Af hverju ?

Saga Maríu Jóhannsdóttur, sem flaug í sumar yfir vettvang mikils flugslyss, sem hún slapp við fyrir 62 árum, minnir mig um sumt á sögu af stúlku, sem var að fara um borð í litla flugvél frá Akureyri sem fara átti með þrjá farþega frá Akureyri til Lauga á sjötta áratugnum. 

Hún stóð við flugvélina og búið var að setja farangur hennar inn í farangursgeymsluna, sem var aftast í vélinni, þegar hún fékk svo sterkt og óþægilegt hugboð að hún hætti við að stíga upp í vélina. 

Henni var bent á að farangurinn væri kominn inn og svo erfitt yrði að ná í hann aftur að það yrði ekki gert. Hér til hliðar er mynd af flugvél af þessari gerð, en á þessum tíma var engin lúga á farangursgeymslu véla af þessari gerði og því ekki hægt að setja farangur í farangursgeymsluna nema að handlanga hann inn um hliðarhurð og yfir aftursætið. 

300px-Cessna.180a.g-btsm.arp

Hún breytti þó ekki ákvörðun sinni heldur lét sætið öðrum eftir og lét sig farangurinn engu varða. 

Þetta var að vetrarlagi og gekk á með éljum.  

Vélin fórst í Vaðlaheiði í svonefndu Bíldsárskarði, sem er gegnt Akureyrarflugvelli og blasir við frá vellinum, aðeins örfáa kílómetra frá honum. 

Allir fórust en farangur stúlkunnar, sem hætti við, fékk hún óskemmdan í hendur. 

Þessi atburður hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á þessa konu, ekki síst vegna þess að munurinn á hennar sögu og sögu Maríu Jóhannsdóttur er sá, að sú manneskja, sem sæti hennar tók, fórst en ekki hún. 

Slíkt lætur engan ósnortinn.

Hún flaug ekki aftur með lítilli flugvél fyrr en meira en tuttugu árum síðar þegar ég flaug með hana frá Reykjavík til Kirkjubæjarklausturs og til baka aftur. 

Hún segist ekki geta útskýrt af hverju hún hætti við það á síðustu stundu að fara upp í flugvélina forðum daga og hefði meira að segja verið svo ákveðin að hún hefði ekki látið farangurinn hafa áhrif á þá ákvörðun. 

Af hverju? Af hverju í þetta sinn? Á því er engin skýring. 

 


mbl.is Flaug yfir slysstaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar spyr af hverju. En svona á maður ekki að spyrja. Hér eru það ekki náttúrulögmálin sem stjórna ferðinni, til allra hamingju. Þeirra veldi er víst nógu mikið. Við erum frjáls ferða okkar, tökum eitt skref áfram, til baka eða til hliðar. Fljúgum í 4000 feta hæð, 5000, 6000 og hvert fet getur skipt sköpum. Varðandi flugslysið væri nær að spyrja af hverju flugi þeir í þessari hæð. Flugu þeir yfir fjallgarð án þess að vita hæð hans? Og varðandi flugslysið við Hestfjall. Af hverju flugu þeir svona vestanlega inn í Eyjarfjörðinn. Svar eða tilgátur við þessum spurningum gætu komið í veg fyrir slys, en ekki vangaveltur um örlög eða hundurvitni.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.11.2009 kl. 18:20

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Líklega á enginn nú fljúgandi flugmaður að baki jafn mikið af sjónflugi við erfiðar aðstæður um allt land og ég.

Skýringin á því sem gerðist yst í Héðinsfirði er þessi: Skyggnið var það lélegt að engin leið var að fljúga af viti inn Eyjafjörð nema fylgja vesturströndinni, sjá hana og hafa til viðmiðunar.

Þess vegna var flogið með ströndinni inn Héðinsfjörð, en þegar komið var inn með Hestfjalli var skyggnið greinilega orðið of lélegt og flugmennirnir ákváðu að snúa við.

Þeir voru líkast til það nálægt fjallinu að þeir gátu aðeins snúið við með því að beygja frá ströndinni og fara í rúmlega 180 gráðu vinstri beygju til þess að koma til baka að ströndinni.

Þetta var gríðarlega vandasamt og þurfti mikla nákvæmni við það vegna þess að þeir höfðu ekkert að miða við nema sjóinn.

Skyndilega birtist fjallið beint fyrir framan þá þar sem þeir komu til baka og þeir reyndu að rífa vélina upp en það var um seinan.

Á löngum ferli við mjög misjöfn skilyrði hef ég notað eina meginreglu þegar skyggnið er að detta niður.

Ef ég fylgi strönd eða vegi held ég mig það fjarri ströndinni eða veginum, að það samsvari því rými sem ég þarf til að snúa við. Það má alls ekki víkja frá þessari reglu ef halda á örugggu sjónflugi.

Á þennan hátt fylgist ég betur með skyggninu til hliðar, en það er höfuðatriði ef snúa þarf við.

Sé skyggnið að fara niður fyrir þessa vegalengd, sný ég við í ÁTTINA AÐ ströndinni, sem kemur þá betur í ljós, EKKI FRÁ henni eins og flugmennirnir virðast hafa gert í Héðinsfirði.

Ég lendi eftir snúninginn á alveg upp við ströndina og flýg til baka en vík mér að sjálfsögðu aftur nógu mikið til hliðar til að halda mig við fjarlægðarregluna fyrrnefndu.

Síðan verður þar að auki að vera fyrir hendi plan C, það er að beygja út á auðan sjó og hækka flugið í blindflugi í átt að hindranalausu fjarðarmynninu.

Hugsanlegt er að flugmennirnir hafi ætlað að nota aðferð mína, þ. e. að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá ströndinni og beygja INN að henni þegar snúið var við, en misreiknað fjarlægðina og ekki náð beygjunni.

Þetta tel ég ólíklegri skýringu vegna þess að svo reyndir flugmenn hljóta að hafa vitað hvað vélin þyrfti víðan snúningshring.

Hvað Bíldsárskarðið snertir er ómögulegt að vita hvað gerðist úr því að það var éljagangur og ekkert flug er eins vandasamt og flug að vetrarlagi í lélegu skyggni, vegna þess að hvít jörðin, skýin og snjókoman eða élin renna saman í eina hvíta súpu.

Þess má þó geta að séð frá Akureyrarflugvelli sýnist skarðið mun lægra en það raunverulega er.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2009 kl. 20:22

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svar við því hvers vegna ég spyr: Af hverju?

Ákvörðunin um að hætta við flugið og verða viðskila við farangurinn var ekki tekin af neinni skynsamlegi ástæðu.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2009 kl. 20:25

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Er ekki líklegast að þarna hafi ótti ráðið för og þá ekki hvað síst í ljósi þess að meira en tuttugu ár liðu þar til hún fór aftur upp í smáflugvél.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 28.11.2009 kl. 21:55

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var þá mjðg skyndilegur ótti því búið var að hafa fyrir því að handlanga farangur hennar eftir endilangri vélinni þegar hún tók þessa afdrifaríku ákvörðun.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2009 kl. 22:50

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Óttinn við smáflugvélar byrjaði á þessu augnabliki og mjög eðlilegt var í ljósi þessarar hræðilegu minningar að hún héldi sig frá litlum vélum eftir þetta.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2009 kl. 22:51

7 identicon

Sumt reynir maður ekki að skýra.

Hvernig er það Ómar, ætlarðu ekki að fara að taka saman þessa reynslu þína af sjónflugi og skrá hana niður?

Ég las nýlega á blogginu þínu að þú segist vera mjög næmur fyrir "húslofti", gætir jafnvel gert að atvinnu að greina gæði loftræstingar. Ef þú stofnar fyritæki um þetta, mun það þá ekki heita; Gáttaþefur ehf?

Bestu kveðjur.

Bjarni Gunnlaugur (Bjarni G.) (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband