Röng stefna í 30 ár.

Vestfirðingar súpa enn seyðið af rangri stefnu í samgöngumálum í 30 ár. Allir aðrir landshlutar eru með flugvelli sem hægt er að nota að degi sem nóttu. Og heilsársvegir liggja til allra annarra landshluta.

Vestfirðir eru á sama stigi og aðrir landshlutar voru fyrir meira en hálfri öld. 

Upphaf þessa var sú ranga ákvörðun um 1980 að leggja áherslu á hinn óralanga Djúpveg austur á Strandir og þaðan suður í stað þess að leggja áherslu á leiðina um Dali og Gilsfjörð. 

Við þetta færðist öll áhersla frá suður- og suðvesturhluta Vestjarða. 

Íbúar Þingeyrar sem ætla akandi til Reykjavíkur hafa þurft að vetrarlagi að aka fyrst í áttina frá Reykjavík og síðan hvað eftir annað í áttina frá Reykjavík á leið út eftir öllum fjörðunum við Ísafjarðardjúp, þvælast síðan austur á Strandir og suður um Hrútafjörð. 

Við það eitt að fara Arnkötludal styttist leiðin um hvorki meira né minna en 40 kílómetra og væri talsvert styttri en það ef farið væri vestur fyrir. 

Næst var sú ranga forgangsröðun, sem hefur tafið gerð jarðganga og heilsársvegar milli norður- og suðursvæðisins á meðan gerð hafa verið jarðgöng annars staðar á landinu þar sem voru þegar komnir heilsársvegir og nútíma flugsamgöngur. 

Nú er mikið fjaðrafok réttilega yfir töf á gerð nýs vegar á 24 kílómetra kafla við norðanverðan Breiðafjörð. 

Það var fyrirsjáanlegt fyrir löngu að þarna þyrfti að ganga frá undirbúningi á skaplegan og yfirvegaðan hátt samkvæmt gildandi lögum en það var samt ekki gert. 

Þegar menn drattast loks til að koma þessu af stað er sökinni velt á þá sem þurfa að láta þetta mál ganga eftir eðlilegum reglum í stað þess að spyrja: Af hverju var ekki búið að hefja þennan undirbúning fyrir löngu? 

Heilsársvegur milli norður- og suðursvæðis gerbreytir möguleikum til nútíma flugsamgangna við Vestfirði því að þá verður hægt að fljúga til Vestfjarða jafnt að nóttu sem degi svo framarlega sem gerð verður gangskör að því að koma upp slíkum flugvelli, annað hvort með því að bæta Patreksfjarðarflugvöll eða gera snotran flugvöll við Brjánslæk eða Haga. 

Raunar er Bíldudalsflugvöllur stórgóð bót á samgöngum fyrir Ísfirðinga ef þangað liggur heilsársvegur því að sá flugvöllur er oft opinn þótt allir aðrir flugvellir á norðanverðu landinu séu lokaðir í norðanhríð. 

Það er allt á sömu bókina lært. Ég skil til dæmis ekki hvers vegna brautin á Patreksfirði hefur verið stytt og þar með til dæmis komið í veg fyrir að sæmilega stórar flugvélar geti lent þar. 

Á sínum tíma voru færð að því ágæt rök hvernig hægt væri að koma leiðinni milli Þorskafjarðar og Kollafjarðar í gott horf án þess að rista upp eftir endilöngu og stórskemma Teigskóg, stærsta birkiskóg Vestfjarða og mikilsverðan hluta í því verðmæta lífríki og náttúrufari sem er aðall Breiðafjarðar. 

Menn kusu hins vegar að fara strax ofan þær í skotgrafir með þetta mál að stilla því þannig upp að ekkert annað kæmi til greina en að fórna Teigsskógi.

 


mbl.is Heilsársvegur milli norður- og suðursvæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara ef fleira breyttist.

Samvinnuhreyfingin var hugsjónahreyfing umbótasinnaðra manna og Framsóknarflokkurinn var það líka í upphafi ferils síns.

Stefna Framsóknarmanna var skynsamleg og nauðsynleg á þeim tímum þegar fasismi og nasismi sem stefndu á stríð og kynþáttakúgun voru á aðra höndina og kúgun, ófrelsi og mannfórnir kommúnismans á hina. Hinn óhefti kapítalismi beið skipbrot í Bandaríkjunum og var ekki fýsileg lausn.

En fljótlega eftir að Framsóknarmenn komust í valdaaðstöðu sem var langt umfram fylgi þeirra vegna ranglátrar kjördæmaskipunar seig á ógæfuhlið hjá flokknum.

Í svonefndri þjóðstjórn 1939 kom í ljós að sterkir sameiginlegir hagsmunir kölluðu á myndun þess sem síðar kom betur fram í helmingaskiptastjórnunum 1950-56, 1974-78 og 1983-1987.

Ég er fús til að játa það að allt frá því ég fór að fylgjast með stjórnmálum um 1950 langaði mig til að kjósa heilbrigðan og umbótasinnaðan miðjuflokk.

Ég var að miklu leyti framsóknarmaður í hjarta mínu en gat ekki kosið flokkinn með þessu góða nafni vegna þeirrar spillingarlyktar sem ávallt var af honum.

Nú er flokkurinn góðu heilli að skipta út forystunni bæði á landsvettvangi og vettvangi borgarinnar en nú er það stóriðjustefnan sem heldur áfram velli og færist jafnvel í aukana ef eitthvað er.

Bara ef fleira breyttist en forysta flokksins.


mbl.is Einar sigraði Óskar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ?

Saga Maríu Jóhannsdóttur, sem flaug í sumar yfir vettvang mikils flugslyss, sem hún slapp við fyrir 62 árum, minnir mig um sumt á sögu af stúlku, sem var að fara um borð í litla flugvél frá Akureyri sem fara átti með þrjá farþega frá Akureyri til Lauga á sjötta áratugnum. 

Hún stóð við flugvélina og búið var að setja farangur hennar inn í farangursgeymsluna, sem var aftast í vélinni, þegar hún fékk svo sterkt og óþægilegt hugboð að hún hætti við að stíga upp í vélina. 

Henni var bent á að farangurinn væri kominn inn og svo erfitt yrði að ná í hann aftur að það yrði ekki gert. Hér til hliðar er mynd af flugvél af þessari gerð, en á þessum tíma var engin lúga á farangursgeymslu véla af þessari gerði og því ekki hægt að setja farangur í farangursgeymsluna nema að handlanga hann inn um hliðarhurð og yfir aftursætið. 

300px-Cessna.180a.g-btsm.arp

Hún breytti þó ekki ákvörðun sinni heldur lét sætið öðrum eftir og lét sig farangurinn engu varða. 

Þetta var að vetrarlagi og gekk á með éljum.  

Vélin fórst í Vaðlaheiði í svonefndu Bíldsárskarði, sem er gegnt Akureyrarflugvelli og blasir við frá vellinum, aðeins örfáa kílómetra frá honum. 

Allir fórust en farangur stúlkunnar, sem hætti við, fékk hún óskemmdan í hendur. 

Þessi atburður hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á þessa konu, ekki síst vegna þess að munurinn á hennar sögu og sögu Maríu Jóhannsdóttur er sá, að sú manneskja, sem sæti hennar tók, fórst en ekki hún. 

Slíkt lætur engan ósnortinn.

Hún flaug ekki aftur með lítilli flugvél fyrr en meira en tuttugu árum síðar þegar ég flaug með hana frá Reykjavík til Kirkjubæjarklausturs og til baka aftur. 

Hún segist ekki geta útskýrt af hverju hún hætti við það á síðustu stundu að fara upp í flugvélina forðum daga og hefði meira að segja verið svo ákveðin að hún hefði ekki látið farangurinn hafa áhrif á þá ákvörðun. 

Af hverju? Af hverju í þetta sinn? Á því er engin skýring. 

 


mbl.is Flaug yfir slysstaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband