Hinar "séríslensku aðstæður".

"Séríslenskar aðstæður" hafa verið eftirlætisorð margra til að réttlæta hluti sem fá að hafa sinn gang hér á landi þótt slíkt þekkist ekki í öðrum löndum.

Dæmi: Á þeim tíma sem ég fjallaði hvað mest um rökin fyrir því að lögleiða notkun bílbelta linnti ekki háværum röddum um "séríslenskar aðstæður" sem gerðu beltin ekki aðeins óþörf hér á landi heldur beinlínis skaðleg.

Þingmenn voru svo hræddir við þetta að þeir leyfðu þá undantekningu frá lögunum að fólk mætti aka um bröttustu og hættulegustu fjallvegina eins og til dæmis Ólafsfjarðarmúla til þess að það gæti kastað sér út úr bílunum ef þeir færu út af veginum og yltu ! 

Alveg var horft framhjá því að flest banaslys vegna bílbeltaleysis verða vegna þess að fólk kastast út úr bílunum. 

Að lokum gerðist síðan hörmulegt slys Ólafsfjarðarmegin þegar bíll fór þar útaf og valt og af hlaust banaslys af því að fólkið var ekki í bílbeltum en auðséð var á bílflakinu, sem var ótrúlega heillegt, að bílbeltanotkun hefði í því tilfelli eins og að meðaltali fimm sinnum á ári hér á landi árlega, bjargað mannslífum. 

Ég rökræddi þetta mál mikið við ýmsa, til dæmis einn vin minn fyrir norðan, sem hélt stíft fram hinum "séríslensku aðstæðum." Hann var í karlakór sem fór síðar í söngferð til Noregs og kom þaðan alveg hissa á því að hinar "séríslensku aðstæður" voru algengari þar í landi en á Íslandi og engin undantekning gerð þar á bílbeltanotkuninni ! 

Nú eru þrjátíu ár síðan ég hóf að fjalla um bílbeltanotkunina í Vísi og í Sjónvarpinu og á þeim tíma hafa um það bil 150 manns farist í bílslysum á Íslandi vegna þess að ekki voru notuð bílbelti.

Og "séríslenskar aðstæður" virðast nú ráða aldeilis óskammfeilinni lagasetningu, rétt fyrir stjórnarskipti.

Í öllum löndum í kringum okkur er það gild regla og viðurkennd, þótt ekki sé það beinlínis lögbundið, að ráðherrar, sem eru við það að láta af störfum, binda ekki hendur eftirmanna sinna með því að setja lög um mikilvæg málefni, sem kunna að vera á skjön við það sem vitað er að eftirmennirnir muni gera. Ráðmenn sem eru á síðasta snúningi á embættistíð sinni eru kallaðir "lame duck", lamaðar endur.

Ákvörðun á borð við þá sem Einar K. Guðfinnsson tók nokkrum dögum fyrir stjórnarskipti þegar fyrirséð var að hann yrði ekki áfram ráðherra yrði bæði talin stangast á við ríkjandi hefðir í öðrum löndum og gjörsamlega siðlaus að auki. 

En hér ríkja "séríslenskar aðstæður", með "séríslensku siðferði". "Löglegt en siðlaust"var einhvern tíma sagt og það á vel við nú.

Nú liggur fyrir frumvarp um persónukjör, byggt á því sem reynst hefur best í því efni erlendis. 

En Sjálfstæðisflokkurinn leggst hatrammlega á móti því og ber fyrir sig tímaskorti þótt mánuður sé til þingloka. Líklega gilda "séríslenskar aðstæður" í þessu máli eins og svo mörgum öðrum sem bregða þarf fæti fyrir. 


mbl.is Kvalræði sjávarútvegsráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Trúlega verða eingöngu landnámshænur í boði, fyrst þetta verða ekki persónukosningar.

Þorsteinn Briem, 19.2.2009 kl. 01:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband