Förum í "meðferð."

Kanarí 15. feb´09Kanarí 15. feb´09

Þegar fíkillinn hefur eyðilagt líf og eigur sínar og sinna nánustu og liggur í svaðinu öðlast hann oft dýrmætasta tækifæri lífs síns. Sumir sem hafa upplifað þetta segja að ef þeir hefðu ekki farið svona langt niður í svaðið hefðu þeir aldrei getað unnið bug á vandamálum sínum. 

Lykillinn að endurreisninni felst nefnilega í því að viðurkenna vanmátt sinn og raunverulegt ástand og leita hjálpar með því að fara í meðferð á meðferðarstofnun og fá eftir það sérstakan hjálparaðila eða "sponsor" sem hefur úrslitavald um erfiðar ákvarðanir.                                       eins og til dæmis þær að forðast Þar getur til dæmis verið um að ræða hvort fíkillinn eigi að taka þá áhættu að fara á ákveðnar samkomur þar sem of mikil neysla er í gangi. 

Stærsta lykilatriðið er þó að fíkillinn vilji þetta sjálfur og vinni bug á afneitun sinni. Enginn getur gert það fyrir hann. 

Síðan í haust höfum við séð þetta allt hjá okkur sem þjóð. Afneitunin hefur verið mikil svo sem sú að við getum gert þetta ein og óstudd án þess að leita til útlendinga um hjálp. 

 

IMF er nokkurs konar Vogur og vinaþjóðir hjálparaðilar. Ein tegund afneitunarinnar var sú að hjálparaðilarnir myndu hlaupa til og láta okkur hafa afréttara án þess að Vogur kæmi nærri. 

Þegar þetta gerðist ekki voru aðrar þjóðir með tölu, að undanteknum Færeyingum, taldir til óvinaþjóða. 

Meðferðin kostar mikið átak og fórnir. En framtíðin sem getur blasað við okkur er björt. Við erum til dæmis hugsanlega eina þjóðin í heiminum sem getum knúið samgönguflota okkar til sjós og lands á innlendum og endurnýjanlegum orkugjöfum og verið óháð útlendingum um það. 

En þá verðum við að taka þær orkulindir frá sem við kunnum að þurfa til þess arna í stað þess að stefna að því að allri orkunni verði ráðstafað til stóriðju samfara eyðileggingu á mestu verðmætum landsins, einstæðri náttúru sem er í hópi mestu undra heimsins. 

Myndirnar hér að ofan eru annars vegar af fellegri styttu í bænum Aguimes á Gran Canaria sem varð á vegi okkur í dag á svæði þar sem geitarækt skipar mikinn sess.

Hin myndin er af vettvangi úr sögu sem ég er með í smíðum og gerist á Íslandi, ítalíu, Kanaríeyjum og víðar, en í dag og í gær hef ég verið í nauðsynlegum vettvangsrannsóknum sem tengjast þessari sögu. 

 

 


mbl.is Aldrei of blönk til að hugsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli á Kanarí.

Ég var að blogga um það að ég teldi að mótmæli og helgjardjamm færu ekki saman. Hér á Kanarí stendur einn ágætur Framsóknarmaður fyrir vikulegum fundum á Klörubar um stjórnmál. Þangað koma þeir sem hafa áhuga á þeim málum, rökræða þau á ánægjulegan hátt og veita áhuga sínum útrás.  

Í gærkvöldi fórum við hjónin í tilefni 48 ára afmælis kynna okkar með systur hennar, sem aldrei hefur komið fyrr á Kanarí. Við fórum út á tvo skemmtistaði í leiðsögn vinahjóna okkar. 

Þau buðu okkur inn á krá þar sem við settumst við borð og fórum að ræða um hugðarefni okkar og skemmtileg málefni. Þetta átti að verða yndisleg og hljóðlát samverustund, enda sat kurteist og prútt fólk við næstu borð.En Adam var ekki lengi í paradís. 

Af næsta borði stendur upp maður, kemur yfir að borði okkar án þess að heilsa okkur eða kynna sig, heldur hellir formálalalaust yfir mig úr skálum reiði sinnar yfir því hver óþurftarmaður ég sé. Kveðst hann hafa átt heima erlendis í átján ár og eigi því mikið vantalað við mig um mína pólitík. 

Vinafólk mitt við borðið hefur hins vegar ekki minnst á pólitík þessa daga hér og fannst maður þessi ekki eiga neina heimtingu á því að starta háværu rifrildi við borð okkar í stað huggulegrar samræðu á Valentínusardaginn. 

Ég bað hann um að virða rétt fólksins, sem hefði boðið mér að borðinu en hann espaðist því meira. Ég bað hann þá um að greina stuttlega frá ásökunum sínum en hann hóf þá mikla langloku um það hvernig ég hefði verið í gamla daga og gat alls ekki komist lengra að efninu.

Vinafólk mitt var ekki ánægt með þá kröfu mannsins að breyta samveru okkar þarna í pólitískan fund tveggja manna og benti manninum á að haldnir væru sérstakir fundir vikulega hér á Kanarí um pólitík. 

Maður sagðist ekki eiga þess kost að fara á þessa fundi og því ætti hann heimtingu á þessum einkafundi mínum og hans hér og nú. Mótmælti hann hástöfum því, hve merkilegur ég þættist með mig, - hvað ég héldi eiginlega að ég væri og svo framvegis. 

Hann taldi samt greinilega að við tveir hefðum rétt til að valta yfir vilja hjónanna, sem höfðu boðið okkur þarna inn til að eiga huggulega kvöldstund. Gilti einu þótt ég segði honum að við hefðum ekki farið suður til Kanaríeyja til að rífast alla daga um pólitík. Það gætum við gert heima á Íslandi en gerðum það þó ekki þar.

Þegar vinafólk mitt sagði manninum að það teldi hann vera með dónaskap og frekju, stóð upp kona við borð mannsins, kom yfir að okkar borði og tók hraustlega undir málflutning hans.

Sáum við þá okkar óvænna og stóðum upp og fórum út. Kváðu þá við fagnaðarlæti þeirra sem sátu við borðið sem maðurinn hafði setið við. Honum hafði greinilega tekist að hreinsa staðinn af óæskilegri viðveru mín og samferðafólks míns, þess mikla gæðafólks sem mér vitanlega hefur aldrei verið til neinna vandræða, hvað sem um mig má segja. 

Ég hygg að flestir Íslendingar hafi lent í svona uppákomum, bæði heima og erlendis. Þetta er nú víst einn af óhjákvæmilegum fylgifiskum þess að vera Íslendingur.   


Mótmæli og helgardjamm fara ekki saman.

Þegar mótmælin stóðu sem hæst á dögunum og voru fjölmennust voru þau um hönd höfð um miðjan dag af friðsömu hugsjónafólki með mátt hugmynda sinna og samstöðu fjöldans sem helsta vopnið. Þau voru eftirminnileg og verða færð í sögubækur.

Þá var það niðurstaða þeirra sem vildu veg þessara mótmæla sem mestan að halda þeim í þessu horfi en ekki að gera þau að parti af helgardjammi, ölvun og óróa í næturlífi miðborgarinnar.

Ég er einn af þeim sem tók þátt í hinum fjölmennu og friðsömu mótmælafundum og er í hópi þeirra sem telja mótmælaaðgerðir á borð við þær sem stóðu yfir í kvöld ekki vera af því tagi sem ég vil vera orðaður við eða taka þátt í. 

Hvers vegna í ósköpunum getur fólk, sem telur skyldudjamm helgarinnar ómissandi ekki bara skemmt sér án þess að blanda mótmælaaðgerðum inn í það ? 

 

 


mbl.is Mótmælt á Lækjartorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónukjör í kosningum væri eðlilegast.

Nú sést vel hve óheppilegt það er að ekki skuli vera viðhaft persónukjör í kosningum hér eins og til dæmis í Finnlandi. Uppstillingaraðferðir á borð við prófkjör og kjördæmisþing hafa reynst meingallaðar, en í kjörklefanum kæmist hver kjósandi viðkomandi lista í beint og ótruflað samband við þá sem í framboði eru ef persónukjör væri viðhaft.

Þar kæmi hið raunverulega traust sem kjósendur hafa á frambjóðendum fram. 

Forystufólk flokkanna sem nú eiga fulltrúa á þingi virðast ekki hafa neinn áhuga á því að byrja að rétta af lýðræðishallann strax í næstu kosningum með jafn lítilli breytingu á kosningalögum og persónukjör væri. 

Þeir eru á fullu við að afgreiða þessi mál eftir gömlu, misheppnuðu og ólýðræðislegu aðferðunum. 

Strax er farið að væla yfir því eina ferðina enn að þingið megi ekki vera að því að fást við þetta mál, - önnur mál séu svo miklu brýnni.

Samt hefur margoft komið fram að ofríki framkvæmdavaldsins og fyrirferð er svo mikil að þingið hafi tímunum saman lítið að gera á meðan það er að bíða eftir því að ráðherrunum og ráðuneytunum þóknist að leggja fyrir það frumvörpin til afgreiðslu. 

Og nú er líka farið að kvarta yfir því að það yrði allt of dýrt að halda sérstakt stjórnlagaþing. Eins og lýðræðisskorturinn hafi ekki þegar valdið nógu miklu tjóni. 


mbl.is Ingibjörg Sólrún ekki að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband