Persónukjör í kosningum væri eðlilegast.

Nú sést vel hve óheppilegt það er að ekki skuli vera viðhaft persónukjör í kosningum hér eins og til dæmis í Finnlandi. Uppstillingaraðferðir á borð við prófkjör og kjördæmisþing hafa reynst meingallaðar, en í kjörklefanum kæmist hver kjósandi viðkomandi lista í beint og ótruflað samband við þá sem í framboði eru ef persónukjör væri viðhaft.

Þar kæmi hið raunverulega traust sem kjósendur hafa á frambjóðendum fram. 

Forystufólk flokkanna sem nú eiga fulltrúa á þingi virðast ekki hafa neinn áhuga á því að byrja að rétta af lýðræðishallann strax í næstu kosningum með jafn lítilli breytingu á kosningalögum og persónukjör væri. 

Þeir eru á fullu við að afgreiða þessi mál eftir gömlu, misheppnuðu og ólýðræðislegu aðferðunum. 

Strax er farið að væla yfir því eina ferðina enn að þingið megi ekki vera að því að fást við þetta mál, - önnur mál séu svo miklu brýnni.

Samt hefur margoft komið fram að ofríki framkvæmdavaldsins og fyrirferð er svo mikil að þingið hafi tímunum saman lítið að gera á meðan það er að bíða eftir því að ráðherrunum og ráðuneytunum þóknist að leggja fyrir það frumvörpin til afgreiðslu. 

Og nú er líka farið að kvarta yfir því að það yrði allt of dýrt að halda sérstakt stjórnlagaþing. Eins og lýðræðisskorturinn hafi ekki þegar valdið nógu miklu tjóni. 


mbl.is Ingibjörg Sólrún ekki að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það yrði til mikilla bóta að afnema þessa 5% reglu.

Mér þótti mjög óréttlátt á sínum tíma að þinn flokkur skyldi ekki komast inn á þing þrátt fyrir að hafa náð góðum árangri í sínum fyrstu kosningum.

Nú heyrist mér að þessi regla verði afnumin ekki satt? Það væri til bóta.

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 11:15

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það merkilega er að hvergi virðist minnst á þessa sjálfsögðu leiðréttingu sem er svo einföld að einfaldara getur það ekki verið. Aðeins að breyta tölunni 5% í aðra prósentu, til dæmis 1,6% sem er aðeins meira fylgi en er á bak við hvern þingmann.

Ómar Ragnarsson, 15.2.2009 kl. 16:34

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þessi fimm prósent regla er í Stjórnarskránni, þannig að ekki er hægt að breyta henni fyrir alþingiskosningarnar nú í vor.

Hins vegar getur Alþingi breytt þessari reglu fyrir kosningarnar og staðfest svo breytinguna þegar það kemur saman á ný. En ég geri nú frekar ráð fyrir að þetta verði eitt af þeim atriðum sem stjórnlagaþing fái til umfjöllunar nú í haust.

Stjórnarskrá Íslands

31. grein. Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára. ...

Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu."

Þorsteinn Briem, 15.2.2009 kl. 17:09

4 identicon

það veitir öruglega ekki af að fylgjast vel með framvindu mála í þessu efni næstunni. En stjórnarliðar hafa ítrekað sagt að til standi að gera breytingar til þess að gera persónuframboð möguleg. Mér finnst að það eigi bara að miðast við fylgi sem nemur einu þingsæti.

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 17:36

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þessi 5% regla var sett í Stjórnarskrána árið 1999 með stjórnskipunarlögum nr. 77/1999.

En hægt er á yfirstandandi Alþingi að breyta Lögum um alþingiskosningar nr. 24/2000, eins og þeim var til dæmis breytt með lögum nr. 15/2003, þannig að þau gildi í alþingiskosningunum nú í vor.

Kjósendur gætu þannig til dæmis kosið frambjóðendur í sínu kjördæmi, sem væru ekki á listum stjórnmálaflokkanna, en þyrftu þó að hafa varamenn, sem tækju sæti á Alþingi í forföllum þeirra.

Lög um alþingiskosningar nr. 24/2000:

82. grein. Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross í ferning fyrir framan bókstaf þess lista á kjörseðlinum sem hann vill kjósa.

Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.

Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.

83. grein. Kjósandi má ekki hagga neitt við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð."

Það þarf engan veginn að vera óeðlilegt að stjórnmálaflokkarnir ákveði röð frambjóðenda á sínum listum á kjörseðlunum. Margir kjósendur breyta ekki röð frambjóðenda á listunum og því væri ótækt að hafa þá til að mynda í stafrófsröð á listunum.

Hins vegar væri til dæmis hægt að banna opin prófkjör og frambjóðendum í prófkjörum að taka við fjárframlögum vegna þeirra.

Þorsteinn Briem, 15.2.2009 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband