Þetta hefur gerst áður.

Það er sjaldgæft að hnefaleikarar slái hvor annan niður samtímis en það hefur þó gerst. 

Fyrir tilviljun rakst ég á mynd af þessu á YouTube um daginn en lagði ekki á minnið hverjir voru að verki eða hvenær og hvar þetta gerðist.

Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um það að allt getur gerst í hnefaleikum.

Í bardaga Primo Carnera og Max Bear um heimsmeistaratitilinn í þungavigt 1934 sló Bear svo ótt og títt og villt til Carnera að í eitt sinn miðaði hann skakkt og hitti óvart dómarann.

Í bardaga Mike Tyson við Lou Savarese árið 2000 lét Tyson sér ekki nægja að ganga frá Savarese í horni hringsins heldur sló dómarann líka niður í leiðinni !  

Dæmi eru til um það að hnefaleikari hafi orðið svo reiður við úrskurð dómara að hann sló hann niður og má sjá það á YouTube.  

Í heimsmeistarabardaga í þungavigt 1923 slógu þeir Jack Dempsey og Luis Firpo, hið argentínska "villunaut frá Pampas", hvor annan niður alls átta sinnum í fyrstu lotunni og villinautið sló heimsmeistarann meira að segja út úr hringnum!  

Íþróttasérfræðingar völdu þessa lotu á sínum tíma sem magnaðasta íþróttaviðburð fyrri hluta hluta síðustu aldar.

Í lokin kem ég með leiðrétta frásögn sem var í upphaflega textanum í þessu bloggi þar sem mig misminnti.

Ég vil birta hér rétta frásögn svo að blogglesendur þurfi ekki að fara í athugasemdalistann, þar sem mér var bent á þetta.

Þetta atvik gerðist þegar Bernard Hopkins og Robert Allen börðust um heimsmeistaratitil í millivigt 1998.

Einn virtasti dómari þess tíma, Mills Lane ætlaði að stía köppunum í sundur nálægt horninu, en tókst ekki betur til en svo að hann ýtti Bernard Hopkins úr úr hringnum, svo að hann féll þar í gólfið og ökklabrotnaði !

Bardaginn var dæmdur ógildur fyrir bragðið en fram að þessu atviki hafði Hopkins valdið mér vonbrigðum fyrir lélegustu frammistöðu sem ég hafði séð af hans hálfu.

En hann slapp þarna fyrir horn, -  á sársaukafullan hátt að vísu, - og stóð sig meistaralega eftir þetta á öllum sínum langa ferli.  

Mills Lane var frekar lítill vexti og þess vegna ruglaði minni mitt þessu og úr varð sennilegri saga, að Lane hefði verið ýtt út úr hringnum.  


mbl.is Slógu hvor annan niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Land, tunga og þjóð.

Það er góð blanda verðlaunahafa sem fær viðurkenningu á degi íslenskrar tungu og ástæða til að óska þeim til hamingju með það.

Í tilefni dagsins læt ég fljóta hér með hugvekju sem fjallar um þá órofa einingu sem land, tunga og þjóð verður að vera í okkar kæra landi.

 

LAND, TUNGA OG ÞJÓÐ.

(Með sínu lagi)

 

Á ysta norðurhjara með auðnir, dali og fjöll  /

er eyjan bjarta og kalda sem fóstrar okkur öll.  /

Og okkur bindur böndum hið fagra föðurland  / 

með :,: firði, hraun og elfur, græn engi og fjörusand:;:  /

 

Landið mitt. Landið mitt.  /

 

Í þúsund ár og aldir vort dýra móðurmál  /

sem meitlar hugsun okkar skal greypt í þjóðarsál.  / 

Það geymir dýra arfinn á Íslands sagnaslóð  / 

og :,: einingu og samheldni veitir okkar þjóð :,:  /

 

Móðurmálið mitt. Móðurmálið mitt.  /

 

Og landi jökla og elda, sem undur heita má,  /

aldrei bregðist þjóðin sem varðveita það á.   /

Að loknu ævistarfi er leggjumst við í mold   /

var :,:líf vort helgað þjóðinni, tungu og feðrafold :,:  /

 

Þjóðin mín.  Þjóðin mín.  /

 

 Á ysta hjara þraukum við gegnum súrt og sætt.  /

Í sigri og mótbyr Ísland oss hefur fætt og klætt.  /

Í þúsund ár skal syngja í þúsund radda óð  /

að :,: þrenning ein og órofa er land mitt, tunga og þjóð :,:  /  

 

Landið mitt. Móðurmálið mitt. Þjóðin mín.  / 


mbl.is Þorsteinn frá Hamri fær Jónasarverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um farsímana sjálfa ?

P1010595

Þú heldur farsímanum þínum upp að eyranu í nokkurra sentimetra fjarlægð frá heilanum og ert þannig með rafeindabylgjur og geislun alveg upp við þetta viðkvæmasta líffæri líkamans. 

Þá vaknar spurningin: Var heilinn skapaður tll þess að búa við þetta áreiti?  Svarið er einfalt: Nei.

Á síðustu árum hefur rannsóknum á hegðun og heilsu mannsins verið sinnt mjög vel.

Hið merkilega og þó fyrirsjáanlega er, að það er sameiginlegt niðurstöðum þessara rannsókna að því nær sem við erum lífsháttum þúsunda kynslóða sem á undan okkur hafa lifað og skilað erfðaeiginleikum sínum áfram til okkar, því betur líður okkur.

Farsíminn er það nýtt tæki að það mun ekki koma fram fyrr en eftir áratugi hvaða áhrif hann hefur á heila fólks. Því miður. Þá kann að vera heldur seint að bregðast við.  


mbl.is Geislun undir mörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband