg hönd bægði glasinu frá mér. Það var verndarhönd.
Ef ég hefði tekið fyrsta sopann fyrir 52 árum hefði sá unglingur sem kom fram í fréttinni í kvöld aldrei orðið til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)