19.2.2009 | 14:45
"Alltaf er nú munur að fara í hreint."
Náungi einn sem ég hitti fyrir nokkrum dögum hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að Framsókn minnti sig á kerlinguna, sem ætlaði að hífa sig upp úr skítnum, dubba sig flotta upp og fara á ball þar sem átti að slá í gegn og verða stelpan sem færi heim með sætasta stráknum eftir ballið.
Kerlingin byrjaði á því að fara úr nærbuxunum, sneri þeim úthverfum, fór í þær aftur og sagði: "Alltaf er nú munur að fara í hreint."
![]() |
Segir sig úr Framsóknarflokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.2.2009 | 12:12
Dæmi um "eitthvað annað".
CCP er gott dæmi um það sem stóðiðjusinnar hafa kallað í lítillækkandi og háðslegum tóni "eitthvað annað" þegar þeir hafa haldið því fram að ekkert annað en stóriðja og stórkarlalegur verksmiðjuiðnaður geti bjargað atvinnumálum þjóðarinnar. Varaþingmaður Frjálslynda flokksins talar háðslega um það að ekki sé hægt að lifa af grasi og káli.
Viðmælandi minn einn sagði við mig að við yrðum að halda áfram að virkja alla orku Íslands fyrir álver. "Stefna þín leiðir til þess að við förum aftur inn í torfkofana", sagði hann. "Það er bara um tvennt að velja, fjallagrös eða ál."
Engu breytti fyrir honum þótt ég benti honum á við framleiddum þegar fimm sinnum meiri raforku en við þyrftum til eigin nota og því væri vandséð hvernig við færum aftur inn í rafmagnslausa torfkofa þótt við færum ekki hans leið sem myndi enda með því að við framleiddum tíu sinnum meiri raforku en við þyrftum til eigin nota og útveguðum samt ekki nema 2% af vinnuafli landsins atvinnu.
Fiskveiðar og landbúnaður eru mjög lítill hluti af þjóðarframleiðslu Dana og þeir eiga engar orkulindir né hráefni. Danska þjóðin, 5,4 milljónir manna eða átján sinnum fleira fólk en Íslendingar verður því að lifa af "einhverju öðru" og er með einhver bestu lífskjör í heimi.
Danir eiga nær enga skóga en húsgagnaframleiðsla þeirra tekur fram stærstu atvinnuvegum á Íslandi. Þótt Danir lifi nær eingöngu á "einhverju öðru" eru þeir ekki á leið inn í torfkofa eða á hungurgöngu út á jóskar heiðar til að bíta gras. Danskur stjórnmálamaður, sem vildi láta reisa kjarnorkuver til að knýja álver myndi ekki eiga mikla möguleika á að fá hljómgrunn.
![]() |
CCP með flesta starfsmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
19.2.2009 | 10:08
Hvert orð er dýrt.
Hvert orð, sem sagt er og túlka má sem íslenska stjórnarstefnu getur verið dýrt, jafnvel hægt að meta það upp á hundruð milljarða.
Það er merkilegt að tveir af reyndustu og sjóuðustu stjórnmálamönnum þjóðarinnar, fjandvinirnir Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson, skyldu lenda í þeirri gryfju að orð þeirra yllu titringi og skaða erlendis þegar við þurfum síst á slíku að halda.
Í blaðamennsku er það ein af fyrstu reglunum, sem menn læra, að ef einhver vafi leikur á því að staðhæfing sé fullkomlega rétt eða geti misskilist, sé skást að sleppa henni alveg.
"Við borgum ekki", hin margspilaða setning Davíðs Oddssonar í ljósvakamiðlum heimsins, varð dýrasta setning Íslandssögunnar, og seint hefði maður trúað því að nokkurn vegin sama setning, "við borgum ekki", yrði aftur margtugginn í fjölmiðlum erlendis, en nú úr munni forseta vors.
Í báðum tilfellum máttu sjóaðir stjórnmálamenn vita að í hraða fjölmiðlaumhverfisins myndu útskýringar eftir á, þar sem reynt yrði að draga í land eða saka blaðamenn um að taka ummælin út úr samhengi, hrökkva skammt.
Ég hef áður á þessum vettvangi lýst því hve góður fulltrúi þjóðarinnar forsetinn hefur verið á erlendri grund lengst af ferils síns. Vandséð að annar Íslendingur hefði getað sinnt því betur.
En nú sýna skoðanakannanir vel að traust þjóðarinnar á honum hefur hrapað og að framundan er erfiður róður hjá honum við að endurheimta það. Einkum benda nýjustu upplýsingar til þess að dæmalaus ræða hans yfir sendiherrum erlendra ríkja í boði í danska sendiráðinu hafi verið slæm mistök.
Ég hef gagnrýnt aðra fyrir óskynsamlegt og hrokafullt tal gagnvart umheiminum og hið sama á við forsetann og aðra í þeim efnum.
![]() |
Forsetaviðtal olli skjálfta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.2.2009 | 00:52
Hinar "séríslensku aðstæður".
"Séríslenskar aðstæður" hafa verið eftirlætisorð margra til að réttlæta hluti sem fá að hafa sinn gang hér á landi þótt slíkt þekkist ekki í öðrum löndum.
Dæmi: Á þeim tíma sem ég fjallaði hvað mest um rökin fyrir því að lögleiða notkun bílbelta linnti ekki háværum röddum um "séríslenskar aðstæður" sem gerðu beltin ekki aðeins óþörf hér á landi heldur beinlínis skaðleg.
Þingmenn voru svo hræddir við þetta að þeir leyfðu þá undantekningu frá lögunum að fólk mætti aka um bröttustu og hættulegustu fjallvegina eins og til dæmis Ólafsfjarðarmúla til þess að það gæti kastað sér út úr bílunum ef þeir færu út af veginum og yltu !
Alveg var horft framhjá því að flest banaslys vegna bílbeltaleysis verða vegna þess að fólk kastast út úr bílunum.
Að lokum gerðist síðan hörmulegt slys Ólafsfjarðarmegin þegar bíll fór þar útaf og valt og af hlaust banaslys af því að fólkið var ekki í bílbeltum en auðséð var á bílflakinu, sem var ótrúlega heillegt, að bílbeltanotkun hefði í því tilfelli eins og að meðaltali fimm sinnum á ári hér á landi árlega, bjargað mannslífum.
Ég rökræddi þetta mál mikið við ýmsa, til dæmis einn vin minn fyrir norðan, sem hélt stíft fram hinum "séríslensku aðstæðum." Hann var í karlakór sem fór síðar í söngferð til Noregs og kom þaðan alveg hissa á því að hinar "séríslensku aðstæður" voru algengari þar í landi en á Íslandi og engin undantekning gerð þar á bílbeltanotkuninni !
Nú eru þrjátíu ár síðan ég hóf að fjalla um bílbeltanotkunina í Vísi og í Sjónvarpinu og á þeim tíma hafa um það bil 150 manns farist í bílslysum á Íslandi vegna þess að ekki voru notuð bílbelti.
Og "séríslenskar aðstæður" virðast nú ráða aldeilis óskammfeilinni lagasetningu, rétt fyrir stjórnarskipti.
Í öllum löndum í kringum okkur er það gild regla og viðurkennd, þótt ekki sé það beinlínis lögbundið, að ráðherrar, sem eru við það að láta af störfum, binda ekki hendur eftirmanna sinna með því að setja lög um mikilvæg málefni, sem kunna að vera á skjön við það sem vitað er að eftirmennirnir muni gera. Ráðmenn sem eru á síðasta snúningi á embættistíð sinni eru kallaðir "lame duck", lamaðar endur.
Ákvörðun á borð við þá sem Einar K. Guðfinnsson tók nokkrum dögum fyrir stjórnarskipti þegar fyrirséð var að hann yrði ekki áfram ráðherra yrði bæði talin stangast á við ríkjandi hefðir í öðrum löndum og gjörsamlega siðlaus að auki.
En hér ríkja "séríslenskar aðstæður", með "séríslensku siðferði". "Löglegt en siðlaust"var einhvern tíma sagt og það á vel við nú.
Nú liggur fyrir frumvarp um persónukjör, byggt á því sem reynst hefur best í því efni erlendis.
En Sjálfstæðisflokkurinn leggst hatrammlega á móti því og ber fyrir sig tímaskorti þótt mánuður sé til þingloka. Líklega gilda "séríslenskar aðstæður" í þessu máli eins og svo mörgum öðrum sem bregða þarf fæti fyrir.
![]() |
Kvalræði sjávarútvegsráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)