2.11.2009 | 22:06
Söknuður - vel unnin ævisaga.
Um helgina varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að lesa yfir ævisögu Vilhjálms Vilhjálmssonar, sem ber nafnið "Söknuður."
Með þessari bók stígur Jón Ólafsson sitt fyrsta stóra skref sem rithöfundur eftir því sem ég best veit og mér sýnist hann hafa unnið afar gott verk og að baki þessari bók liggi gífurleg vinna og vandvirkni.
Vilhjálmur lést fyrir 31 ári og því hefur verið erfiðara að skrifa þessa bók en ævisögu lifandi manns.
Það sést á upptalningunni í bókarlok að Jón hefur talað við amk 70-80 samtíðarmenn Vilhjálms til þess að viða að sér efni í bókina. Með þessari gríðarlegu rannsóknarvinnu tekst honum að samhæfa vitnisburðina um Vilhjálm og þá sem honum stóðu næst svo að úr verður skýr og traust mynd.
Með því að vinna þetta verk svona vel hefur honum tekist að draga fram dýpri og betri mynd af Vilhjálmi og hæfileikum hans en fólki almennt var eða hefur verið kunnugt um.
Í bókinni kemur ýmislegt fram sem kemur á óvart og er stundum á skjön við það sem margir halda, samanber tilurð ljóðsins "Söknuður."
Mér sýnist auðséð að Jón Ólafsson hafi verið rétti maðurinn til að vinna þetta vandasama verk, ekki síst vegna þess hve vel hann nýtir sér eigin þekkingu og reynslu á sviði tónlistar undanfarna áratugi.
Hann opnar lesendum heim að þessu leyti.
Bókin er því ekki aðeins gríðar góð lýsing á manninum Vilhjálmi Vilhjálmssyni, heillandi mannkostum hans og veikleikum og full af dramatískum viðburðum í stuttu lífi hans, heldur er þetta tímamótaverk hvað snertir þá glöggu mynd, sem hún gefur af tónlistarlífinu á árabilinu 1960-80 á sviði svonefndrar dægurtónlistar sem þó er erfitt að alhæfa um með slíku nafni.
Ég tel mér því óhætt að mæla með þessari bók og óska höfundi hennar til hamingju með hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2009 | 14:57
Svona, fáðu þér einn !
Ég er bindindismaður og ek um á bíl með númerið "Edrú". Börnin mín gáfu mér númerið þegar ég varð sextugur.

Eftir hálfrar aldar feril sem skemmtikraftur er mér fullljós stemningin á bak við íslensku setninguna: "Svona fáðu þér einn!"
Þessi setning lýsir ákveðinni fjöldasefjun og á því vel við um það þegar áhættu- og kúlulánum var haldið að Íslendingum leynt og ljóst á tímum "gróðærisins."
Í athugasemd við bloggpistil í fyrradag er beðið um að ég birti texta við lag undir þessu nafni og segir sá sem athugasemdina gerir, að hann hafi heyrt mig syngja þetta lag á skemmtun.
Ég held textunum sem ég syng á skemmtunum yfirleitt til einkanota en það er svosem útlátalaust í þetta skipti að láta hann flakka svona prívat, þótt ég haldi fast við höfundarrétt minn að honum og einkarétt til flutnings og söngs.
Mér finnst hugsunarhátturinn í honum eiga svo vel við tímana sem við höfum lifað undanfarin ár.
SVONA FÁÐU ÞÉR EINN !
(Með sínu lagi)
Komdu nú og vertu kátur með mér, /
svona fáðu þér einn ! /
Fylleríisbyrjun oft svona er: /
Svona fáðu þér einn ! /
Þetta er mjög svo þjóðlegur siður /
og þótt margur deyi´eins og steinn /
eru síðustu orðin sem að hann man: /
"Svona, fáðu þér einn !"
Um allan bæ er bruggaður ágætis bjór /
Svona, fáðu þér einn !
Og ennþá betri landi, fínn fyrir þjór, -
svona, fáðu þér einn ! /
En ef löggan kemst í allt þá auðvitað spyr hún: /
"Er þetta vínandi hreinn?"
"Tékkaðu´á því sjálfur", segir bruggarinn þá, -
"svona, fáðu þér einn !"
"Shorta-fáðér-kondara" var sagt um nótt, -
"svona fáðu þér einn !"
En fýrinn var slappur þótt hún seiddi hann ótt: /
"Svona, fáðu þér einn !"
Í hjálpartækjabankann hún hraðaði för
og við henni tók afgreiðslusveinn
og sagði: "Hérna´eru "draumaprinsarnir", fagra frú, -
svona fáðu þér einn !"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.11.2009 | 13:43
Þeir litlu troðast undir.
Eldur braust út í hinu alþjóðlega fjármálakerfi árið 2008. Nota má tvenns konar samlíkingar um það sem gerðist þegar reynt var að berjast við eld sem braust út í því vegna þess að óvarlega var farið með mikinn eldsmat.
Fyrri samlíkingin er sú, að þegar flótti brestur á í mannfjölda inni í logandi byggingu myndast troðningur þar sem hver reynir að bjarga sér eftir bestu getu. Þá gerist það oft að hinir minnstu troðast undir.
Í hinni alþjóðlegu efnahagssvallveislu höfðu Íslendingar hagað sér eins og þeir væru 20-100 sinnum stærri þjóð en þeir eru. En þjóðin var of lítil til að ráða við bankakerfi sem hafði orðið tíu sinnum stærra en hagkerfi þjóðarinnar. Því fór sem fór.
Það má líka líkja íslenska þjóðarbúinu við lítið hús, sem var sambyggt við nokkur risastór stórhýsi, sem í var mikill eldsmatur. Mesti eldsmaturinn var þó í litla húsinu. Þegar eldur braust út og læsti sig í allar byggingarnar kom í ljós að brunavarnirnar voru lélegastar í minnsta húsinu með langmesta eldsmatinn. Því fór sem fór.
![]() |
Biðu sömu örlaga og Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)