Breytt nafn vegna hættu á einelti.

Ekkert er nýtt undir sólinni samanber einelti gegn rauðhærðum þessa dagana.

Ég kannast við þetta. Þegar ég fæddist kom það öllum í opna skjöldu að ég var eldrauðhærður. 

Hvorki foreldrar mínir né forfeður og formæður voru með þennan háralit, en þó fannst rautt hár í báðum ættum.

Ég var fyrsta barn foreldra á táningsaldri og átti að skíra mig í höfuðið á móðurömmu og afa, sem hétu Ólöf Runólfsdóttir og Þorfinnur Guðbrandsson, - átti að heita Ólafur Þorfinnur Ragnarsson. 

En foreldrar mínir óttuðust að ég fengi viðurnefnið "rauði" og yrði kallaður Óli rauði til aðgreiningar frá öðrum með því algenga nafni. Það gæti aukið hættuna á einelti.

Þau gripu því til þess ráðs að nefna mig Ómar. Það nafn var svo sjaldgæft á þeim tíma að það var ekki fyrr en við Ómar Konráðsson urðum fullorðnir að nafnið sást í símaskránni.

Nafnið var það sjaldgæft að aldrei þurfti að bæta viðurnefninu "rauði" við það og ég varð aldrei fyrir einelti vegna háralitsins.

Mér var fyrstu árin að vísu nokkur ami að því á stundum að heita svona sjaldgæfu nafni og fá viðbrögð við því þegar ég var spurður nafni og fólk hváði: "Hvað, heitirðu Ómar? Ómar Kayam? Ómar Bradley?

Ómar Bradley var einn af helstu hershöfðingum Bandaríkjamanna og var sífellt í fréttinum þegar ég var 4-5 ára.

Eftir því sem árin hafa liðið hef ég orðið foreldrum mínum æ þakklátari fyrir nafngjöfina.  


mbl.is Einelti gegn rauðhærðum í tilefni dagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur Egils ?

Egill Skallagrímsson er talinn hafa verið upp um það bil frá 910-990.

515783A

Það er því hægt að gamna sér við það að silfurmyntin, sem fannst á Þingvöllum í vor og getur hafa borist til Íslands fyrir 990, sé hluti af silfursjóði Egils, sem hann íhugaði að dreifa yfir þingheim til þess að sjá almennilegan bardaga áður en hann sneri tánum upp.

Hann hefur kannski gert smá prófun og kastað nokkrum silfurpeningum upp í loftið til að kanna viðbrögðin, áður en hann ákvað, hvort hann ætti að láta allan sjóðinn gossa eða grafa hann og fela eins og sagt er að hann hafi gert.

Skemmtileg pæling hjá Agli og minnir á söguna af séra Árna Þórarinssyni, sem var lítt hrifinn af þáverandi biskupi, sem Árni sagði getað "afkristnað heilt sólkerfi."

Presturinn í Stykkishólmi var þá kominn með elliglöp og var sagt að þegar hann sigldi inn til New York í síðustu utanlandsferð sinni hafi honum orðið að orði: "Ansi eru þeir búnir að byggja mikið í Hólminum."

Skömmu síðar hitti séra Árni vin sinn, sem var kunnugur prestinum gamla í Hólminum, og spurði Árni hvernig sá gamli hefði það.

Fékk hann þau svör að það væri farið að slá verulega útí fyrir honum. Honum hefði til dæmis verið sagt að halda ætti mikla hátíð á Þingvöllum og að þar yrði mikið stórmenni, meðal annars biskupinn.

En gamli Stykkishólmspresturinn misskildi þetta eitthvað og endursagði þetta þannig að til stæði að drekkja biskupnum á Þingvallahátíðinni. 

Þegar séra Árni heyrði þetta sagði hann: "Já, er hann svona ruglaður, gamli maðurinn?  En hugmyndin var góð!"  

  

 


mbl.is Silfurmynt frá 10. öld á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þó er allt stopp.

Í heilt ár hafa yfirlýsingar og fréttir vegna hugsanlegra og mögulegra lánveitinga til Íslendinga verið misvísandi og óljósar.

Allan þennan tíma hefur hugarástand margra Íslendinga verið þessu líkt:

 

Aðþrengdur landinn hátt nú hoppar. /

"Helvítis flopp!  /

Það er enginn sem þetta stoppar  /

en þó er allt stopp !"


mbl.is Segir norska lánið til reiðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband