Seint í rassinn gripið.

Þjóðhetja Rússlands, Kalashnikov, segist sofa rólegur á nóttunni því að hríðskotariffill hans sé hannaður til að verja föðurlandið.  Mér sýnist það svolítið seint í rassinn gripið. 

Heiti riffilsins, AK-47 er dregið af því að hann var tilbúinn frá hendi höfundarins árið 1947.

Og í nafni hans felst hve fráleitt það er að hann hafi komið að þeim notum sem til var ætlast. 

Mér er ekki kunnugt um að þurft hafi þennan riffil til að "verja föðurlandið" síðan 1947.

Nema það hafi verið kallað að "verja föðurlandið" að salla niður Ungverja í Ungverjalandi 1956, Afgani í Afganistan og Georgíumenn í síðasta stríði Rússlands.

Kalashnikov segir að kveikjan að því að hanna riffilinn fræga hafi verið innrás Þjóðverja í Sovétríkin 1941 og það að hann særðist illa í því stríði og átti lengi í því.

Hann segir að í raun sé það Þjóðverjum að kenna en ekki honum að Kalashnikov-riffillinn hafi orðið til, annars hefði hann hannað landbúnaðarvélar.

Gallinn á þessari réttlætingu er bara sá að "Föðurlandsstríðinu mikla" var lokið tveimur árum áður en riffillinn heimsfrægi kom fram.

Ég minnist þess enn hvað mér fannst notkun hríðskotariffla óhugnanleg þegar ég sá fyrstu stríðsmyndina sem faðir leyfði mér að sjá með sér, en hún fjallaði um hershöfðingjann Rommel.

Þetta birtist vel í atriðinu þegar hríðskotabyssum var beitt í blóðbaðinu í innrás bandamanna í Marokkó og Túnis, einkum í orrustunni um Kasserine-skarðið, síðustu orrustunni í Afríkustríðinu þar sem Þjóðverjar gerðu bandamönnum skráfveifu og stöðvuðu framrás þeirra í nokkra daga. 

Munurinn á venjulegum rifflum og hríðskotarifflum eða á byssum og vélbyssum er sláandi því að með síðarnefndu vopnunum getur einn maður stráfellt marga menn á augabragði.

Þessar byssur eru fjöldadrápstæki sem hafa kostað milljónir manna lífið um allan heim og í flestum tilfellum hefur það ekkert haft með það að gera að "verja föðurlandið".

Baráttan gegn nasistum í Síðari heimsstyrjöldinni var gegn ólýsanlegri villimennsku og kannski hefði hún gengið eitthvað betur á austurvígstöðvunum ef Kalashnikov-hríðskotarifflarnir hefðu þá verið komnir til sögunnar líkt og T-34 skriðdrekarnir og Katusha-eldflaugarnar.

Hönnuðir kjarnorkusprengjunnar sögðust ekki sofa rólegir yfir því hvernir hægt væri að eyða lífi og valda þjáningumm með þessari uppfinningu þeirra og fengu sumir þeirra bágt fyrir að segja það. Fól þessi uppfinning þó öðrum þræði í sér mikla möguleika til friðsamlegra nota.

Svipað má segja um ýmsar uppfinningar sem urðu fyrst og fremst til vegna gildis þeirra í hernaði, svo sem þotuhreyflana og fjórhjóladrifsbílana. Not þessara uppfinninga urðu mikil í friðsamlegum tilgangi.

Hins vegar er erfitt að sjá að Kalashnikov-rifflarnir hafi reynst notadrjúgir í friðsamlegum tilgangi. Nema að menn noti Orwellskan hugsunarhátt og segi að drápstól séu varnartæki. 

Í sporum Kalashnikov gæti ég ekki sofið rólegur vitandi það að ekki einn einasti AK-47 riffill hafi verið notaður til að "verja rússneska föðurlandið" - og jafnvel ekki heldur sofið rólegur þótt hann hefði komið að gagni við það eða ætti eftir að gera það. 


mbl.is Kalashnikov „Hetja Rússlands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef einhver vélbyssa á "heiðurinn" skilinn fyrir að verja föðurlandið þeirra góða (þó USSR var harla af því góða...en jæja), þá er það PPSh-41. Nefnd eftir Georgi Shpagin, PPS (Pistolet-Pulemyot Shpagina=Shpagina vélskammbyssa) var eitthvert mest framleidda skotvopn seinni heimsstyrjaldarinnar og spilaði líklega stærri þátt en margt annað við að hrinda innrás Þjóðverja. PPS varð annars næst-algengasta vélbyssan í þýska hernum sökum vinsælda meðal hermanna.

Wikipedia er ekki skotheld heimild, en samkvæmt þeirri síðu er PPSh-41 víst enn í þjónustu.

Húrra.

Svo skuldar Kalashnikov tilvist riffilsins síns ansi mikið þýska Sturmgewehr 44 rifflinum.

Brynjar Björnsson (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 02:37

2 identicon

Árið 1947 var ekki hægt að vita að riffillinn kæmi lítt sem ekkert að notum næstu 60 árin eða svo við að verja Sovétríkin. Þvert á móti mátti einmitt áætla að það yrðu þó nokkur not fyrir hann í því skyni. Með þessu er ég þó ekki að verja framleiðslu þessa drápstóls, sem auðvitað hefur verið framleitt fyrir alla þá sem vilja kaupa það til að verja sitt eigið "föðurland" sem samanstendur venjulega af þeirri mold sem eru hagsmunir þeirra sjálfra.

Hrímfaxi (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 07:34

3 identicon

Tja, var ekki öll útþensla USSR til varnar? Svo segja mér Rússneskir félagar í vinstri kantinum. Og er þá alveg sama hvort maður telur saman hvað er fyrir eða eftir 1947. 

En hvað um það, Sovétmenn urðu mestu vopnasalar heimsins, og það eru 10 milljón svona Ak-47 í umferð að því er talið er. Topplistinn í vopnasölu var ca svona þegar ég síðast vissi...

USSR/Rússar, USA, Bretar, Frakkar, Svíar. Hömm, Bofors ofl... Svo Þjóðverjar held ég.

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 10:34

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

1947 var ekki að sjá að nokkur þjóð hygði á innrás í Sovétríkin. Þau voru að koma sér fyrir austan járntjalds sem var að rísa og loka af ríkin, sem um hafði samist á Yalta-ráðstefnunni að yrðu á áhrifasvæði Rússa.

Vesturveldin höfðu ekkert bolmagn hernaðarlega séð að fara með her austur fyrir járntjald. Rauði herinn bar ægishjálm yfir aðra landheri á meginlandinu á þessum tíma.

Eina ógnin sem Rússum gat stafað af Vesturveldunum var kjarnorkuógnin frá Bandaríkjamönnum.

En eins og sést í pistli mínum er ég ekkert að taka Rússa út úr í þessum efnum.

Torséðar sprengjuþotur Bandaríkjamanna eru til dæmis sérhannaðar til þess að komast óséðar í gegnum ratsjárvarnir annarra þjóða til að geta valdið þar dauða og eyðileggingu.

Slík drápstól eru sögð hönnuð til að "verja föðurlandið og frelsið" og stundum þarf árásartól og áætlanir til þess að halda uppi vörnum.

Gott dæmi um það er að Hitler gat rólegur farið með rjómann af þýska hernum austur í Pólland án þess að óttast árás að vestan.

Ástæðan var sú að Bretar og Frakkar höfðu lagt sig í líma við að sýna fram á friðarást sína og það að herbúnaður þeirra væri aðeins til varnar með því að framleiða ekki stórar sprengjuflugvélar, sem hægt væri að túlka sem árásarvopn, byggja rándýra varnarlínu við landamæri Frakklands og eiga enga áætlun tilbúna til að ráðast inn í Þýskaland.

Slík áætlun með tilheyrandi árásarbúnaði var forsenda fyrir því að fæla Þjóðverja frá að ráðast til austurs.

Svona eru nú mótsagnir hernaðar og hernaðartóla miklar.

Ómar Ragnarsson, 11.11.2009 kl. 19:24

5 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

ak 47 er falleg byssa sem er synd að almenningur meigi ekki eiga sökum kommunista í stjornvöldum sem eru haldnir öfga byssuhræðslu

Alexander Kristófer Gústafsson, 12.11.2009 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband